Búnaðarrit - 01.01.1998, Blaðsíða 9
BÚNAÐARRIT 1998
1. Inngangur
Árið 1998 var hagstætt ár í íslenskum þjóðarbúskap. Flestar greinar íslensks landbúnaðar
nutu þess einnig og nam heildarverðmæti landbúnaðarafurða 18,5 milljörðum króna. Sú
þróun hélt áfram að ríkisútgjöld til landbúnaðarins lækkuðu en heildarstuðningur við
landbúnað hér á landi jókst að mati OECD.
Árið 1998 var stunduð jarðyrkja, garðyrkja eða búfjárrækt á 3.995 búum sem skráð eru
með virðisaukaskattsnúmer. I vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar í nóvember voru 6.700
manns taldir starfandi í landbúnaði. Hlutur landbúnaðar í landsframleiðslu árið 1998 var
talinn vera um 2,0%.
Heildarsala á kjöti jókst um 5,7% á árinu 1998 og var alls um 17.600 tonn. Þetta svarar
til 63,8 kg neyslu á íbúa. Mest aukning varð á sölu alifuglakjöts 26,1% og kindakjöts 6,2%.
Sala á mjólkurvörum reiknað út frá próteininnihaldi nam 102,9 milljónum lítra eða um 376
lítrum á íbúa. Er það ívið meira en árið á undan og kemur þar til aukin sala á ostum og
jógúrtvörum. Framleiðsla á grænmeti og gróðurhúsaafurðum var með meira móti enda
árferði fremur gott í helstu garðyrkjuhéruðum landsins. Verð á refaskinnum lækkaði enn á
árinu 1998 og voru rniklir rekstrarerfiðleikar í þeirri búgrein. Verð á minkaskinnum hækkaði
hins vegar lítillega frá fyrra ári.
Mörg mikilvæg mál sem varða landbúnaðinn komu til afgreiðslu á Alþingi á árinu 1998.
Ber þar hæst annarsvegar afgreiðslu búnaðarlaga, sem er heildstæð löggjöf um leiðbeininga-
þjónustu, búfjárrækt og jarðabætur, og hins vegar umfangsmiklar breytingar á lögum um
framleiðslu verðlagningu og sölu á búvörum, einkurn er lúta að verðlagningu. Opinber
verðlagning búvara er mjög á undanhaldi og snertir nú orðið nær eingöngu afurðir naut-
gripa.
Ljóst er að mótun landbúnaðarstefnunnar hér á landi mun á næstu árum mótast af
niðurstöðu næstu samningalotu innan WTO. íslenskir bændur eiga rnikið undir því að
viðurkenning þar fáist á þeim sjónmiðum að skapa eiga sérhverri þjóð möguleika til að
framleiða matvæli sín í sátt við umhverfi sitt og aðstæður.
7