Búfræðingurinn - 01.01.1939, Síða 65
Sundurliðaður sjóðreikningur
og Tiðskiptareikningur.
Það er til spakmæli, sem segir: „Það er meiri vandi að
gæta fengins fjár en að afla þess“. Reynslan sýnir oft, að
þetta er rétt, og margir eru þeir, sem lítt kunna að gæta
fjármuna sinna. Til þess geta legið margar ástæður. En
tíðast held ég, að orsökin sé sú, að menn kunna ekki að hirða
um smámunina. Fáir aurar í dag virðast ekki geta haft
mikil áhrif á fjárhag einstaklingsins, og þeim er því stund-
um fleygt út í hirðuleysi og til lítils gagns, svo að ekki sé
sterkara að orði kveðið. En sé eins farið að á morgun og hinn
daginn og þannig hvern daginn eftir annan, þá geta þessi
smáu daglegu útgjöld orðið stór upphæð. Og þannig geta
miklir peningar eyðzt, næstum án þess að viðkomandi ein-
staklingur verði þess var.
Ég þekki mann í Reykjavík, sem býr í útjaðri bæjarins og
notaöi allmikið strætisvagna. Sú ferð kostar aðeins 10 aura
í hvert skipti. Honum fannst því, að daglega munaði sig
ekki miklu að nota strætisvagninn. En einn mánuð datt hon-
um í hug að skrifa niður hjá sér strætisvagnapeningana. Þá
sá hann, að þessi upphæð nam fleiri tugum króna fyrir hann
og fjölskyldu hans. Og hann sá fleira. Þessi upphæð, sem
hann fór með í strætisvagnaferðir, var raunverulega of há
fyrir mánaðartekjur hans. Honum hafði að vísu verið það
ljóst áður, að mánaðartekjurnar voru oft það naumasta til
þess að hrökkva fyrir útgjöldunum, en hann hafði ekki komið
auga á ráð til sparnaðar. Strætisvagnareikningur hans þenn-
an eina mánuð sýndi honum greinilega, að hér var hægt að
spara og hann gerði það líka.