Tímarit lögfræðinga - 01.12.1996, Page 56
manns Alþingis í máli nr. 1147/1994, frá 12. júlí 1996, var fjallað um mál, þar
sem ríkisstarfsmanni hefði verið sagt upp störfum vegna „samstarfsörðuleika“
„við yfirmenn“ og „ýmsa starfsmenn“. I álitinu kom fram, að almennt gæti slík
tilvísun til samstarfsörðugleika, sem ástæða uppsagnar ríkisstarfsmanns, ekki
verið fullnægjandi ein og sér. Kæmi þar einkum tvennt til. Annars vegar gætu
samstarfsörðugleikar tekið til þess, þegar um væri að ræða skort á vilja til
samstarfs, er gæti komið fram í því að hlutaðeigandi neitaði að hlýða lögmætum
fyrirmælum eða sinna nauðsynlegu samstarfi. Væri þá um að ræða brot á
starfsskyldum samkvæmt skýrum ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1954. Hins
vegar gætu samstarfsörðugleikar vísað til þess, að hlutaðeiganda skorti hæfni
eða getu til samstarfs við aðra, einkum hliðsetta starfsmenn, án þess að hægt
væri að heimfæra slíkt sem brot á starfsskyldum skv. 2. mgr. 7. gr. fyrrnefndra
laga. Ef slík atvik væru fyrir hendi, gætu þau verið lögmætur grundvöllur
uppsagnar skv. lögum nr. 38/1954, að gættum ákvæðum stjórnsýslulaga nr.
37/1993, enda styddist uppsögn við heimild í samningi eða lögum.
I málinu þótti ekki verða annað séð en að þeir samstarfsörðugleikar, sem til-
greindir hefðu verið sem ástæður uppsagnar starfsmannsins, hefðu verið meint
óhlýðni starfsmannsins við lögleg boð yfirmanna. Umboðsmaður Alþingis benti
á, að slíkar misfellur í starfi gætu ekki verið lögmæt ástæða uppsagnar, heldur
væri skylt, eins og áður segir, að fylgja ákvæðum 7.-11. gr. laga nr. 38/1954, um
réttindi og skyldur staifsmanna ríkisins, við meðferð máls þegar svo stæði á.
Framangreint álit hefur fordæmisgildi um þá starfsmenn sveitarfélaga, sem
bera réttindi og skyldur eftir lögum nr. 38/1954, samkvæmt samþykktum hlutað-
eigandi sveitarfélags. Þá veitir álitið vísbendingu um, hvemig vænta megi að
ákvæði 7.-11. gr. laganr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennaraog skólastjóm-
enda grunnskóla, verði skýrð, enda eru þau nánast samhljóða 7.-11. gr. laga nr.
38/1954. Aftur á móti leikur vafi á því, hvort 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi
og skyldur starfsmanna ríkisins, verði skýrð með sama hætti. Ástæðan er sú, að
skylt er að fara með fleiri mál samkvæmt ákvæðum 1. málsl. 1. mgr. 44. gr., sbr.
21. gr. laga nr. 70/1996, en samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 7. gr. eldri laga. Þannig
ber nú að fara með mál, eins og um brot á starfsskyldum sé að ræða, þegar
starfsmaður „hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi“. Ekki hefur enn reynt
á það í framkvæmd við hvaða aðstæður skortur starfsmanns á hæfni eða getu til
samstarfs við aðra starfsmenn fellur undir ákvæðið.14
14 í athugasemdum í greinargerð við 21. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 70/1996,
kemur fram, að það verði að meta heildstætt í hverju tilfelli, hvenær árangur teljist
ófullnægjandi, en túlka beri ákvæðið rúmt þannig að mörg tilvik geti komið til skoðunar í
þessu sambandi. Þannig beri t.d. að taka mið af helstu markmiðum í rekstri stofnunar og
verkefna hennar. Þá segir orðrétt: „ ... en gera verður þær kröfur til starfsmanna að þeir geti
unnið saman að þeim markmiðum sem stofnun er ætlað að ná. Af þeim orsökum geta
samstarfsörðugleikar haft verulegt vægi við mat á starfsárangri“. (372. mál á 120
löggjafarþingi, þskj. 650). Samkvæmt framansögðu virðist ljóst að skortur á getu starfsmanns
til samstarfs við aðra starfsmenn getur fallið undir ákvæðið í ákveðnum tilvikum.
192