Kirkjuritið - 01.05.1957, Síða 6
Sfá, þar er maðurinn
„Sjá, þar er maðurinn." Það bendir oss ekki aðeins á
Jesú, það merkir ekki einungis þetta: Sjáið þennan mann, sem
bíður dóms síns frammi fyrir Pílatusi, heldur getur það engu
síður þýtt þetta: Sjáið manninn, mannveruna, þennan ein-
stakling hins hrjáða mannkyns. Sjáðu mig, sjáðu þig. — Og
manninn fáum vér sannarlega séð, meðan vér fylgjum Jesú
á þjáningargöngu hans. Og hér er ekki um það að ræða, að vér
grandskoðum einvörðungu þá Júdas og Pétur og æðstu prest-
ana og öldungana, Pílatus og Heródes og hermennina siðlausu
og trylltan múginn, heldur skyldum vér líta til vor sjálfra,
renna augunum í eigin barm. Hvar erum vér stödd í þessum
hópi? Hvernig er oss sjálfum farið? Hverjum líkjumst vér helzt
þeirra, sem verða á vegi vorum, er vér fylgjum Jesú á píslar-
göngu hans. Erum vér hætinu betri en prestarnir og farísearnir
sjálfumglöðu? Betri en Pílatus, sem að vísu þekkir sannleik-
ann, en brestur manndóm til að fylgja honum eftir: Vinnur
það þó fyrir vinskap manns að víkja af götu sannleikans? Betri
en Heródes, sem skortir þrek til að taka ábyrgðina á sig? Betri
en hermennirnir, sem gegna fyrirskipunum í blindni? Betri en
Pétur, sem afneitar, þegar drottinn þarf næst á örvun og stað-
festu að halda, en snýr seinna frá villu síns vegar? Betri en
sá, er svíkur, en örvæntir svo, að trú hans bregzt og hann fær
ekki eygt nokkra von?
Kannski þurfum vér á þessari áminningu að halda: Sjá, þar
er maðurinn. En hvað um það, vísast erum vér einnig þeir,
sem beðið er fyrir: Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki
hvað þeir gjöra.
Eða vorum vér kannski ekki í þessum hópi, sem minnzt var
á? Ef til vill hefir þú ekki komið auga á sjálfan þig, getur ver-
ið, að þar hafi ekki svo mikið sem brugðið fyrir svip þínum.