Búfræðingurinn - 01.01.1939, Blaðsíða 118
114
BÚFRÆÐINGURINN
Skólapiltar hér á Hólum eru nú 44 að tölu, og hefir skólinn
sjaldan verið fjölmennari og ekki er unnt að taka fleiri.
Nokkrum nemendum varð að neita um inngöngu í skólann
sökum rúmleysis, þó illt þætti.
Nemendur skiptast eftir héruðum svo sem hér segir:
Reykjavík 1, Borgarfjarðarsýslu 1, Dalasýslu 1, Barða-
strandarsýslu 1, ísafjarðarsýslum 2, Húnavatnssýslum 2,
Skagafjarðarsýslu 11, Siglufjaröarkaupstað 1, Eyjafjarðar-
sýslu 12, Þingeyjarsýslum 6, Suður-Múlasýslu 1, Rangárvalla-
sýslu 3, Árnessýslu 2.
Af yfirliti þessu er það ljóst, að skólinn er sóttur víða að,
þótt nemendur hans séu flestir úr nærsveitunum. Virðist
hvorttveggja vel fara. Það er bæði rétt og skylt að héruð og
einstakar sveitir noti mest og njóti bezt þeirra menningar-
setra, er næst þeim liggja.
En hitt er líka vel fallið, að ungir menn og efnilegir úr
fjarlægum sveitum kynnist menningu og háttum ókunn-
ugra staða. Ráða þeir oft miklu um það, að skemmtana- og
félagslíf í sveitaskólum verður fjölbreyttara og ánægjulegra
en annars myndi.
Á Alþingi 1937 voru samin lög um bændaskólana. Þau
gengu í gildi 15. okt. sl. Nemendur þeir, er komu í skólana á
næstliðnu hausti, hljóta því að rækja nám sitt samkvæmt
lögum þessum.
Runólfur Sveinsson, skólastjóri á Hvanneyri, gerði allýtar-
lega grein fyrir lögunum í síðasta árgangi Búfræðingsins.
Er því ekki ástæða til að fjölyrða um þau hér. Þó skal þess
getið, að aðalumbót laganna felst í því, að auka verknám
skólanna. Námstíminn verður þrjú missiri, tveir vetur og
sumarið á milli. Sumarið verður að mestu notað til verk-
náms í jarðrækt. Þá verður nemendum og kennd búfjár-
hirðing, en þó einkum á vetrum. Undanþágu má veita frá
sumarnámi að einhverju leyti, ef brýn nauðsyn ber til sökum
heimilisanna nemenda.
Nemendur hljóta styrk nokkurn við nám þetta. Þeir fá
ókeypis fæði og þjónustu tvö síðari missirin, og auk þess
kr. 100,00 hver þeirra.