Eimreiðin - 01.01.1972, Page 80
ÉIMREIÐIN
ÆSKAN ER
IHALDSSÖM
Hermann Liibbe er heimspeki-
prófessor, sem vakið hefur mikla
athygli á undanförnum árum fyrir
andstöðu við sjónarmið róttækra,
ungra vinstrimanna. Hann er flokks-
bundinn jafnaðarmaður og tók um
tíma þátt í stjórnmálum. Hann var
árið 1970 í nokkra mánuði ráðu-
neytisstjóri háskólamála í Nord-
rhein-Westfalen, en sagði af sér, m.
a. vegna andstöðu við kröfur um
aukna þátttöku stúdenta í stjórn
háskóla.
Þá þegar var hann orðinn kunn-
ur fyrir athuganir sínar á pólitískri
hugmyndafræði. En eftir ráðuneyt-
isstjóraskeiðið hóf hann fyrir al-
vöru að gera athuganir á róttækni
ungs fólks á gagnrýninn hátt. Jafn-
framt átti hann árið 1970 þátt í að
stofna „Samtök fyrir frelsi vísind-
anna“. Þau samtök hafa á stefnu-
skrá sinni að vernda sjónarmið
raunvísindalegra vinnubragða gegn
ásókn trúarbragðalegrar kreddu,
sem þau töldu róttæka vinstri-
menn vera að reyna að leiða inn í
vestur-þýzka háskóla.
Liibbe hefur nú á skömmum
tíma ritað tvær bækur: „Theorie
und Entscheidung" og „Hochschul-
reform und Gegenaufklárung", þar
sem hann tekur áhugamál sín til
meðferðar. Þar reynir hann að
gera skarpan greinarmun á félags-
legri og frjálslyndri pólitík annars
vegar og útópiskum draumsýnum
um allsherjar áætlanagerð hins veg-
ar.
Lubbe heldur því fram, að hin
róttæka æska sé ekki á leið breyt-
inga og framfara, ekki í uppreisn
gegn stirðnuðu kerfi þjóðfélags nú-
tímans. Hún sé þvert á móti í upp-
reisn gegn hinum öru breytingum,
sem tækniþróunin leiðir af sér.
Þessi æska vilji losna við þjóðfé-
lag, sem leggur mönnum á herðar
þá nauðsyn að þurfa stöðugt að
breyta eðli sínu í takt við tímans
öru rás. Æskan óttist að glata sjálfi
sínu í hringiðu nútímans og óttist
óvissu framtíðarinnar.
Aðeins með þessu sé hægt að
skýra hið trúarlega inntak í sjón-
armiðum hinnar vinstri sinnuðu
æsku. Hún eigi sín helgirit eftir
Marx og Engels, Lenin og Trotzki,
Mao og Guevara. Hún trúi á end-
anlega ákvarðaðan sannleika. Og
hún sé í stöðugri baráttu gegn villu-
trúarmönnum. Þar vísar Lúbbe til
hinnar þrálátu styrjaldar milli
hinna einstöku greina marxismans
um rétta útleggingu hinna heilögu
texta.
Lúbbe segir nýmarxismann eiga
það sameiginlegt með indversk-
ættaðri dulspeki og Jesús-popisma
að vera trúarlegs eðlis, eins konar
andstæða skynsemisstefnu og upp-
lýsingarstefnu, uppreisn gegn Vol-
taire og kaldri raunhyggju hins
borgaralega þjóðfélags.
Og Lúbbe vill einmitt skera upp
herör til varnar þessari köldu raun-
hyggju. Hann vill, að menn taki
höndum saman til varnar hinu
áþreifanlega frelsi hins borgara-
lega þjóðfélags, stjórnarskrárrétt-
indum, skoðanafrelsi, ritfrelsi, trú-
frelsi og svo framvegis.
Lúbbe vill, að stjórnmálin felist
í því að stjórna skútunni í tímans
straumi, en ekki í að stjórna
straumnum sjálfum. Hann mælir
með tækifærissinnaðri eða sveigj-
anlegri áætlanagerð, sem miðar við
þarfirnar hverju sinni og er í sam-
ræmi við möguleika vísinda og
tækni á hverjum tíma, en er and-
vígur útópiskum allsherjaráætlun-
um. Að þessu leyti hafa rit hans
verið skilin sem varnarræða fyrir
sjónarmiðum ríkisstjórnar Willy
Brandt, kanzlara Vestur-Þýzka-
lands.
80