Morgunblaðið - 04.07.2009, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 04.07.2009, Blaðsíða 35
Minningar 35 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 4. JÚLÍ 2009 þegar mig fór að dreyma um það að skrifa einhvern tímann skáld- sögu byggða á ævi hennar. Það hefur enn ekki gerst þó svo að mörg uppköst séu til sem ratað hafa á öskuhaugana. Það hryggir mig svo ótrúlega mikið að hafa misst hana ömmu mína því núna er engin amma á Ísó. Núna bíður mín eingöngu tómt hús á Engjaveginum. Amma á Ísó er hluti af mínum bestu æskuminn- ingum og hefur hún verið stór hluti af mínu lífi. Ég er hinsvegar ótrú- lega hamingjusöm með það að hafa upplifað það að eiga svona ótrúlega fallega ömmu með risastórt hjarta sem tók svo vel á móti mér á hverju ári. Í dag öfunda ég börn sem eiga ömmur og afa úti á landi sem þau geta heimsótt á hverju sumri. Sú upplifun er ómetanleg og verður hreinlega ekki metin til fjár. Frá því að ég var 18 ára hef ég haldið að hver heimsókn mín til ömmu á Ísó væri mín síðasta og alltaf reynt að fá sem mest út úr heimsóknum mínum og ávallt sagt henni hversu vænt mér þykir um hana. Nú er ég hinsvegar 25 ára og ekki fyrr en núna sem hún leggst til hinnar hinstu hvílu. Þakka þér fyrir, elsku amma mín. Mér finnst ég vera sjálfselsk að syrgja þig, því í raun ætti ég að vera þakklát fyrir það að hafa orð- ið þeirra gæfu aðnjótandi að fæð- ast sem dótturdóttir þín. En ég get ekki annað en verið hvorttveggja. Ég er ákveðin í því að leyfa syni mínum að upplifa það að fara til Ísafjarðar á hverju sumri og á páskum en það hef ég hingað til gert. Því miður verður engin amma á Ísó til að taka á móti honum, en sem betur fer á ég ótal sögur sem þú hefur sagt mér. Þín Valgerður Húnbogadóttir. Þá er hún amma mín dáin, amma á Engjó eins og við kölluðum hana alltaf systkinin. Amma var yngst níu systkina, en átta voru þau alsystkinin sem ólust upp á Gelti við Súgandafjörð, fimm systur og þrír bræður. Ég man að mér þóttu þær systur allar heita svo flottum og tignarlegum nöfnum; Petrína Henríetta, Magnúsína, Stefanía Marta, Benedikta Sveinbjörg og svo amma, Friðgerður Guðný. Þær systur voru með kolsvart, þykkt og mikið hár, sumar með sítt hár fram á elliárin og amma sagði að þær hefðu verið með fallegasta hárið á Vestfjörðum, ég held að það sé satt. Amma fékk mig í afmælisgjöf þegar hún varð 48 ára gömul og var ég skírð í höfuðið á henni. Ég sagði oft við ömmu síðustu ár að hún hefði verið svo heppin að fá af- mælisgjöf sem stækkaði og stækk- aði. Ég man fyrst eftir ömmu og afa þegar ég var rúmlega tveggja og hálfs árs, þá komu þau til okkar mömmu þar sem við bjuggum úti í Krók. Mamma var að fara að eiga Fanneyju systur, pabbi og amma fóru með ömmu á sjúkrahúsið og ég og afi fórum í leigubíl inn á Engjaveg, ég sé þetta ennþá fyrir mér. Við barnabörnin hennar ömmu vorum mikið inni á Engja- vegi þegar ég var að alast upp, að leika okkur í búinu sem var á bak við hús, atast í köttunum hennar og borða radísur, næpur og rab- arbara á sumrin. Amma ræktaði alltaf grænmeti í garðinum sínum og þar vex stærsti og besti rab- arbarinn í bænum. Amma á sjö börn á lífi, tuttugu og sjö barnabörn og fullt af barna- barnabörnum. Það var með ólík- indum hvað hún var minnug á nöfn og afmælisdaga og fram á síðustu árin var hún með það allt á hreinu hver átti hvaða börn, hvað þau hétu og hvenær þau voru fædd. Amma hafði gaman af því að segja sögur af sér og sínum. Hún var stolt af sögunni af afa sem kom gangandi yfir heiði og út að Gelti til að biðja um hennar hönd með trúlofunarhringana í vasanum. Amma keyrði með mér nokkrum sinnum til Reykjavíkur og til baka eftir að ég eignaðist strákana, hún hafði alltaf svo gaman af því að ferðast um landið í bíl og stundum tókum við Baldur eða Fagranesið til að stytta mér aksturinn og henni þótti það ekki verra. Amma fór síðast með mér síðasta sumar þegar við fórum á ættarmót að Laugum í Sælingsdal. Hún var svo spennt fyrir þeirri ferð, talaði um að hún væri að fara á héraðsmótið sem hún fór aldrei á þegar hún var ung. Amma átti þar yndislegt kvöld þar sem hún hitti afkom- endur sína sem þarna voru mættir tæplega áttatíu talsins en svo veiktist hún og fór heim með sjúkrabíl á laugardeginum. Eftir það fór henni að hraka, allt þar til hún lést, 24. þessa mánaðar. Amma talaði um það í vetur að enginn í hennar fjölskyldu næði því að verða 90 ára en henni tókst það, einni af sínum systkinum. Ég kveð hana ömmu mína með söknuði og strákarnir mínir sem kölluðu hana alltaf gömlu ömmu eiga góðar minningar um gamla konu. Ég ætla að enda þessa kveðju mína á vísu sem hún fór með ótal sinnum í vetur og er eftir hann pabba henn- ar og er svona: Verður til gleði allsstaðar eins á jörðu og sænum fæddist fyrsta febrúar Fríða í Galtarbænum. Friðgerður Guðný Ómarsdóttir. Nú ertu farin frá mér, elsku amma mín, en minningin um þig er sterk í huga mínum. Það var alltaf gaman að vera hjá þér og afa á Engjaveginum, nóg um að vera í stórum garði sem var hægt að leika sér í. Þó ég hafi ver- ið unglingur þegar afi dó á ég góð- ar minningar um ykkur saman. Ég mun sárt sakna þín en ylja mér við minningar um góðar stundir sem við áttum tvær saman. Þessir ógleymanlegu bíl- og göngutúrar okkar sem enduðu alltaf með að fara að leiðinu hans afa og fá sér svo ís. Þó þetta hafi ekki verið langar ferðir gerðu þær mikið fyrir mig. Það er sárt að börnin mín fá ekki að kynnast þér eins og ég gerði, en minningarnar verða rifj- aðar upp. Ég sakna þín, elsku amma mín. Þín, Oddný Sigríður. Þar sem ég sit og nýt góða veð- ursins á tjaldstæði norður í Mý- vatnssveit, flytur útvarpið mér fréttir af andláti Fríðu „Annasar.“ Konurnar á Engjaveginum voru bara kenndar við eiginmenn sína og þess vegna var Fríða „Ann- asar“. Það var eitt hús á milli heimilis míns og hússins hennar Fríðu. Milli foreldra minna og þeirra hjóna var góður vinátta. Hún Fríða var í stóru hlutverki í barnæsku minni. Dóttir hennar Bergþóra er æskuvinkona mín og er auðvitað ennþá vinkona mín. Einnig voru systkini okkar beggja vinir. Sverrir og Steina skíðuðu saman, Systa og Didda skólasyst- ur, Eddi bróðir og Halldóra miklir vinir Simba. Já þetta yndislega samfélag á Engjaveginum var fullt af um- hyggju, samstöðu og náungakær- leik. Allir frumbyggjarnir voru í sömu sporum, áttu full hús af börnum, lítið af peningum en fullt af kær- leik. Börnin gengu út og inn og var tekið eins og eigin börnum í öllum húsunum. Í dag get ég rifjað upp barn- æsku mína og yljað mér við fal- legar minningar um þessa yndis- legu konu, sem í dag er til moldar borin. Hún var kannske ekki allra hún Fríða, en ég og mín fjölskylda átti vináttu hennar og kærleik. Þeir sem eignuðust vináttu fjölskyld- unnar á Engjavegi 34 áttu vini. Fríða var einstaklega yndisleg kona við lítil börn. Hún gaf sér tíma til að hlusta og sýndi börnum alltaf virðingu. Sjálf átti hún fullt hús af börnum samt átti hún nóg hjarta og húspláss fyrir önnur börn. Mér fannst ég alltaf verða mjög merkileg og mikilvæg manneskja þegar ég var komin á pallinn hjá Fríðu og ég lét mér detta margt í hug til að snúa henni í kring um mig. Þegar ég var lítil, bankaði ég upp á hjá henni og bað um að fá að pissa. Það var auðvitað auðsótt mál. Gjörðu svo vel. Nei ég vildi fá kopp út á pall. Já það var bara sjálfsagt fyrst ég vildi hafa það svoleiðis. Svo gat ég líka komið og fengið að vaska upp, örugglega hefur ver- ið meira mál að þrífa eftir mig en að ég hafi gert eitthvert gagn. Samt er í minningu minni ein stund öllum öðrum stærri og merkilegri. Fríða var lögð inn á sjúkrahúsið á Ísafirði. Ég hafði auðvitað mikla samúð með vinkonu minni Bergþóru, við lögðum land undir fót út á sjúkrahústún og köstuðum sjóbolta í gluggann . Fríða kom út í glugga, við höfðum fundið spýtu sem við reistum upp við vegginn og gátum klifrað upp að glugganum. Þegar kom að mér að klifra upp að glugganum rétti Fríða mér fingravettlinga. Þetta voru kóngabláir fingravettlingar með hvítri rós á handarbakinu. Um leið og hún rétti mér vettlingana sagði hún að þeir væru laun fyrir hvað ég væri búin að vera dugleg að hjálpa henni við uppvaskið. Ég var orðlaus, þetta eru bestu laun sem ég hef nokkurntíma fengið. Ég mun aldrei gleyma þessu. Ég harma það mjög að geta ekki fylgt Fríðu síðasta spölinn. Kæru systkin, við systkinin frá Engjavegi 30 sendum ykkur öllum innilegar samúðarkveðjur. Það er gott á svona stundu að eiga góðar minningar, en ég veit að hún skilur eftir sig eingöngu góðar minningar. Ég bið Fríðu blessunar og kveð hana með þökk og virðingu. Blessuð sé minning hennar. Guðrún Helga Jónsdóttir. ✝ Dagbjartur Krist-inn Gunnarsson fæddist í Marteins- tungu í Holtum 24. nóvember 1913. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 28. júní síðastliðinn. For- eldrar hans voru hjónin í Marteins- tungu, Guðrún Krist- jánsdóttir húsfreyja, f. 11. desember 1889 og, d. 26. janúar 1983 og Gunnar Einarsson bóndi, f. 3. mars 1876, d. 24. nóv- ember 1961. Systir Dagbjarts var Ólöf Kristjana, f. 18. júlí 1911, d. 16. maí 2006, maður hennar var Tómas Jochumsson, f. 22. ágúst 1907, d. 16. nóvember 1964, þau eignuðust eina dóttur. Bræður Dagbjarts eru, tví- burabróðir hans, Guttormur Ár- mann, f. 24. nóvember 1913, kvænt- ur Elke I. Gunnarsson, f. 20. apríl 1931, þau eiga sex börn og Kristján J., f. 29. nóvember 1919, kona hans var Þórdís Kristjánsdóttir, f. 18. september 1918, d. 7. júní 2002, þau eignuðust fimm börn. Dagbjartur ólst upp í Marteins- tungu á mannmörgu heimili hjá for- eldrum sínum og systkinum, við al- menn sveitastörf þess tíma. Hann fór til Reykjavíkur um tvítugt og vann sem mjólkurpóstur einn vetur. Þá fór hann á vetrarvertíð í Voga á Vatnsleysuströnd, í eina sjö vetur. Í Marteinstungu var Þinghús um langt skeið og í því var rekið bóka- safn sveitarinnar og var Dagbjartur bóka- vörður þar til safnið var flutt í samkomu- húsið að Laugalandi í Holtum. Þá var sím- stöð sveitarinnar staðsett í Marteins- tungu um tíma og vann Dagbjartur við símavörslu meðan stöðin var þar. Einnig var Dagbjartur um- boðsmaður fyrir skattstjóra Suður- landsumdæmis í Holtahreppi í nokkur ár, sem fól í sér að ferðast á milli bæja í sveitinni og hjálpa fólki við skattframtöl. Um alllangt skeið var Dagbjartur gjald- keri og safnaðarfulltrúi í Marteins- tungukirkju, ásamt að vera hringj- ari og kirkjuvörður. Meðfram þessum fyrrgreindum störfum stundaði Dagbjartur búskap í Mart- einstungu, fyrst með foreldrum sín- um og síðar með Guttormi bróður sínum, en hann lét af þeim störfum um sextugt af heilsufarsástæðum. Upp úr því flytur Dagbjartur að Selfossi og vinnur þar við smíðar. Þaðan liggur leið hans að Ási í Hveragerði, en þar stundaði hann gróðurhúsavinnu þar til hann flytur að Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund, sem var hans heimili í nær 25 ár. Útför Dagbjarts Kristins fer fram frá Marteinstungukirkju í Holtum, í dag, 4. júlí og hefst at- höfnin kl. 14. Í lok messu í útvarpinu sunnudag- inn 28. júní sl. lést frændi okkar Dag- bjartur Kristinn, Kái, tvíburabróður pabba, en 24. nóvember sl. náðu þeir bræður 95 ára aldri. Aðeins einu sinni áður, svo vitað sé, hafa tvíburar hér á landi náð 95 ára aldri, svo líklegast er óhætt að segja að Kái og pabbi hafi náð að jafna Íslandsmetið og gott bet- ur. Á þessum tímamótum er margs að minnast. Við systkinin ólumst upp með Káa frænda, frá því að við mun- um eftir okkur. Menntun var honum hugleikin og studdi hann okkur ávallt og hvatti okkur til mennta. Kái hafði einstaklega fallega rithönd og rétt stafsetning var honum meðfædd kunnátta ásamt góðri reikningskunn- áttu. Kái kom ávallt vel fyrir, var mik- ið prúðmenni og smekkmaður. Hann var hlýr og barngóður og börn hænd- ust að honum. Kái var ljóð- og bók- hneigður mjög og átti safn góðra ís- lenskra bóka. Þá var hann mjög handlaginn, smíðaði, dyttaði að og málaði. Einnig var Kái góður heim að sækja og tók vel á móti gestum, bæði meðan hann bjó í Marteinstungu og á Grund. Kái hlúði að okkur systkinunum alla tíð, kenndi okkur að lesa, skrifa, reikna, ráða krossgátur og fara með ljóð og vísur. Oft var kveðist á í fjós- inu sér til gagns og gamans meðan mjólkað var og byrjaði Kái þá á vís- unni „Komdu nú að kveðast á“ og þá reyndi nú á vísnakunnáttu okkar systkinanna. Þá hlýddi hann okkur yfir námsefnið fyrir próf og virtist alltaf hafa nægan tíma til þess. Oft leiddi hann okkur um tún og haga í Marteinstungu og fræddi okkur um náttúruna, umhverfið og örnefnin. Þá var gott að koma í litla herbergið hans, sem hafði að geyma bókahillur með dulafullu Íslendingasögunum, rúmi, fataskáp og kringlótta litla sófa- borðinu. Hjá Káa fengum við að teikna og búa til kort úr umbúðapapp- ír og stundum lánaði hann okkur her- bergið sitt fyrir hina ýmsu leiki. Mikill spenningur ríkti þegar jól nálguðust, því í pökkunum frá Káa voru alltaf spennandi bækur. Kái var hárskeri af Guðs náð og klippti allt heimilisfólkið og marga sveitunga sína. Einu sinni keypti Kái sér hjól til að ferðast um á, en við vitum samt ekki alveg hvort við notuðum það meira eða hann. Seinna keypti hann sér Skóda-bifreið sem hann ók um á í vinnuna hjá skattinum. Eftir að Kái flutti á Grund heim- sóttum við systurnar hann oft. Það var gaman að koma til Káa, hann bauð þá upp á gos og sætindi. Ekki má gleyma að nefna hinn árlega jóla- basar á Grund, þá fjölmenntum við systurnar til Káa með börnin okkar og var þá glatt á hjalla. Einnig var alltaf gott að fá Káa í heimsókn til okkar og það var ekki haldin sú veisla, að hann kæmi ekki, meðan hann gat og heilsa leyfði. Við systkinin, makar okkar og börn, þökkum samfylgdina, kæri Kái frændi. Foreldrar okkar, Elke og Manni, þakka þér einnig samfylgdina á langri ævi. Þá viljum við þakka starfsfólkinu á Grund fyrir góða umönnun. Nú verður Kái frændi lagður til hinstu hvílu í kirkjugarðinum í Mart- einstungu, við hlið foreldra sinna. Blessuð sé minning hans. Hanna, Guðný, Helga, Gréta, Gunnar og Áslaug. Elskulegur föðurbróðir minn Dag- bjartur Kristinn Gunnarsson er fall- inn frá í hárri elli. Góður drengur, hjartahlýr sem öll- um vildi vel. Honum auðnaðist ekki að eignast eigin fjölskyldu. Sinnti stórfjölskyldu sinni þeim mun betur. Systkini, systk- inabörn, systkinabarnabörn og systk- inabarnabarnabörn nutu gjafmildi hans. Dagbjartur Kristinn eða Kái eins og hann var jafnan kallaður, bjó lengst af í Marteinstungu, Holtum. Hann stundaði þar búskap ásamt eft- irlifandi tvíburabróður sínum Gutt- ormi og hans fjölskyldu. Þeirra hlýja og umhyggja til Káa hefur alla tíð ver- ið einstök. Á efri árum flutti hann að Ási í Hveragerði og síðar að elliheim- ilinu Grund í Reykjavík þar sem hann naut einstakrar umönnunar starfs- fólksins. Eftir andlát móður minnar Þórdís- ar Kristjánsdóttur, flutti faðir minn Kristján J. Gunnarsson á Grund til nokkurra ára og urðu þá samskipti bræðranna aftur tíðari. Kái var þar heimamaður og tók vel á móti bróður sínum og náðu þeir að rifja upp gamla tíma. Við fjölskyldan minnumst Káa frænda af virðingu og munum ávallt heiðra minningu hans. Ásdís Kristjánsdóttir og fjölskylda. Dagbjartur Kristinn Gunnarsson Kveðja frá Lions- klúbbi Blönduóss Í dag kveðja Blönduósingar og aðr- ir héraðsbúar Jón Ísberg fyrrver- andi sýslumann. Jón var einn af stofnendum klúbbsins og var alla tíð traustur og góður liðsmaður Lions. Hann var kosinn til æðstu embætta innan Lionshreyfingarinnar, sem sýnir vel Jón Ísberg ✝ Jón Ísberg fædd-ist í Möðrufelli í Eyjafirði 24. apríl 1924. Hann lést á Fjórðungssjúkrahús- inu á Akureyri 24. júní síðastliðinn og fór útför hans fram frá Blönduóskirkju 3. júlí. það traust sem til hans var borið. Jón var um- dæmisstjóri 109 B 1983 og árið eftir var hann fjölumdæmis- stjóri. Nú um skeið hefur Jón átt við vanheilsu að búa, og það gladdi okkur félaga hans mikið að hann gat tek- ið þátt í 50 ára afmæl- isfagnaði Lions- klúbbsins þann 8. maí sl., ásamt Þórhildi konu sinni. Hófið sat hann til enda án þess að láta sér bregða. Og nú er erfiðri vegferð lokið. Félagar í Lionsklúbbi Blönduóss þakka Jóni langa og góða samfylgd og votta Þórhildi hinstu samúð. Sigurjón Guðmundsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.