Skírnir - 01.01.1935, Síða 170
168
Abessinía.
[Skírnir
Nokkuð hefir verið gert til að bæta menntun fólks-
ins, skólar hafa verið stofnaðir og allmörg dagblöð koma
út, en öll eru þau háð ritskoðun. Margir ungir menn voru
sendir til náms í Frakklandi, Englandi og Bandaríkjun-
um. Stórt sjúkrahús hefir verið reist, hið fyrsta í Abess-
iníu, sem telja má að samsvari kröfum nútímans.
Loks réðst keisarinn í það stórræði að afsala sér ein-
veldinu. Þann 16. júlí 1931 gaf hann landinu stjórnarskrá,
og samkvæmt henni skal ríkið vera eitt, undir yfirstjórn
keisarans. Jafnframt var stofnað þing í tveimur deildum;
það hefir þó aðeins ráðgjafarvald, nema í einstaka mál-
um. Allir skyldu vera jafnir fyrir lögunum, en slíkt hefir
verið sjaldgæft í Abessiníu fyrr en nú. Dómsvaldið er í
höndum héraðsstjóranna, en öllum stærri málum má
áfrýja til keisarans. Dæmir hann þau sjálfur, með aðstoð
„spekinga" sinna. Refsiréttur landsins er sniðinn eftir
Móselögum, en önnur lög eru samin eftir lögbók Jústin-
ians keisara. Réttarfarinu er mjög ábótavant, en refs-
ingar fyrir glæpi hafa verið mildaðar nokkuð. Fyrr á tím-
um voru þær hræðilega strangar. Nú hafa svissneskir
lögfræðingar verið fengnir til þess að semja uppkast að
lögbók fyrir ríkið.
Stjórn Abessiníu hefir lagt mikið kapp á að koma
sér vel við aðrar þjóðir. Þannig gerði hún vináttusamn-
ing við Holland og Japan 1927, en það, sem mestu skifti,
var þó, að samkomulag náðist við Englendinga um virkj-
un Tanavatnsins.
Eftir að málið hafði verið á döfinni í full 30 ár, tók-
ust samningar milli Englands og Abessiníu í nóv. 1927,
og samkvæmt þeim skuldbinda Abessiníumenn sig til þess
að leyfa engum að gera nein mannvirki við vatnið án sam-
þykkis Bretastjórnar, og að öðru jöfnu skuli Bretar sitja
fyrir öðrum þjóðum, um framkvæmd slíkra verka.
Nokkru áður hafði verið gerður samningur við amerískt
firma, um að byggja stíflu við vatnið, en hann var nú
numinn úr gildi, eða að minnsta kosti frestað um óákveð-
inn tíma.