Ægir - 01.09.1996, Qupperneq 26
Bræðurnir Ormsson
Ný umhverfisvæn olíusía
margfaldar endingu olíunnar
„Nýja TF-Purifiner olíusían sem við erum að kynna um þessar mundir er
bylting í meðferð smurolíu sem hreinsar öll óhreinindi úr smurolíunni ■
smurkerfi vélarinnar og margfaldar endingu hennar," sagði Ásmundur
Guðnason deildarstjóri hjá Bræðrunum Ormsson hf. í samtali við Ægi.
„Þetta er umhverfisvæn olíusía sem
byggir á því að sía og hreinsa olíuna
stöðugt. í Bandaríkjunum þar sem þessi
tækni var fundin upp eru dæmi um að
vélar hafi gengið 1,5 milljón kílómetra á
sömu olíunni. Vökvakerfi hafa unnið á
sama vökvanum árum saman en þessari
tækni verður auðveldlega beitt til þess að
halda vökvakerfum hreinum."
Þegar það er haft í huga að árlega er
talið að tæplega tveimur billjónum lítra af
óhreinni smurolíu sé dælt út í umhverfið
með tilheyrandi mengunaráhrifum hljóta
þetta að teljast góð tíðindi fyrir þá sem
hafa áhuga á umhverfisvernd og vilja
draga úr smuroiíunotkun enda hefur TF-
Purifiner fengið vottun sem „Tækni gegn
mengun" frá efnamengunareftirliti um-
hverfisverndunarráðs Kaliforníu. Sían er
með sex mánaða skilaábyrgð og tíu ára
takmarkaðri ábyrgð.
„Þessi sía hreinsar agnir og óhreinindi
úr smurolíunni sem eru allt að 1 míkron
að stærð. Nokkrar af bestu fullfiæðisíum
ná eingöngu að sía frá svarfefni og önnur
föst óhreinindi niður að 15 míkrónum.
Sían vinnur þannig að fyrst fer olían gegn-
um þykkt lag af sérstakri pressaðri bómull.
Þaðan flæðir hún um sérstök hitahólf en
sérstök hitaelement halda jöfnum 90
gráðu hita þar. Við það gufa upp aukaefni
s.s. vatn, frostlögur, eldsneyti og annað og
fara annað hvort inn á safnbox eða inn á
loftsíuna aftur til brennslu. Helstu kostir
TF-Purifiner eru þessir: lengri líftími vélar,
olíukostnaður og eyðingargjöld minnka
um 90%, olíuskiptum fækkar og kjörseigja
helst, sían fjarlægir vatn, eldsneyti og
leysiefni, kemur í veg fyrir sýrumyndun,
fjarlægir brennistein og ryðagnir, eykur
vélarafköst og fækkar bilunum."
Ásmundur sagði að sían fengist í
nokkrum stærðum og hentaði því á nær
allar gerðir véla en hagkvæmnin væri
meiri eftir því sem vélin væri stærri.
Minnsta sían er miðuð við 7-8 lítra smur-
olíumagn á vél, ca. 150 hestöfl en sú
stærsta er fyrir vélar sem nota meira en
227 lítra af smurolíu. Hægt er að raðtengja
hinar ýmsu stærðir og fá þannig fram sér-
hæfða lausn fyrir hvert vélarrúm eða vél.
Á sjávarútvegssýningunni mun verða
lögð sérstök áhersla á að kynna þessar
nýju síur en að sögn Ásmundar verður
einnig minnt á hin traustu vörumerki sem
Bræðurnir Ormsson hafa unnið sér traust
fyrir s.s. Bosch rafmagnshandverkfæri og
stillitækni og Tridon bílavarahlutir og
aukahluti sem njóta vaxandi vinsælda.
Auk þessa verður kynnt ný tegund af
þrýstijafnara fyrir túrbínur sem á eflaust
eftir að vekja athygli bæði vélstjóra og
jeppaeigenda. Þetta er nokkurs konar
þrýstikútur sem er tengdur við túrbínuna í
bátnum eða bílnum og sér um að halda
alltaf jöfnum þrýstingi á smurningu. Þetta
þýðir að túrbínan gengur aldrei þurr eins
og oft vill verða þegar vél er gangsett og
ljóst er að þetta litla tæki getur lengt líf-
tíma túrbínunnar verulega og skilað betri
afköstum hennar og minna viðhaldi.
Bræðurnir Ormsson hafa starfað frá
1922 og hafa frá upphafi verið umboðs-
menn Bosch samsteypunnar þýsku sem
Sveinbjöm Sveinbjömsson verslunarstjóri og
Ásmundur Guðnason deildarstjóri hjá
Brcvðrunwn Ormsson.
var stofnuð 1886 og er risavaxið alþjóða-
fyrirtæki sem veltir tugmilljónum marka
árlega. í dag eru 42 starfsmenn í átta
deildum hjá Bræðrunum Ormsson.
Bosch hefur séð islenska fiskiskipaflot-
anum, vélsmiðjum og verkstæðum fyrir
verkfærum í rúmlega 70 ár. Vaxandi á-
hersla á umhverfisvernd einkennir starf-
semina hin seinni ár og þannig t.d. eru
eldri handverkfæri endurunnin til marg-
víslegra nota. Stillitækni Bosch hefur
einnig umhverfisvernd að leiðarljósi því
vel stillt olíukerfi dregur úr mengun.
Fiskiskipaflotinn er meðal stærstu
mengunarvalda heimsins þegar kolsýr-
ingsmengun er annars vegar. íslendingar
eru aðilar að alþjóðasamningum um að
draga úr slíkri mengun á næstu árum.
Regluleg og vönduð stilling á olíukerfum
dregur úr mengun, minnkar olíueyðslu og
tryggir minna viðhald. □