Morgunblaðið - 10.03.2009, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 10.03.2009, Blaðsíða 29
þess að núna færðu loksins að hitta tvo menn sem hétu Jón, sem við vit- um að þú hefur beðið lengi eftir að hitta. Við vitum ekki hvert ferð þinni er heitið núna, amma mín, en ósk okkar er sú að þú fáir frið, ró, hvíld og tíma til að sofna yfir frétt- unum. Saknaðarkveðja. Arnór Sigurðsson og Davíð Jón Sigurðsson Elsku langamma mín er dáin. Nú fær hún loksins að hvíla sig eftir langa dvöl í þessum heimi. Ég á eft- ir að sakna hennar mikið. Hún amma mín var ákveðin, dugleg og sjálfstæð kona sem ég leit mikið upp til og get verið stolt af. Ekki vantaði færni hennar í eldhúsinu. Þegar ég var lítil bauð hún mér oft til sín og kenndi mér að baka kleinur á Rauðalæknum. Ég var skírð á Rauðalæknum og satt best að segja þykir mér það ákveðinn heiður. Ömmu grjónagrautur hefur alltaf verið einn af mínum uppáhalds rétt- um, hún kunni sko að gera alvöru grjónagraut. Hún bauð oft í grjóna- grautarveislu þegar hún bjó á Rauðalæknum, og hann var líka að sjálfsögðu alltaf að minnsta kosti hafður einu sinni í hverri Harðbaks- ferð. Þó að hún hefði verið orðinn gömul kom hún samt alltaf með á Harðbak. Hún var svo þrjósk að hún bað eiginlega aldrei um hjálp þegar hún klifraði upp brattan stig- ann á Harðbak. Alltaf þegar við vor- um á Harðbak gekk hún um með stafinn hans afa Guðmundar. Það eru nú ekki margar konur sem eiga fleiri, fleiri rétti skírða í höfuðið á sér en jú það eru ömmu Borghildar bollur, ömmu Borghild- ar kleinur, og svo að sjálfsögðu ömmu Borghildar grjónagrautur- inn. Hún amma mín á alltaf eftir að eiga stóran stað í hjarta mér, og ég vona einn daginn að ég komist alla- vega með tærnar þar sem hún hafði hælana. Hún var frábær kona í alla staði og ég er mjög stolt af því að hafa getað kallað hana ömmu mína. Edda Margrét. Nú er elsku langamma okkar dá- in. Mikið eigum við eftir að sakna hennar því það var alltaf gaman að koma til hennar. Við fengum alltaf nammi hjá henni eða ömmubollur og pönnsur. Það var alveg sama hvað klukkan var, ekki var hægt að kíkja í heimsókn án þess að fá eitt- hvað. Það var líka gaman að fara með ömmu á Harðbak þar sem hún bjó þegar hún var lítil stelpa með systr- um sínum. Hún kunni fullt af sögum frá því að þær voru litlar stelpur sem voru voða skemmtilegar en þá var allt öðru vísi enn í dag, enda er hún amma fædd í torfkofa. Þegar við fórum út á vatn að veiða silung þá beið amma langa alltaf við gluggann á miðhæðinni á Harðbak og skoðaði hvað við veiddum mikið. Elsku amma, takk fyrir allar sam- verustundirnar. Thelma Karítas og Kristófer Breki. Borghildur (Lonta) elsta móður- systir mín, verður borin til grafar í dag. Þar sem ég er erlendis og get ekki kvatt hana, langar mig að hripa niður nokkur orð til minningar um göfuga konu og góðar stundir frá mínum táningsárum. Borghildur var fædd og uppalin á Harðbak á Melrakkasléttu og var elst sex systra, auk þess ólu afi og amma upp einn dreng, Kára, sem hefur alla tíð verið þeim sem bróðir. Af systrunum sex fengu fimm gælu- nöfn sem höfðu lítið með nöfn þeirra að gera, Borghildur var kölluð Lonta því hún var svo lítil sem ung- barn, Ása slapp með sitt nafn, Aðal- björg er kölluð Lolla, Kristín er kölluð Ína, Jakobína er Binsa og Þorbjörg er Lillý. Harðbakur var sannkallað harð- býli þar sem fátt óx annað en stein- ar og grjót og þurfti bæði bjartsýnt og kátt fólk til að búa við slík kjör. Afi og amma voru afar jákvæð og mikið fyrir söng og dans, sem og flestir þeirra afkomendur. Harðbak- ur var mjög gestrisið heimili þar sem oft var margt um manninn og eftir að Borghildur giftist sínum manni, Jóni Árnasyni (kaupfélags- stjóra og síldarsaltanda með meiru) og fluttist til Raufarhafnar, hélt hún uppteknum hætti og má segja að hún og Jón hafi rekið „opið hús“ í áratugi. Ég var svo lánsöm, sem og önnur frændsystkini mín, að fá að vinna í síldinni hjá Jóni á sumrin og því fylgdi fæði og uppihald hjá frú Borghildi. Ég vann fyrir fæðinu með því að bóna meðfram teppun- um. Borghildur hafði einnig kost- gangara sem borgaði með pening- um. Hennar skoðun á fjármálum var að peningar væru best geymdir í kommóðuskúffunni og eru örugg- lega margir sammála henni í dag. Allavega virtist skúffan innihalda ótakmarkaða peninga og það voru ófá skiptin sem hún gaukaði að manni smástyrk úr skúffunni. Aldrei kvartaði hún undan vinnu- álaginu, þó svo að síldarverkafólkið kæmi heim á þriggja tíma fresti í matar- og kaffitíma allan sólar- hringinn. Og aldrei hef ég fengið betri mat en heitt kakó og smurt brauð hjá Borghildi um miðja nótt. Borghildur eignaðist sitt fyrsta barn tiltölulega seint (32 ára), en hafði það samt af að eignast fimm börn og þar af tvíbura þegar hún var 45 ára. Enginn bjóst við tvíbur- um því hún hafði ekki farið í neina sérstaka mæðraskoðun búandi á Raufarhöfn, en þegar fyrra barnið var fætt sagði ljósmóðirin að henni fyndist eins og það væri eitthvað eftir og eftir klukkutíma kom annað barn í heiminn. Eftir að síldin hvarf fluttust Jón og Borghildur til Reykjavíkur með öll sín börn og byrjuðu nýtt líf. Jón var fæddur athafnamaður og ekki leið á löngu þar til hann var kominn í atvinnurekstur fyrir sunnan og Borghildur var á fullu að taka á móti fólkinu að norðan. Borghildur var mikil bridsmann- eskja og naut þess að spila brids fram á rauðanótt, eða á hvaða tíma sólarhringsins sem var og hún var enn að spila fyrir ári síðan. Það sannaðist svo sannarlega hjá henni að bridge heldur heilanum við því að minnið brást henni aldrei þó hún væri farin að styðja sig við göngu- grind. Borghildur var alla tíð pjöttuð og vildi vera fín. Síðast þegar ég sá hana í desember, var hún á leiðinni inn í matsal, á Dalbrautinni þar sem hún bjó síðast, og var upp-puntuð í silkiblússu og blárri dragt, með varalit og búin að setja í sig rúllur. Ég gat ekki annað en sagt að ég vonaðist til að vera eins og hún ef ég næði að lifa til 93 ára aldurs. Margrét Þóroddsdóttir Piris. Mig langar til að minnast Lontu fóstru minnar með nokkrum orðum. Þegar ég kom sem unglingur til Reykjavíkur fyrir meira en 40 árum var um það samið að ég fengi að borða kvöldmat hjá Lontu og Jóni á Rauðalæk 73. Frá fyrsta degi var þetta ekki bara kvöldmatur heldur varð Rauðilækurinn í rauninn mitt heimili næstu 5 eða 6 árin. Þótt ég leigði alltaf herbergi út í bæ hafði ég í rauninni heimili á Rauðalæknum þó að ég svæfi annars staðar. Lonta og í rauninni öll fjölskyldan tók mér alveg frá byrjun sem einum úr fjölskyldunni. Ég gat aldrei fund- ið að ég nyti ekki þess sama og hinir og sem betur fer var ég látinn taka þátt í heimilislífinu jafnt og aðrir eins og t.d. laugardagsverkunum. Þetta sýndi mér betur en allt annað að ég var álitinn einn úr hópnum. Ég hef stundum hugsað um það hvort það væri eitthvað annað en manngæska sem var þess valdandi að mér var svona vel tekið á Rauða- læknum. Auk manngæskunnar dett- ur mér í hug að þar hafi ég notið þess hve samrýmd frændsystkinin frá Harðbak hafa alltaf verið. Auk fjölskyldunnar á Rauðalæknum fannst mér alltaf þær Harðbaks- systur og þeirra fjölskyldur sýna mér einstaka hlýju. Þegar við Lonta fóstra mín hittumst eftir að ég flutti úr skjóli hennar þá komst ég að því hvað hugur hennar var alltaf tengd- ur heimahögunum. Alltaf eftir að við höfðum heilsast kom spurningin „Hvað er að frétta að norðan?“ Ég vil með þessum fátæklegu orð- um sýna smá þakklæti til fóstru minnar fyrir allan hlýhuginn sem hún og hennar fólk sýndu mér þegar ég óharðnaður unglingurinn flutti frá fjölskyldu minni á Raufarhöfn. Einnig minnast Kristín og börnin mín Lontu ömmu með þakklæti. Mín börn muna sérstaklega eftir því þeg- ar Lonta amma sagði: Má ekki bjóða ykkur „pöddur?“ Elsku Hilla, Magga, Árna, Jakó og ykkar fjölskyldur, ég veit að ykk- ar missir er mikill. Við skulum öll minnast fóstru minnar eins og hún var, því það léttir okkur sorgina. Valgeir Jónasson. Borghildur var hún skírð eftir móðurömmu sinni en alltaf kölluð Lonta. Sagt er að pabbi hennar hafi haft á orði að hún væri eins og lítil lækjarlonta þar sem hún kúrði ný- fædd í kommóðuskúffunni en vagg- an var ekki tilbúin. Þær voru 6 syst- urnar frá Harðbak á Melrakkasléttu og Lonta sú elsta. Þær systur hafa alltaf verið samrýmdar og haldið eins og einn maður utan um sína stóru fjölskyldu. Mér fannst ein- hvern veginn að þær yrðu eilífar þessar systur sem eru mér allar svo tengdar, vissi þó betur og var farinn að kvíða fyrir þeim degi þegar sú fyrsta hyrfi á braut. „Fáðu þér endi- lega rúllupylsu eða jólaköku, sú besta í heimi“. Það var fjarri henni að hæla sjálfri sér þetta var einungis hvatning til þess að þiggja þær góð- gerðir sem hún bar á borð. Lonta var hlédræg kona út á við, en á sínu heimili var það hún sem stjórnaði. Ég sé hana fyrir mér í eldhúsinu í Álfaborg að steikja kjötbollur, gera kleinur eða baka dýrindis vanillu- hringi. Þetta var mannmargt og gestkvæmt heimili svo að það þurfti bæði dugnað og útsjónarsemi til að allt gengi snurðulaust fyrir sig. Um- svifin minnkuðu eitthvað við að flytj- ast suður en heimili þeirra Lontu og Jóns var alltaf samkomustaður fjöl- skyldu og vina, hvort sem þau bjuggu á Raufarhöfn eða í Reykja- vík. Það var ekki bara fólk en líka mikil gleði og kátína í kringum þau hjón. Þó það séu allnokkur ár síðan Jón dó eru minningarnar um Lontu nátengdar honum. Á þessu skemmtilega heimili dvaldist ég sem barn á sumrum. Lonta bætti mér og öðrum systra- börnum einfaldlega í sinn eigin ungahóp. Það þótti sjálfsagt að hafa okkur með bæði innan og utan heim- ilis. Það var alveg ótrúlegt hverju hægt var að troða af mat og krökk- um í svörtu Volguna. Síðan var ekið í Ásbyrgi , sungið hástöfum alla leið- ina og lagst til svefns í hvíta botn- lausa vegavinnutjaldinu. Á mínum fyrstu búskaparárum bjuggum við fjölskyldan á Rauða- læknum hinum megin við götuna frá Lontu og Jóni. Þá bjó amma Mar- grét hjá þeim og vorum við nánast daglegir gestir þar á bæ. Frá þeim árum er mér sérstaklega minnis- stæð veislan sem þau hjón héldu mér í hádeginu, daginn sem ég varð þrítug. Jón lék á als oddi þrátt fyrir veikindi sín og við gæddum okkur á rúllupylsunni frægu og öðru góð- gæti sem Lonta dró fram. Þetta var eina veislan sem mér var haldin þann dag. Þegar Lonta flutti á Dalbrautina fann ég að hún saknaði umsvifanna forðum daga, þrátt fyrir að Bínsa og eitthvað af börnum hennar litu til með henni daglega. Hinar systurnar voru heldur ekki langt undan, allar nema Lolla móðir mín þarna á sömu torfunni. Það var gaman að heim- sækja hana, gestrisnin var söm við sig. Hún sagðist ekki nenna að hita kaffi en bauð upp á sérríglas í stað- inn. Hún spurði frétta enda fylgdist hún vel með þó komin væri á 93. ald- ursár. Þróttur líkamans fór þverr- andi en höfuðið hafði ekki tapað miklu af skerpu yngri daga. Minning um góða frænku mun lifa. Kæru Lontu-systur, frændsystkin og fjöl- skylda, við í Lindarselinu tökum af heilum hug þátt í söknuði ykkar á þessum tímamótum. Elín Rögnvaldsdóttir. Minningar 29 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 10. MARS 2009 ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og afi, HJÖRLEIFUR BJÖRNSSON, lést á heimili sínu í Stokkhólmi föstudaginn 27. febrúar. Kveðjuathöfn verður í Dómkirkjunni í Reykjavík fimmtudaginn 19. mars kl. 11.00. Þeim sem vilja minnast hans er bent á Krabbameinsfélagið. Björk Guðmundsdóttir, Kristín Hjörleifsdóttir Steiner, Eugen Steiner, Hrafn, Svava og Embla Steiner. ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, ÁSTA MARGRÉT JENSDÓTTIR, Austurströnd 8, Seltjarnarnesi, lést á líknardeild Landspítala, Landakoti laugar- daginn 7. mars. Jarðarförin verður auglýst síðar. Edda Steinunn Erlendsdóttir, Ólína Erla Erlendsdóttir, Guðmundur Örn Ragnarsson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir, sonur, bróðir, mágur, barnabarn og tengdasonur, JÓN ÞÓR GUNNARSSON, Skeljatanga 21, Mosfellsbæ, sem lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi föstudaginn 6. mars, verður jarðsunginn frá Víkurkirkju, Vík í Mýrdal, laugardaginn 14. mars kl. 14.00. Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hans er bent á menntunarsjóð barna hans, banki 0331-13-300800, kt. 120273-5239. Hanna Arnardóttir, Aníta Sól Jónsdóttir, Hákon Jónsson, Gunnar Bragi Jónsson, Sigríður Dórothea Árnadóttir, Árni Gunnarsson, Guðlaug Þorvaldsdóttir, Solveig Sigríður Gunnarsdóttir, Árni Sigurjónsson, Jón Örn Arnarson, Jóna Garðarsdóttir. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar og sonur, SINDRI ÞÓR GUÐNASON frá Siglufirði, lést á Landspítalanum í Fossvogi sunnudaginn 8. mars. Rut Hilmarsdóttir, Jakob Auðun Sindrason, Halldóra Helga Sindradóttir, Guðni Sveinsson, Helga Sigurbjörnsdóttir. ✝ Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, ÞORLÁKUR Ó. SNÆBJÖRNSSON fyrrum vitavörður, áður til heimilis á Dalbraut 20, Reykjavík, sem lést á Hrafnistu í Hafnarfirði sunnudaginn 8. mars, verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Reykjavík fimmtudaginn 12. mars og hefst athöfnin kl. 15.00. Ingibjörg Þorláksdóttir, Hólmgeir Pálmarsson, Matthildur Þorláksdóttir, Hilmar Viktorsson, Sólborg Þorláksdóttir, Reynir Gunnarsson, Þórdís Jeremíasdóttir, barnabörn, barnabarnabörn og fjölskyldur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.