Eimreiðin - 01.10.1957, Qupperneq 20
252
EIMREIÐIN
Það er heldur ekkert nema tómur slæpingjalýður í síldinni.
í sama bili var barið að dyrum, og pósturinn færði þeim
bréfið. Gömlu hjónin höfðu lifað hartnær þrjá aldarfjórð-
unga, en þetta var fyrsta bréfið sem þau höfðu fengið frá
útlöndum. Og þetta bréf var meira að segja frá landi hinum
megin á hnettinum; þau störðu langtímum saman á frímerk-
ið eitt, litskrúðugt og dularfullt, sem væri það teikn frá öðr-
um heimi. Alla næstu daga var gamli maðurinn að lesa bréfið
fyrir konuna; hann var hættur að líta í blöðin, og hún var
hætt að spyrja hann, hvað í blöðunum stæði. Hann tók bréf-
ið fram á morgnana og las það upphátt fyrir konuna. Þau
sofnuðu út frá því á kvöldin.
Og þau töldu dagana, þangað til hann kæmi.
Það var þegjandi samkomulag þeirra að segja engum frá
ferðum hans. Enda væru allir búnir að gleyma brottför hans
fyrir tuttugu árum nema þeir, sem ástæðu hefðu til að muna.
Og þeir, sem ennþá minntust hans, yrðu síztir til að fagna
honum á bryggjunni.
En gömlu hjónin töldu dagana.
Hann er sonur minn jafnt, þótt hann hafi orðið manns-
bani af gáleysi, hafði gamla konan sagt prestinum og lögregl-
unni fyrir tuttugu árum, og þessa setningu hafði hún enn upp
fyrir sér í huganum eftir öll þessi ár.
Kettlingurinn hafði krækt í bandhnykilinn og veltist með
liann um gólfið, þar til allt var komið í eina bendu. Gamla
konan lét köttinn óáreittan. Maðurinn lá á bekknum og las
bréfið enn.
Því skyldi hann koma heim núna? spurði hann annars hug-
ar. Og hefur aldrei látið frá sér heyra öll þessi ár.
Gamla konan strauk gráar flétturnar og horfði út um glugg-
ann, þar sem fólkið flýtti sér fram hjá á götunni, fótatakið
heyrðist greinilega inn í húsið.
Nú er fyrnt yfir þetta óhappaverk. Hann vill korna heim til
foreldra sinna, móður sinnar og föður. Honum þótti alltaf
svo undurvænt um okkur, þótt óstýrilátur væri, hann vildi
alltaf vera hjá okkur, nú kemur hann heim til að vera hjá
okkur þangað til við deyjum. Allir hafa fyrirgefið honum
þetta ölæðisverk.