Skírnir - 01.01.1935, Page 144
142
Stofnun Fjölnis.
[Skírnir
en Tómas kom til Hafnar í maí 1834. Nú mætti að vísu
gizka á, að Tómas hefði hvatt þá félaga til þessa fyrir-
tækis í bréfum. En um þau bréf vitum vér ekkert, og það
er ólíklegt, að Jónas hefði fremur glatað bréfum frá Tóm-
asi frá þessu tímabili en eldri og yngri bréfum. Ef Tómas
hefði verið með í nokkurum ráðum um stofnun tímarits-
ins, þegar boðsbréfið var samið, var eðlilegast, að nafn
hans stæði undir því, þó að hann væri fjarverandi, eða
þess væri getið í boðsbréfinu, að hann myndi leggja .rit-
inu lið sitt. Þessum þremur „studiosis juris“ hefði ekki
þótt það lítils vert, að geta nefnt slíkan mann sem styrkt-
armann ritsins. Og hver, sem þekkir ráðríki og dugnað
Tómasar, getur sagt sér það sjálfur, að ef hann hefði ver-
ið þarna við riðinn, hefði hann ekki talið eftir sér að
semja boðsbréfið í hendur þeim félögum sínum, eins og
hann samdi síðan stefnuskrána í fyrsta árg. Fjölnis. En
boðsbréfið ber engin merki Tómasar.
Þeir Jónas, Konráð og Brynjólfur hafa ætlað sér að
gefa út rit, sem hefði orðið með sama svip og „Útlenzki
og almenni flokkurinn" í fyrsta árg. Fjölnis: „stutt og
auðskilin og skemmtileg brot og ágrip ýmislegra vísinda“
(ritgerð Jónasar „Um eðli og uppruna jarðarinnar“)r
„skynsamlegt og skemmtilegt", „nytsöm dægrastytting“-
Það er enginn bardagahugur í þeim, en þeir ætla sér að
fræða almenning og bæta smekk hans á bókmenntir og
mál með því að vanda efnisval og búning.
Svo kemur Tómas til Hafnar í miðjum maímánuði.
Hann var góður vinur Brynjólfs, og honum þótti vænst
um Jónas allra manna, en með honum og Konráði mun
áður hafa verið lítil vinátta. Hann kynnist fyrirætlunum
þeirra félaga, lízt vel á, að eitthvað sé gert, en vill gera
miklu meira en þeir. Um leið og Tómas er genginn í fe-
lagið, þó að hann komi síðastur, tekur hann stjórnina i
sínar hendur. „Fyrsta atriðið er nytsemin. Allt, sem í rit-
inu sagt verður, stuðli til einhverra nota“ (Fjölnir I, 8).
Þetta er rödd Tómasar. Það er svo mikið til í því, að Tóm-
as sé aðalstofnandi Fjölnis, að án hans hefði ritið ekki