Tímarit lögfræðinga - 01.05.1997, Blaðsíða 9
\
kölluðum einokunarhagnaði. Þessi rök eiga einnig við þegar eitt fyrirtæki hefur
yfirburðastöðu á markaðinum. Afleiðingin verður því hærra vöruverð og lakari
afkoma neytenda. Niðurstaðan af þessum samanburði er því augljóslega sú að
frjáls samkeppni sé af hinu góða en einokun af hinu illa. Þótt allir þeir sem að
samkeppnismálum koma séu í meginatriðum sammála þessum sjónarmiðum þá
hafa ýmsar athugasemdir verið gerðar við þessa framsetningu.4 I fyrsta lagi
byggir þetta á kenningum sem eiga sér tæpast stoð í veruleikanum. Aðstæður
fyrir fullkomna samkeppni eru t.a.m. sjaldnast til staðar. I öðru lagi er á ýmsum
sviðum þörf á stærðarhagkvæmni. I þriðja lagi þá segja menn að fullkomin
samkeppni leiði af sér einokun vegna þess að það fyrirtæki sem stendur sig best
í samkeppninni muni fyrr eða síðar ná yfináðum á markaðinum. Þrátt fyrir
þessar efasemdir hafa vestrænar þjóðir flestar talið að samkeppnisreglur væru
af hinu góða og því tekið þær upp í löggjöf sína.
2.2 Saga samkeppnisreglna
Samkeppnisreglur eiga upphaf sitt að rekja til Bandaríkjanna en í lok síðustu
aldar höfðu auðmenn, með John Rockefeller í broddi fylkingar, náð einokunar-
aðstöðu m.a. í járnbrautarflutningum. Einokunaraðstaðan var byggð upp með
þeim hætti að auðmennirnir mynduðu sjóði (e. trust) sem héldu um eignarráðin
í járnbrautarfyrirtækjunum.5 Þessi aðstaða var síðan notuð til að láta viðskipta-
vini greiða flutningsgjald í samræmi við endursöluverð viðskiptavinarins, alveg
óháð raunverulegum kostnaði við flutninginn. Til að verjast þessu voru sett lög,
svokölluð Sherman lög. í lögunum, 1. og 2. gr., var lagt bann við öllu samráði
um verð og einokun bönnuð. Síðar hafa verið sett lög í Bandaríkjunum þessum
reglum til fyllingar.
I Evrópu komu samkeppnisvandamál síðar til sögunnar en þegar að því kom
var að sjálfsögðu litið til reynslu Bandaríkjamanna í þessum efnum. Þegar
efnahagssamvinna hófst í Evrópu voru þeir sem komu að þeirri vinnu sammála
um að samkeppnisreglur yrðu að vera einn af hornsteinum slíkrar samvinnu.
Niðurstaðan varð síðan sú að settar voru fram tvær meginreglur, þ.e. 85. og 86.
gr. Rs., sem eru keimlíkar 1. og 2. gr. Sherman laganna.
2.3 Flokkun samkeppnisreglna
Samkeppnisreglur eru byggðar á tveimur grundvallaraðferðum. Annars vegar
á reglum sem banna allar samkeppnishömlur og hins vegar á reglum sem kveða
á um það hlutverk samkeppnisyfirvalda að grípa inn í samkeppnishömlur í
hverju einstöku tilfelli. Bannreglur eru lagðar til grundvallar í rétti ESB en ef
íslensku samkeppnislögin eru skoðuð þá sést að lögin fara bil beggja og banna
sumt en láta samkeppnisyfirvöldum eftir að grípa inn í annað.
4 Hér hefur háskólinn í Chicago verið fremstur í flokki.
5 Það er af þessari ástæðu sem samkeppnislög (e. competition-law) eru jafnan kölluð „anti-
trust“ lög í Bandaríkjunum.
65