Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1957, Page 94
92
sögu við Verzlunarskóla íslands, Menntaskólann í Reykjavík
og Menntaskólann á Akureyri á árunum 1938—1943. Haust-
ið 1943 var hann settur prófessor í sögu íslands við háskólann
og gegndi því starfi veturinn 1943—44. Árið 1945 varð hann
dósent í sögu við háskólann og skipaður prófessor frá 1. jan.
1951. Hann kvæntist árið 1949 Guðrúnu P. Helgadóttur, ágætri
konu. Eiga þau einn son, Helga (f. 1952).
Svo sem nú var greint, varð kennsla meginstarf dr. Jóns alla
tíð frá því hann lauk kandídatsprófi sínu, eða um nær 20 ára
skeið. Víst er og um það, að hann var vel til kennslunnar fall-
inn. Hann var manna jafnlyndastur, viðmótsþýður og látlaus
í framkomu, en samt ærið fastur fyrir, ef á reyndi. Það er al-
kunnugt, að hann var manna bezt að sér í höfuðviðfangsefni
sínu, sögu Islands. Gæddur var hann sterkri minnisgáfu. Hann
var skýr í hugsun. Framsetning hans í ræðu og riti var ljós og
skilmerkileg. Eins var hann í þeirra hópi, sem meta meira
trausta heimild, þótt fátækleg sé, heldur en glæsilega úrlausn
studda líkum og forðaðist slíkt. Mun þetta m. a. hafa valdið
því, að hann hvarf frá því að fást við íslenzka ættfræði fyrir
1550, er hann hafði þó kynnt sér allrækilega um eitt skeið.
Mun honum við nánari athugun hafa þótt í meira lagi laust
undir fæti víða hvar í þeim fræðum og ekki þótzt hafa tíma
né aðra hentugleika til að leggja fram vinnu, sem þurfti til
þess að úr yrði skorið, hvað hér væri sæmilegum heimildum
skorðað og hvað tilgátur síðari manna. 1 háskólanum kenndi
hann sögu Islands fram til siðskipta. Vann þar mikið og gott
verk í rannsókn á einstökum atriðum þessarar sögu og svo
með því að gera handhægt yfirlit um hana handa stúdentum
og öðrum, sem áhuga hafa á slíku. Kom fyrsta bindi Islend-
ingasögu hans út í fyrra, en hið síðara átti að koma út í haust
eða næsta vetur. Er vonandi, að frágangi handritsins hafi
verið svo langt komið, áður höfundurinn féll frá, að unnt verði
að ljúka verkinu án verulegra tafa.
Ég hef minnzt á nám dr. Jóns og kennslustörf hans, en því
næst vil ég geta ritstarfa hans. Áður minntist ég á doktors-
ritgerð hans, Gerðir Landnámabókar, frá 1941, og rit hans um