Tímarit lögfræðinga - 01.05.1997, Side 44
um jafnrétti kynjanna og er þá sérstaklega hafður í huga alþjóðasamningur um
afnám allrar mismununar gagnvart konum sem Island hefur staðfest. I þessu
sambandi er einkum til athugunar að samningurinn kveður með afdráttarlausum
hætti á um jákvæðar skyldur rfkja til að framfylgja stefnu sem miðar að afnámi
mismununar gagnvart konum með öllum tiltækum ráðum þ.m.t. með setningu
viðeigandi löggjafar.14 Með jákvæðum skyldum á grundvelli mannréttinda-
ákvæða er almennt átt við þá aðstöðu að af mannréttindaákvæðunum rísi skylda
fyrir ríkisvaldið, umfram það sem handhöfum þess sjálfum þóknast, til þess að
grípa til viðeigandi aðgerða í einhverju af eftirtöldum tilvikum: a) í því skyni að
borgararnir geti raunverulega notið mannréttinda b) til þess að tryggja að
mannréttindi einstaklinga séu ekki brotin af hálfu annarra einstaklinga og/eða c)
til þess að tryggja að einkaaðilar grípi til aðgerða sem tryggja að aðrir einkaaðilar
geti raunverulega notið mannréttinda.15
Þótt dómur Hæstaréttar frá 20. febrúar 1997 í málinu Guðrún Eiríksdóttir
gegn íslenska ríkinu varði jafnrétti kynjanna vísar hann einnig í hina almennu
jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Má ætla að það feli ekki annað í sér en
að í því máli hafi bæði sérreglan um jafnrétti kynjanna og hin almenna
jafnræðisregla stjórnarskrárinnar falið hið sama í sér. Af dóminum verða engar
ályktanir dregnar um mörkin á milli reglnanna, hann hvorki slær því föstu að á
reglunum sé munur né að svo sé ekki. Það er í raun efni í aðra tímaritsgrein að
velta fyrir sér þeirri spurningu og spurningunni um jákvæðar skyldur ríkisins á
grundvelli mannréttindaákvæða stjómarskrárinnar.
I þessari grein verður ekki fjallað frekar um sérregluna um jafnrétti kynjanna,
heldur einungis um hina almennu jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þegar rætt
er um jafnræðisregluna hér á eftir er átt við hina almennu jafnræðisreglu ein-
göngu. Það sem hér á eftir verður sagt um hina almennu jafnræðisreglu stjórnar-
skrárinnar kann hins vegar að eiga jafnt við um sérregluna um jafnrétti
kynjanna en til einföldunar verður ekki tekin afstaða til þess. Þá verður hér ekki
frekar fjallað um spurninguna um það hvort jákvæðar skyldur verði á grundvelli
65. gr. stjórnarskrárinnar lagðar á herðar ríkisvaldinu heldur verður umfjöllunin
takmörkuð við það að skoða hvort í hinni almennu jafnræðisreglu stjórnar-
skrárinnar verður talin felast efnisregla sem takmarkar meðferð ríkisvaldsins
þannig að handhöfum ríkisvalds sé óheimilt að mismuna borgurunum sem fæli
í sér samsvarandi rétt fyrir borgarana til þess að þurfa ekki að sæta mismunun
fyrir hendi þeirra.
14 Samningur um afnám allrar mismununar gegnvart konum er birtur í Alþjóðlegir
mannréttindasáttmálar: Reykjavík, 1992, bls. 99-111. Margar þeirra umsagna sem
stjórnarskrárnefnd Alþingis bárust og taldar eru í neðanmálsgrein 10 bentu á þörf fyrir að
kveða á um jákvæðar skyldur ríkisins til að grípa til aðgerða í því skyni að útrýma
kynjamismunun.
15 Sjá t.d. D. J. Harris, M O'Boyle og C. Warbrick: Law of the European Convention on
Human Rights. Butterworths, London, 1995, bls. 284.
100