Tímarit lögfræðinga - 01.05.1997, Qupperneq 45
4. GILDISSVIÐ HINNAR ALMENNU JAFNRÆÐISREGLU 65. GR.
STJÓRNARSKRÁRINNAR
4.1 Ríkisvaldið
Mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar er almennt ætlað að vera vöm
almennings í samskiptum við þá sem fara með ríkisvald.16 I því felst að sjálf-
sögðu gífurlega mikilvæg vísbending um gildissvið mannréttindaákvæðanna.
Hins vegar geta sterkar vísbendingar í andstæða átt valdið vafa um gildissvið
einstakra ákvæða, þannig að ekki verði ályktað með neinu öryggi að þau eigi
með sama hætti við um öll svið ríkisvaldsins, þ.e. löggjafarvald, dómsvald og
framkvæmdavald. Þegar litið er á jafnræðisregluna kemur í ljós að ummæli
greinargerðar sem sérstaklega varða 3. gr. frumvarpsins eða hina almennu
jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eru takmörkuð við beitingu hennar um lög-
gjafarvaldið.17 Hið eina sem greinargerðin nefnir og getur falið í sér að gildis-
svið hennar nái út fyrir löggjafarvaldið er það þegar talað er um hlutverk
jafnræðisreglunnar sem leiðbeiningarreglu við skýringu laga en dómsvald og
framkvæmdavald skýra og beita lögum í réttarframkvæmd.18 Ekki er einu orði
vikið að þeim möguleika að reglunni verði beitt sem efnisreglu um meðferð
framkvæmdavaldsins eða dómsvaldsins.
Þær alþjóðlegu skuldbindingar sem einkum er vísað til í greinargerð og eru
því greinilega helstu fyrirmyndir hinnar almennu jafnræðisreglu 65. gr.
stjórnarskrárinnar eru 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 26. gr. Alþjóða-
samnings um borgaraleg og stjómmálaleg réttindi.19 Það er lögskýringarregla
að íslensk lög eigi að túlka með hliðsjón af alþjóðalögum en landslög gangi þó
framar séu þau ósamrýmanleg.20 Þá er það mikilvægt lögskýringarsjónarmið að
lögskýringu eigi að haga þannig að tilgangi laga verði sem best náð.21 Eins og
áður var greint þá var tilgangur stjómarskrárbreytinganna m.a. sá að endur-
skoða mannréttindaákvæðin með tilliti til þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem
16 Sjá greinargerð, bls. 12.
17 Greinargerð fjallar um jafnræðisregluna sem almenna leiðbeiningarreglu sem eigi við um
lagasetningu og það álitaefni ef lög brjóta í bága við hana, sbr. bls. 16. A bls. 17 segir að
reglunni sé ætlað að gilda á öllum sviðum löggjafar og veita öllum jafna lagavernd. Loks er
á bls. 18 útskýrt að réttlætanlegt kunni að vera að gera ákveðnum hópum hærra undir höfði
en öðrum í löggjöf og að lögákveðin skilyrði geti tekið mið af tilteknum atriðum.
18 Greinargerð, bls. 16.
19 Sjá greinargerð, bls. 16-18. Mannréttindasáttmáli Evrópu, ásamt viðaukum 1-8, í íslenskri
þýðingu er birtur í Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar: Reykjavík, 1992, bls. 13-40.
Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, ásamt valfrjálsri bókun og annarri
valfrjálsri bókun, í íslenskri þýðingu er birtur í Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar:
Reykjavík, 1992, bls. 71-98.
20 Sjá t.d. greinargerð, bls. 11.
21 Sjá Ármann Snævarr: Almenn lögfræði, Reykjavík 1988, bls. 404.
101