Morgunblaðið - 29.11.2008, Blaðsíða 46

Morgunblaðið - 29.11.2008, Blaðsíða 46
46 Minningar MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. NÓVEMBER 2008 dísi, konu Helga, og börnum þeirra okkar dýpstu samúð. Lúðvík Eckardt Gústafsson. Að leiðarlokum kveðjum við góð- an félaga og samstarfsmann til margra ára með söknuði og þakk- læti. Helgi Magnús Arngrímsson var brautryðjandi og frumkvöðull í ferðaþjónustu á Borgarfirði eystri og Víknaslóðum. Hann var einn af stofnendum Ferðamálahóps Borg- arfjarðar og tók þátt í starfi hans af hugsjón og ósérhlífni frá fyrsta degi. Á heimasíðu Borgarfjarðar eystri má m.a. finna fjölmargar ljósmynd- ir eftir Helga úr heimasveit hans og nágrenni sem munu lifa lengi með okkur og bera áhuga hans og smekkvísi vitni. Ljósmyndir hans hafa einnig prýtt borð og veggi Fjarðarborgar og vakið mikla at- hygli gesta þar auk þess sem þær hafa birst í fjölmörgum ritum. Hann var fyrsti framkvæmdastjóri Álfasteins á Borgarfirði og mótaði það starf af metnaði og áhuga um árabil. Helgi vann merkt brautryðjenda- starf þegar hann hóf merkingu gönguleiða og beitti sér fyrir útgáfu gönguleiðakorta fyrir Borgarfjörð og Víknaslóðir. Til þess verkefnis var litið sem fyrirmyndar víða að af landinu og Helgi vann göngukort af ýmsum svæðum landsins. Áhugi hans og þekking á náttúru Íslands og gönguferðum um hana nýttist einnig vel þegar hann starfaði sem framkvæmdastjóri verkefnisins Göngum um Ísland á vegum Ung- mennafélags Íslands. Þegar Ferða- félag Fljótsdalshéraðs hóf byggingu gönguskála í Breiðuvík gekk Helgi til liðs við það verkefni af sama krafti og hefur einkennt öll hans störf. Áhugi hans og jákvætt við- horf hafa verið okkur ómetanlegur stuðningur alla tíð og það hefur ver- ið dýrmætt að geta leitað til hans með hugmyndir og vangaveltur um framvindu byggingarframkvæmda og ekki síður rekstur skálanna. Hann hefur frá fyrstu tíð verið vak- inn og sofinn yfir skálum FFF á Víknaslóðum og Helgi og Bryndís, kona hans, hafa ævinlega verið boð- in og búin að hlaupa undir bagga í ýmsum verkefnum þegar á hefur þurft að halda. Helgi og Bryndís hafa leitt fjölda ferðamanna um Víknaslóðir og getið sér afar gott orð sem hugulsamir, fróðir og skemmtilegir leiðsögumenn. Þáttur Helga í því að koma Víknaslóðum á framfæri sem góðu göngulandi og styðja þannig við allan rekstur ferðaþjónustu á Borgarfirði og svæðinu öllu verður seint fullþakk- aður en víst er að verk hans munu halda nafni hans á lofti um ókomna tíð. Hér er fátt eitt af störfum Helga nefnt enda lét hann til sín taka á ýmsum sviðum. Hann var brosmildur, jákvæður og einstak- lega bóngóður maður. Hann var fylginn sér og markmið hans voru skýr og markviss og árangur góður. Við söknum vinar í stað og send- um eiginkonu og börnum, móður og systkinum, ættingjum og ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur. Inga Rósa Þórðardóttir, Þórhallur Þorsteinsson. Þær voru sorglegar fréttirnar sem okkur hjá Ferðamálastofu bár- ust síðastliðinn mánudag, Helgi Arngrímsson var látinn. Kynni okk- ar af Helga hófust fyrir allmörgum árum þegar hann ásamt fjölskyldu sinni var í forsvari fyrir fyrirtækið Álfastein á Borgarfirði eystri. Helgi vissi sem var að ferðamenn skiptu miklu og væri sá vaxtarsproti sem huga þyrfti að í hans heimahéraði. Á hverju ári í allmörg ár vann Helgi m.a. könnun á viðhorfi ferðamanna sem sóttu svæðið heim og sendi Ferðamálastofu afrit. Í framhaldi af sendingunni fylgdi símhringing eða heimsókn þar sem innihald og nið- urstöður voru ræddar, hvað betur mætti fara og hvernig byggja mætti frekar upp þjónustu á svæðinu. Helgi var hafsjór af fróðleik um heimasvæði sitt og þeir eru ófáir göngumennirnir sem fengu að njóta leiðsagnar hans, alúðar og virðingar fyrir fegurð hinna austfirsku fjalla, dala og fjarða. Helgi vann ötullega að gerð og útgáfu gönguleiðakorta, fyrst fyrir heimasvæði sitt og síð- armeir um land allt, sérstaklega á Norðurlandi og Vestfjörðum. Það var ekki síst í þessari vinnu sem mannkostir Helga nutu sín, þ.e. vandvirkni, útsjónarsemi og hæfni í mannlegum samskiptum. Helgi var drengur góður, ærlegur og þægilegur í alla staði. Við eigum eftir að sakna heimsókna Helga og umræðna um hvað betur má fara í okkar ört vaxandi atvinnugrein. Eiginkonu, börnum og fjölskyldum þeirra sendum við innilegar sam- úðarkveðjur. Blessuð sé minning Helga M. Arngrímssonar. F.h. starfsfólks Ferðamálastofu, Elías Bjarni Gíslason. Þegar ég fluttist með fjölskyld- una til Borgarfjarðar eystri haustið 1983 þekkti ég Helga Arngrímsson aðeins af afspurn. Ég vissi að hann hafði verið í hljómsveitinni Völundi, sem gerði garðinn frægan á 8. ára- tugnum. Ég vissi líka að Helga var margt til lista lagt og hann lagði gjörva hönd á ýmislegt. Ég beið þess því með eftirvæntingu að hitta þennan merkilega mann. Þegar til kom reyndist hann ekki hafa hið dæmigerða útlit rokkarans. Ekkert sérviskulegur í klæðaburði eða hátt- um. Laus við stæla og kjánalega aulabrandara. Þvert á móti, afskap- lega alþýðlegur og vingjarnlegur í viðmóti, glaðlegur og hláturmildur. Bindindismaður á vín og tóbak. Fín- asti maður. Við Helgi urðum góðir vinir þegar við bjuggum á Borg- arfirði og fjölskyldur okkar hafa viðhaldið kunningsskap síðan. Sam- starf okkar varð líka af ýmsum toga. Kærustu minningarnar tengj- ast þó Heimabrugginu, hljómsveit- inni sem við störfuðum saman í öll árin okkar á Borgarfirði. Helgi hafði þægilega söngrödd en átti auk þess besta míkrófóninn í hljómsveitinni, gamlan byssumíkró- fón frá Shure, eins og Bítlarnir not- uðu. Því dæmdist á hann að syngja nánast allt prógrammið auk þess að spila á bassa, sem þó var alls ekki hans uppáhaldshljóðfæri. Helgi var bara vanur að gera það sem gera þurfti. Hann gat því allt eins spilað á bassann eins og hvað annað. Eftir á að hyggja undrast ég hvernig hann gat sungið klukkutíma eftir klukkutíma, m.a. á þorrablótum þar sem ekki var við það komandi að hljómsveitin hætti að spila fyrir kl. 6 að morgni, enda vildu kúabændur geta farið beint í fjósið þegar heim kæmi af þorrablótinu. En engan bil- bug var að finna á Helga, hann bara stóð á sviðinu og söng og spilaði alla nóttina á hverju sem gekk. Ég man einu sinni eftir að hann fór úr skónum á þorrablóti á Jök- uldal, sagðist vera orðinn þreyttur í fótunum. Annars virtist hann hafa óþrjótandi orku. – Og fyrir honum varð allt svo vandræðalaust. Þegar Vatnsskarðið var ófært og við þurftum að spila utan fjarðar, geng- um við yfir Fjallið og fengum ein- hvern til að sækja okkur Héraðs- megin. Það þótti ekki tiltökumál, jafnvel þótt gamla harmóníkuleik- aranum okkar, Helga Eyjólfssyni, þætti svo vænt um harmóníkuna sína að hann bæri hana alltaf með sér á bakinu, í strigapoka, líka þeg- ar við gengum yfir Fjallið. Slíkir músíkantar eru sannir listamenn. En nú eru þeir báðir horfnir á braut, Helgarnir, félagar mínir úr Heimabrugginu. Sá fyrri fór í sum- ar, á ásættanlegum aldri, sá síðari fyrir fáeinum dögum, á óásættan- legum aldri. Það er sárt. Það var alltaf gaman og upplífgandi að fá Helga Arngrímsson í heimsókn eftir að við fluttum frá Borgarfirði. Hon- um fylgdi svo hressandi blær bjart- sýni og viljastyrks. Og fáum mönn- um hef ég kynnst sem hafa verið jafn elskir að átthögum sínum og verið jafn áfram um vöxt þeirra og viðgang eins og hann var fyrir hönd Borgarfjarðar. Já, þín er sárt sakn- að kæri vinur, hafðu þökk fyrir allt og allt. Við fjölskyldan sendum Bryndísi, börnum, barnabörnum og öðrum aðstandendum okkar innileg- ustu samúðarkveðjur. Ólafur Arngrímsson. Sá árgangur nemenda sem út- skrifaðist frá Samvinnuskólanum í Bifröst vorið 1974 sér nú á bak enn einum félaga úr hópnum. Helgi Magnús Arngrímsson lést laugar- daginn 22. nóvember sl. Fjölbreytt tveggja vetra dvöl okkar í Bifröst gerði það að verkum að nemenda- hópurinn kynntist vel, samskipti voru mikil og náin. Þetta nána sam- félag gerði það að verkum að per- sónuleg einkenni hvers og eins urðu nánast ljóslifandi fyrir öllum. Skoð- anir skólasystkinanna á lífinu og til- verunni komu glögglega í ljós, ásamt áhugasviðum, styrkleikum og veikleikum. Minningin um Helga einkennist af góðri nærveru. Hann var jákvæður, brosmildur, frumleg- ur og ákaflega þægilegur í sam- skiptum. Fólki leið vel í kringum hann og glaðværð hans og ljúf- mennska smitaði út frá sér. Á Bif- rastarárunum hafði Helgi mikinn áhuga á ljósmyndun og með mynda- vélinni fangaði hann mörg atvik úr skólastarfinu sem urðu minnisstæð. Helgi hafði líka lagt rækt við tón- listina áður en hann kom í Bifröst. Hann var vel spilandi á mörg hljóð- færi og styrkti bæði og dreif áfram tónlistarlífið á staðnum hvort held- ur var í kór eða hljómsveit. Hver man ekki eftir stórsveitinni sem lék undir í víðfrægri söngvakeppni í Bifröst þegar Helgi og félagar tóku hið ógleymanlega lag „The House of the Rising Sun“ við gríðarlegar undirtektir. Að Bifrastarárum loknum hurfu nemendur hver í sína áttina. Sumir fóru að vinna, aðrir í nám og enn aðrir að bjarga kaupfélögunum. Helgi bjó um sig í sinni heima- byggð, eignaðist þar fjölskyldu og stofnaði m.a. fyrirtækið Álfastein. Að leiðarlokum lifir minningin um góðan dreng. Við samnemendur Helga munum geyma með okkur allar góðu minningar sem við eigum um hann. Við vottum fjölskyldu hans og öðrum ástvinum innilega samúð. Blessuð sé minning hans. F. h. skólasystkina í Bifröst 1972 til 1974, Tómas Jónsson og Aðalsteinn Hákonarson. Góður vinur, hinn mikli ferða- maður er lagður upp í sína hinstu för á þessari jörð. Allt of snemma. Við sem enn töltum á þessu tilvist- arstigi hugsum til þín og rifjum upp allt það góða sem þú stóðst fyrir. Við strákarnir kynntumst í Eiða- skóla, sátum saman eitt ár í kennslustofu í Smíðahúsinu. Þá fékk ég að vita að Borgarfjörðurinn (eystri) er fegurstur og bestur fjarða og smátt og smátt urðu þess- ar kenningar þínar að hinum eina sannleika. Við stofnuðum saman hljómsveit, Lost men hét hún og bar nafn með rentu, alveg glötuð hljómsveit. Bandið spilaði þó á nokkrum dansleikjum og allt var þetta mjög skemmtilegt. Við í sam- litum bítlaskyrtum, mjög töff. Þetta var upphafið að farsælum hljóm- sveitaferli í þínu lífi, enda varstu driffjöðrin í okkar glötuðu hljóm- sveit forðum. Alltaf að skipuleggja og „redda“ hlutum. Svo lumaðir þú oft á kakói, sykri og rúsínum, bráð- nauðsynlegu hráefni til sælgætis- gerðar á heimavistinni. Á því var einföld skýring í mínum huga, pabbi þinn var kaupfélagsstjóri. Svo skildi leiðir en þær lágu saman á ný þegar við Laufey fluttum austur og þá var Bryndís komin inn í líf þitt. Ekki spillti það. Vinskapur þróaðist í ró- legheitum. Fjölskyldurnar voru ekkert að rembast við að hanga saman en alltaf var einstaklega ánægjulegt að hitta ykkur. Og nú var Borgarfjörðurinn þinn fagri ekki aðeins fallegur fyrir þig og þína. Þú varst farinn að markaðs- setja hann af þeim einstaka krafti og áhuga sem einkenndi þig. Þú vissir allt um Borgarfjörð og Víkur og hafðir einstakt lag á að vekja áhuga fólks á þessum einstaka stað. Það var bara þetta með blómin, þú hafðir engan sérstakan áhuga á þeim. En svo þegar þú uppgötvaðir að blóm í náttúru svæðisins voru einstök var ekki að sökum að spyrja, þú helltir þér í að kynna þér flóruna. Og fagurt sumarkvöld var skroppið yfir í Brúnavík af því að þú hafðir frétt af ljósalyngi sem þar stæði í blóma. Ekki munum við hvort við fundum ljósalyngið, það skipti ekki öllu máli. Fréttum af alvarlegum veikind- um hættir manni til að taka með léttúð. Hver trúir því að maður á besta aldri sem ljómar af hreysti og lífsgleði geti orðið alvarlega veikur? „Hann Helgi sigrast á þessu eins og hverju öðru.“ Enda var það ekki bugaður maður sem við hittum síð- astliðið sumar í smíðavinnu við Réttarholt, pallurinn langt kominn. „Ég dey einhvern tíma, það verður bara að koma í ljós,“ sagðir þú. Í haust varð ljóst að veikindi þín höfðu ágerst og það var breyttur maður sem við settumst hjá í kaffi í Réttarholti. Eitt hafði þó ekki breyst og það var glaðlega og áhugasama brosið sem jafnan ein- kenndi þig þegar eitthvað skemmti- legt var til umræðu. „Óbyggðirnar kalla og ég verð að gegna þeim“ segir í ljóðinu. Og nú hafa örlögin kallað því kalli sem ekki verður undan vikist að gegna. Við þökkum þér góði vinur fyrir samfylgdina þann spöl sem við fengum að verða þér samferða á lífsleiðinni og þökkum allt það góða sem þú deildir með okkur. Kæra Bryndís og fjölskylda, okkar inni- legustu samúðarkveðjur. Emil og Laufey. Helgi Magnús Arngrímsson var einn af þeim mönnum sem hika ekki við að leggja á brattann meðan aðr- ir lalla eftir jafnsléttunni. Hann var fæddur brautryðjandi og félags- málamaður fram í fingurgóma. Enginn æsingarmaður heldur ró- lyndur og raunsær. Þau verkefni sem hann var búinn að hrinda í framkvæmd eða koma nálægt eru óteljandi og á mörgum sviðum. Helgi lét til sín taka í ferðamálum á Austurlandi og raunar á öllu land- inu. Vinna hans við merkingu gönguleiða og kortlagning þeirra á eftir að halda nafni hans á lofti um ókomna tíð. Óbilandi trú á ágæti sinnar heimasveitar og uppbygging á fjölbreyttri ferðaþjónustu á Borg- arfirði hefur skilað miklu fyrir það fámenna byggðarlag. Í rúm tuttugu ár stýrði hann Álfasteini sem fram- leiddi minjagripi og annan varning úr íslensku grjóti og laðaði til sín þúsundir ferðamanna á sumri hverju. Hann var síðan í farar- broddi Ferðamálahóps Borgarfjarð- ar sem m.a. kynnti hinar óviðjafn- anlegu Víknaslóðir fyrir göngufólki. Að sama skapi var Helgi maður víð- tæks samstarfs og tók m.a. virkan þátt í starfi Ferðamálasamtaka Austurlands og Markaðsstofu Aust- urlands. Síðastliðið vor veitti Markaðs- stofa Austurlands Helga viðurkenn- inguna Klettinn. Sú viðurkenning er veitt þeim aðilum sem um árabil hafa staðið í framlínu ferðaþjónustu á Austurlandi og með ósérhlífni og eljusemi stuðlað að framgangi og vexti atvinnugreinarinnar. Þeir eru bjargið sem ferðaþjónustan byggist á og eru öðrum fyrirmynd í að klífa örðuga hjalla til að ná handfestu á framtíðinni. Orð sem eiga svo sann- arlega við um Helga Magnús Arn- grímsson. Þegar við færðum Helga Klettinn heim í Réttarholt í mars var hann búinn að fá sinn dóm frá læknum. Þeim dómi mætti hann með æðru- leysi og stóískri ró. Yfir kaffibolla ræddi hann opinskátt um veikindin en sýndi okkur síðan teikningar af nýjasta hugarfóstrinu, manngerðri Álfaborg þar sem ferðamenn gætu kynnst ævintýraheimum þjóðsagn- anna og beinlínis gengið í björg. Nú er Helgi sjálfur genginn á vit feðra sinna, burtkvaddur í blóma lífsins. En minning hans er sterk í hugum þeirra sem unnu með hon- um að margvíslegum framfaramál- um. Og um langa framtíð mun hug- mynda hans og verka sjá stað. Við sem störfum að ferðamálum á Austurlandi kveðjum Helga með söknuði og vottum Bryndísi og börnum þeirra ásamt öðrum að- standendum dýpstu samúð. Skúli Björn Gunnarsson Strengur er brostinn og hljóm- urinn verður aldrei samur, þó sleg- inn verði. Við gömlu félagarnir í Völundi sjáum nú á bak góðum vini úr samstæðum hópi og er því skarð fyrir skildi. Eins og gengur með danshljómsveitir urðu nokkrar mannabreytingar í Völundi á líftíma hennar. Sá hópur sem starfaði þar með Helga náði vel saman og hefur haldið góðum tengslum síðan. Höf- um við hist við ýmis tilefni, rifjað upp gamla daga og slegið á létta strengi okkur öllum til óblandinnar ánægju. Mikið er búið að skemmta sér yfir reynslusögum frá „sokka- bandsárunum“, enda góðir sögu- menn í hópnum og samferðamenn- irnir sumir uppátækjasamir. Helgi var ekki hvað síst hvata- maður að þessum vinamótum og tók vel á móti okkur í þau skipti sem við hittumst á Borgarfirði, eins og Borgfirðinga er siður. Fyrir allar þessar góðu stundir fyrr og síðar viljum við þakka á þessari kveðjustund, um leið og við vottum Bryndísi, fjölskyldu Helga og aðstandendum öllum okkar dýpstu samúð. Árnþór, Bjarni, Friðrik, Jón Metúsalem, Jón og Stefán. Elsku Helgi. Nú er komið að kveðjustund og langar okkur í örfá- um fátæklegum orðum að láta í ljós hversu mikils virði þú hefur verið okkur systkinunum. Þið Bryndís hafið alla tíð verið svo stór partur af tilveru okkur og áttuð svo sann- arlega ykkar þátt í að láta hlutina ganga upp þegar allt virtist eitthvað svo ómögulegt. Alltaf hafið þið verið tilbúin til að hjálpa okkur og ein- hvern veginn var alltaf pláss hjá ykkur í Réttarholti. Við verðum æv- inlega þakklát fyrir það sem þið hafið gert fyrir okkur í gegnum ár- in, sem er svo ótal margt. Þið hafið ykkar stað í hjarta okkar og verðið hluti af okkur um alla eilífð. Elsku Bryndís, Birgitta, Hafþór, Elsa og Eyrún, hugur okkar er hjá ykkur hverja einustu stund. Megi góður Guð gefa ykkur og fjölskyld- um ykkar styrk á þessum erfiðu tímum. Elsku Helgi, takk fyrir samfylgd- ina og allar þær fallegu minningar sem við eigum um þig. Þær munum við geyma í hjarta okkar um ókomna tíð. Við sjáumst svo einhvern tímann seinna og þá verður sko haldið áfram að spila á gítarinn og syngja. Ég er einn, ég er einn – sál mín allslaus og hljóð. Langt frá upprunans æð þjáist eirðarlaust blóð. Þjáist vængur þinn, vor? Kannski verð ég of seinn. Kannski dey ég í dag. Kannski dey ég hér einn. Ég vil heim – ég vil heim yfir hyldjúpan sæ, – heim í dálítinn dal, heim að dálitlum bæ. Hver vill bera mig blítt um hinn bláheiða geim? Ó, þú blíðasti blær! Vilt þú bera mig heim. Allt er ljóð – allt er ljóð. Þar sem lynghríslan grær þar sem víðirinn vex þar sem vorperlan hlær. – Þar sem afi minn bjó þar sem amma mín dó, undir heiðinni há, vil ég hvíla í ró … (Jóhannes úr Kötlum.) Megi Guð gefa þér góða nótt. Hugrún Birna Bjarnadóttir og Sveinn Bjarnason.  Fleiri minningargreinar um Helga Magnús Arngrímsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Helgi Magnús Arngrímsson
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.