Morgunblaðið - 03.05.2009, Qupperneq 16

Morgunblaðið - 03.05.2009, Qupperneq 16
16 Svínaflensan MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 3. MAÍ 2009 Þ að var ekki fyrr en á fimmtudagskvöldið fyrir rúmri viku að almenn- ingi í Mexíkóborg fóru að berast fréttir af því að eitthvað væri á seyði. Strax daginn eftir hafði heilmikill ótti gripið um sig. Ég hafði sjálf legið veik alla vikuna og íslenskur sambýlingur minn, Logi, sömuleiðis. Okkur datt þó ekki í hug að um eitthvað annað en venjulegan flensuskít gæti verið að ræða. Hvers vegna hefði okkur svo sem átt að detta annað í hug? Við bölvuðum því heilmikið að vera veik því í vikulok áttum við von á bróður Loga og konu hans í heim- sókn frá Chicago. Á föstudagsmorgninum hringdi vinur minn á Írlandi í mig. Hann var áhyggjufullur eftir að hafa lesið alþjóðlegar fyrirsagnir sem töluðu um hættulega mexíkóska farsótt. Mér fannst fréttirnar hljóma ótrú- lega og hugsaði með mér að vinur minn hlyti að hafa misskilið eitt- hvað eða þá hafa verið að lesa The Sun. Um leið og ég fór út úr húsi tók ég hins vegar eftir því að eitt- hvað var í gangi. Strax þennan morgun var áberandi hversu fáir voru á ferli. Utan á söluturnum á horninu héngu forsíður dagblaða sem skýrðu frá því að samkvæmt fyrirskipan yfirvalda hefði öllum skólum í borginni, allt frá grunn- skólum til háskóla, verið lokað í tíu daga vegna inflúensufaraldurs. Ég stóð í óratíma og fletti dagblöðum til að reyna að átta mig á stöðu mála en græddi engar haldbærar upplýsingar á því. Enginn fjöl- miðlanna virtist vita neitt meira en það að um borgina gengi nú afar smitandi inflúensuvírus. Allar spurðu fyrirsagnirnar sömu spurn- ingarinnar: Hvað er að gerast? Færri á ferli Mexíkóborg er gífurlega fjöl- menn borg. Séu úthverfin tekin með eru á höfuðborgarsvæðinu um 24 milljónir manns. Borgin er þétt- býl og þar sem veðrið er jafnan gott eru götur, garðar og önnur útivist- arsvæði þeir staðir þar sem fólk kemur saman. Sjálf valdi ég mér ekki fáfarnasta svæðið en íbúðin okkar er í hjarta miðbæjarins. Til austurs við okkur liggur Zona Rosa, sem er líflegt svæði fullt af veit- ingastöðum og börum. Nafnið er dregið af því að þetta hverfi er einnig griðastaður samkynhneigðra í annars hómófóbískri menningu. Til vesturs við okkur liggur svo við- skiptahverfið þar sem glerhjúpuð háhýsi gnæfa yfir stórar umferð- argötur. Þegar ég fer út er ég vön því að lenda í fjölbreyttu mannhafi um leið og ég geng fyrir hornið á litlu götunni minni. En síðustu daga hafa göturnar verið hálftómar. Þeir sem hætta sér út úr húsi bera skurðlæknagrímur. Umferðin hefur að sama skapi snarminnkað og það er ekki lengur neitt vandamál að komast yfir Paseo de la Reforma. Þar er fuglasöngur allt í einu farinn að hljóma í stað umferðarniðs. Eina undantekningin á þessari skyndilegu ládeyðu er sú að þar til í síðustu viku heyrðum við svo til aldrei í sírenum. Frá því um helgina hefur hins vegar varla liðið klukkutími án þess að sjúkrabílar keyri götuna okkar vælandi. Gestirnir sem við áttum von á lentu í Mexíkóborg á föstudagshá- degi. Þeim var brugðið þegar þau áttuðu sig á því að þau höfðu flogið beint í gin ljónsins. Við reyndum að gera gott úr stöðu mála og röltum með þau um miðbæinn. Eftir því sem leið á daginn fjölgaði þeim sí- fellt sem báru skurðlæknagrímur. Ég hafði ætlað að sýna gestunum okkar helstu staðina í gömlu mið- borginni en hvað eftir annað kom- um við að lokuðum dyrum því líkt og skólunum hafði öllum opinberum byggingum, söfnum og görðum ver- ið lokað. Um kvöldið bárust sms-skeyti og tölvupóstur frá vinum og kunn- ingjum hér í borginni og öll vöruðu þau við því að hættulegur vírus væri að ganga. Kínverjarnir sem búa á hæðinni fyrir neðan okkur bönkuðu upp á og ráðlögðu okkur að fara ekki út úr húsi nema í ýtr- ustu neyð. Frændi minn, sem einnig býr hér í borginni, hringdi til þess að vera viss um að við værum með- vituð um hvað væri að gerast og brá allillilega þegar ég sagði honum að bæði hefðum við legið veik. Við hættum okkur engu að síður út þetta kvöld til þess að komast á netið á næsta Starbucks-kaffihúsi að afla okkur upplýsinga. Barirnir í Zona Rosa voru vissulega opnir og frá þeim barst sama háværa dans- tónlistin og vanalega en þetta kvöld dönsuðu gestirnir með andlits- grímur. Sumir emo-krakkanna höfðu jafnvel skreytt grímurnar sínar með tússpennum, glimmeri og límmiðum. Önnur báru fyrir vit- unum hauskúpuklúta. Þegar ég kom heim fannst mér ég lifa á tím- um einhverrar vísindaskáldsögu vír- ushræðslu. Útlendingar flýja landið Fréttirnar á vefnum þetta kvöld voru því miður engin skáldsaga. Talað var um fuglaflensu hina nýrri. Mexíkóborg var talin mið- punktur farsóttarinnar. Að minnsta kosti 60 manns voru látnir. Smitið hafði borist til Bandaríkjanna, eða hafði það kannski borist þaðan? Sumir fréttamiðlanna töluðu jafnvel um möguleika á farbanni. Gestirnir okkar ákváðu því að reyna að kom- ast úr landi sem fyrst. Á laugardagsmorgni vakti hópur fólks, sem hafði safnast saman fyrir utan opna glugga á steikhúsi, at- hygli mína. Fólkið var að fylgjast með ávarpi Felipes Calderons, for- seta Mexíkó. Hann ávarpaði þjóðina og bað fólk að vera rólegt. Verið væri að gera allt það sem unnt væri að gera til þess að hefta útbreiðslu veikinnar og aðstoða þá sem hefðu smitast. Það væri engin ástæða til að óttast en afar mikilvægt að fylgja fyrirmælum yfirvalda. Við innganga jarðlestarstöðva dreifðu vopnaðir hermenn skurðlæknagrím- um sem við og þáðum. Rauða tveggja hæða túristarútan keyrði göturnar með einn einmana ferða- mann um borð. Bróðir Loga og konan hans hringdu í American Airlines og at- huguðu möguleika sína á því að flýta förinni heim. Í ljós kom auð- vitað að þau voru langt í frá einu út- lendingarnir í Mexíkóborg sem vildu komast heim. Í þeim tugum véla sem flogið er daglega á milli Mexíkóborgar og Chicago voru að- eins um tuttugu sæti laus næsta morgun. Þeim var sagt að ef þau væru ekki tilbúin til þess að kaupa sér rándýr sæti á viðskiptafarrým- inu yrðu þau einfaldlega að reyna að freista þess að vera nógu fram- arlega í röðinni á flugvellinum næsta morgun. Um kvöldið komu mexíkóskir vin- ir mínir frá Toluca, bæ um 100 km frá Mexíkóborg. Þau voru öll veik. Þau höfðu ráðgert að ferðast þessa helgi tveggja daga leið heim til Chi- huahua en ferðalagið þeirra endaði þess í stað í bili með símtali heim til mömmu og dvöl á flatsæng á her- bergisgólfinu mínu. Það er í raun ekki skrýtið að far- sótt taki sig upp á þessum tíma en páskavikunni er nú nýlokið. Yfir- gnæfandi meirihluti Mexíkóa er kaþólikkar og hér fylgja páskavik- unni ekki aðeins mikil hátíðahöld heldur einnig mikil ferðalög á milli héraða. Og miklum ferðalögum á milli héraða fylgir auðvitað stór- aukin hætta á því að sjúkdómar og farsóttir dreifist hratt um landið. Apótekin full af reiðu fólki Snemma á sunnudeginum ætl- uðum við að fara á Starbucks til að athuga hvort eitthvað væri að frétta en þar komum við að lokuðum dyr- um. Þegar ég fór á hverfismark- aðinn seinna sama dag rétt slapp ég inn. Samkvæmt tilskipun yf- irvalda hafði afgreiðslutími mark- aðarins verið skertur. Á forsíðum blaðanna í hornsjoppunni lásum við að nú væri talið að meira en 150 manns hefðu látist úr flensunni í Mexíkó og enn sæi ekki fyrir enda hennar. Í apótekinu voru sótt- hreinsandi sápur uppseldar og ekki var von á nýrri sendingu af skurð- læknagrímum fyrr en að nokkrum dögum liðnum. Í dagblöðunum mátti sjá myndir af apótekum stút- fullum út úr dyrum af reiðu fólki sem vildi kaupa flensulyf sem ekki voru til. Óeirðalögreglan stóð vörð um stærsta fótboltaleikvang Mexíkóborgar þar sem löngu upp- seldur fyrstudeildarleikur fór að til- mælum yfirvalda fram fyrir luktum dyrum og tómum bekkjum til þess að reyna að sporna við útbreiðslu veirunnar. Leigubílstjórar keyrðu með alla glugga opna og vitin vand- lega hulin. Það er erfitt að vera útlendingur á slíkum tímum. Ég tala nægilega Veik í miðri Mexíkó Unnur María Bergsveinsdóttir er íslenskur sagn- fræðingur sem hefur undanfarna fimm mánuði verið búsett í Mexíkóborg þar sem svínaflensan hefur verið sem skæðust. Hún er ein þeirra sem þar hafa veikst á síðustu vikum og lýsir upplifun sinni af yfirstandandi atburðum í Mexíkóborg. Úti í búð Unnur María greinarhöfundur í matvöruverslun í Mexíkóborg. Grímur Íbúar Mexíkóborgar bera grímur fyrir vitum á almannafæri, t.d. í lestum borgarinnar. Grímunum er dreift ókeypis á lestarstöðvum. Börnin Foreldrar setja grímu á börn sín, til að reyna að forðast smit. Ég set á mig grímuna í hvert skipti sem ég hætti mér út fyrir hússins dyr. Hún nær yfir hálft andlitið á mér, ég svitna undan henni og mig klæjar. Þar sem ég hef sjálf verið veik veit ég ekki almennilega hvort ég ber hana til að verjast smiti, til að verja aðra fyrir sjálfri mér, eða einfaldlega til þess að vera eins og hinir. Vitanlega vill enginn vera flensumaðurinn. Í fyrradag kallaði nágranninn til mín inn um gluggann og spurði hvort það væri ég sem væri búin að vera að hósta og hvort ég væri nokkuð veik. Ég var ekki viss um það hverju ég ætti að svara og muldraði eitthvað um það að ég væri kvefuð. Þau hjónin hafa forðast mig eins og pláguna síðan. „Ertu nokkuð veik?“

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.