Tímarit lögfræðinga - 01.11.1988, Blaðsíða 3
rniAiuT——
LÖI.IIMIHM.A
3. HEFTI 38. ÁRGANGUR NÓVEMBER 1988
HAGSMUNAÁREKSTUR
Ekki kæmi á óvart, þótt þjóðfélagsfræðingar kæmust að þeirri rannsóknar-
niðurstöðu, að ýmiss konar hagsmunaárekstur væri algengari vanhæfisástæða
í opinberri stjórnsýslu á íslandi en í öðrum löndum með svipaða menningar-
og lýðræðishefð. Til þessa geta legið ýmsar ástæður, svo sem fámenni, upp-
söfnun margra verkefna á hendur fárra einstaklinga svo og ótvíræð dýrkun
landsmanna á hagnýtum lausnum á kostnað hugsjóna og meginreglna.
Hagsmunaárekstur er sérstaklega bagalegur, þegar taka þarf ákvörðun um
tiltekið mál eða leysa úr ágreiningsefni. Slíkt leiðir óhjákvæmilega til þess,
að ákvörðunar- eða úrskurðaraðili er ekki — eða getur ekki vegna einhverra
tengsla við hagsmunaaðila máls verið fullkomlega frjáls við ákvörðun sína
eða úrskurð, hvort sem það reynist aðilanum í hag eða óhag. Hagsmuna-
árekstur af þessu tagi er bersýnilega til þess fallinn að skerða réttaröryggi
borgaranna, hversu góðir og heiðarlegir sem þeir menn eru, sem um fjalla.
Hættan er m.a. í því fólgin, að erfitt getur verið að sanna, að hagsmuna-
árekstur hafi orðið til þess, að hallað var réttu máli eða mismunun látin við-
gangast. Jafnvel það eitt, að réttarregla eða framkvæmd hennar veki almenna
tortryggni eða vantraust vegna hugsanlegra afleiðinga hagsmunaárekstra
grefur undan trausti almennings á réttarkerfinu og þar með réttarörygginu.
Margt bendir til þess, að skilningur fari nú vaxandi hér á landi á nauðsyn
eðlilegrar málsmeðferðar að þessu leyti. Ræður þar líklega mestu hugarfars-
breyting almennings og vökul eftirtekt fjölmiðla, þótt hún vilji stundum verða
nokkuð skrykkjótt og öfgakennd.
Líkur aukast nú á því, að dómsvald og framkvæmdarvald (þar með lögreglu-
og rannsóknarvald) verði loksins aðskilið á landinu öllu, svo að við þurfum
ekki lengur að búa við þá fráleitu tilhögun, að sami embættismaður (eða full-
trúi hans) þurfi t.d. að rannsaka ætlað afbrot og dæma síðan um það. Er hér
með skorað á stjórnvöld og Alþingi að vinda bráðan bug að nauðsynlegum
lagabreytingum f þessu efni og að sjálfsögðu í góðri samvinnu við þá embætt-
ismenn, sem eiga að framkvæma lögin. Kannski er nú von til þess, að nokk-
urn veginn sama réttarfar komist á á íslandi öllu.
133