Búfræðingurinn - 01.01.1939, Page 55
BÚFRÆÐINGURINN
51
um hinn lágvaxna skóg þar. Var þetta ekki fegursti blett-
urinn, er við höfðum komið á í allri ferðinni? Þangað er
ekki nema rúmlega klukkutíma gangur frá Hvanneyri og
þó höfðu fáir verknemar komið þangað áður. En einmitt
á leiðinni heim fundum við, hvað þessi borgfirzki blettur
hafði upp á mikla náttúrufegurö að bjóða.
Kæru búfræðingar! Ég vildi óska, að þetta mætti verða
táknrænt fyrir líf ykkar og starf. Þið farið á búnaðarskóla.
Það er löng leið. Þið sjáið margt og heyrið, margt, sem er
gott og fagurt. En þetta má yfirleitt ekki verða til þess, að
þið að afloknu námi leggið land undir fót og teljið ykkur
trú um, að því lengra sem þið leitið, því meiri verði feguröin
og lífsgæðin, því aö þá leitið þið stundum langt yfir skamnit.
Fegurðin, starf þitt og lífshamingja bíður þín oft heima í
sveitinni þinni. Þangað skaltu undir flestum kringumstæðum
fara að námi þínu loknu og leggja þar fram krafta þína af
alhug. Þá muntu venjulegast komast að þeirri niðurstöðu,
að fegursti og bezti bletturinn er heima. Og ef þú lærir þetta
á skólanum þínum, þá hefir þú lært mikið, þótt bóknám þitt
hafi gengið torveldlega og prófskirteini þitt sé með tölum,
sem þú helzt ekki vilt láta nokkurn mann sjá.
Guðm. Jónsson.
4*