Skírnir - 01.01.1935, Page 176
174
Hallmundarkviða.
[Skírnir
höllu mælt af sandöldum þeim eða bökkum, sem eru
við árfarveginn, þar hún nú á harðri grjóteyri eða aur
rennur" (Safn IV, bls. 196—7).
Lýsingarnar á Kötlugosunum eru ritaðar af skarpri
athugun og óvenjulegri orðkyngi, er sýnir, að atburð-
irnir hafa gagntekið höfundana og lyft huga þeirra á
flug. Gerum ráð fyrir, að höfundur Hallmundarkviðu
hafi séð jöklabruna, t. d. 1262, og að það hafi orðið
honum yrkisefni. Undiralda kvæðisins verður þá þessi
heimslitauggur, sem grípur menn við slík umbrot nátt-
úrunnar. En skáldinu nægir ekki að lýsa atburðunum
eins og þeir koma honum fyrir sjónir og heyrn, hann
verður að gera grein fyrir orsökum þeirra, skýra þá,
sýna þá sem þátt í ægilegum sjónleik, blása í þá lífi og
anda. Jarðfræði var þá engin til, svo að ekki var þang-
að skýringar að leita. Kenning kirkjunnar, að fjandinn
stæði fyrir slíkum eldi, ,,þeim er hann kveykir ok gætir
síðan vakrliga með ógrligum jarðskjálftum“, eins og
segir í ,,Konungs-skuggsjá“, var ekki skáldleg, þó að
skáldið hefði þekkt hana. Þá var betri þjóðtrúin og
goðafræðin, sögurnar um jötna, Surt og aðra, og viður-
eign Þórs við þá. Það var trú, sem stóð á gömlum merg.
Og hvort sem skáldið átti heima í Þykkvabæjarklaustri
og þekkti „Harmsól“ Gamla kanoka og ,,Plácítúsdrápu“
eða ekki (smbr. „lyptidraugr liðbáls“, Hallm.kv. og
„lyptimeiðr linns láðs“, Harmsól, „lypti-móði leggjar
farms“, Plác.dr., „seima særir“, Hallm.kv., „særir
seims“, Plác.dr.), þá var þarna áhrifamikil umgerð að
setja atburðina í. Þá lá beint við að láta jötun segja frá
öllu saman, því að hver er sínum hnútum kunnugastur.
Nú höfðu þjóðsögur gengið um Hallmund jötun hér á
landi, eins og Grettissaga sannar, og hann virtist vera
einkar mannlegur og drengur góður. Hann var tilvalinn
í þetta hlutverk. Frásögn hans af viðureign Þórs við
jötna og ósigri þeirra verður sorgarleikur og samúðin
með þeim, sem ber lægri hlut: