Tímarit lögfræðinga - 01.05.1997, Síða 40
í fyrri dómum sínum hafði Hæstiréttur hafnað því nota viðmiðið um fullar
meðaltekjur iðnaðarmanna við ákvörðun örorkubóta þegar urn ungar stúlkur var
að ræða, sbr. H 1992 37. I héraðsdómi í því máli var á því byggt að óheimilt
væri með vísan til 3. og 4. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt
kvenna og karla að ákvarða tjónþola lægri örorkubætur fyrir þá sök eina að hún
væri stúlka.5 Hæstiréttur hafnaði því með vísan til þess að skýrslur Kjara-
rannsóknarnefndar sýndu að tekjur kvenna væru almennt lægri en karla og að
leggja yrði til grundvallar eins og unnt væri atvik sem gagngert vörðuðu tjón-
þola sjálfan og hefur þá verið átt við kyn tjónþolans þar sem um 8 ára stúlku
var að ræða sem hafði enga sögu á vinnumarkaði.6
í áður nefndum hæstaréttardómi frá 20. febrúar 1997 tók Hæstiréttur upp nýja
stefnu í málum sem þessum og byggði þá stefnubreytingu á tilvísun til 65. gr.
stjórnarskrárinnar. I dóminum segir:
Þótt útreikningar sýni, að meðaltekjur kvenna hafi almennt verið lægri en karla, getur
það ekki ráðið úrslitum, þegar til framtíðar er litið. Mismunun um áætlun framtíðar-
tekna, þegar engar skýrar vísbendingar liggja fyrir um tjónþola sjálfan, verður ekki
réttlætt með skírskotun til meðaltalsreikninga, en í 65. gr. stjórnarskrárinnar er boðið,
að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og konur og karlar njóta jafns réttar í hvívetna,
sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Ber því að hafa óskertar meðaltekjur
iðnaðarmanna til hliðsjónar, þegar framtíðartjón áfrýjanda er metið.
Með dómi þessum hefur Hæstiréttur sýnt að hann er reiðubúinn að beita 65.
gr. stjórnarskrárinnar en það þarfnast nánari skoðunar hverjar vísbendingar
dómurinn felur nánar tiltekið í sér um gildissvið og inntak hennar.
Sá háttur Hæstaréttar að dæma ungum stúlkum lægri örorkubætur en
drengjum var ekki réttarregla í sjálfu sér heldur frekar afleiðing af beitingu
5 3. gr. laga nr. 28/1991 er svohljóðandi: „Hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Þó
teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma
á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, ekki ganga gegn lögum þessum. Það telst ekki mismunun
að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða bamsburðar“. I 4. gr. laga nr. 28/1991
segir meðal annars: „Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir
jafnverðmæt og sambærileg störf1.
6 Afstaða Hæstaréttar í málum sem þessum var víða gagnrýnd og má segja að sú gagnrýni
kristallist í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1060/1992 Katrín Þórðardóttir gegn
Vátryggingafélagi Islands hf. og Guðjóni Inga Ingasyni, sem kveðinn var upp 19. apríl 1994.
I dóminum sagði: „Sú aðferð tryggingafræðinga að ætla stúlkum 75% af tekjuin pilta kann að
styðjast við samanburð á tekjum karla og kvenna á undanförnum árum. Sá mismunur verður
ekki útskýrður með öðru en kynferði og ekki með mislöngum vinnutíma. Samkvæmt 1. gr.
laga 28/1991,... er markmið jafnréttislaga að koma ájafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla
á öllum sviðum. Aðurnefnd aðferð virðist fela í sér óleyfilega ráðagerð um að ákvæði
jafnréttislaga muni ekki ná tilgangi sínum, hvorki í bráð né lengd. Ekki verður talið líklegra
að framtíðartekjur stefnanda verði 75% af meðaltekjum launþega en jafn háar þeim“.
96