Saga - 1975, Page 98
92
SIGURÐUR RAGNARSSON
„Lögrjettu" sé í góðu samræmi við það, sem fram kom af
hálfu Heimastjómarmanna í umræðunum á alþingi. Þó
er greinilegt, að afstaða blaðsins til stórframkvæmda í
fossamálinu á þeim grundvelli, sem Sogsfossafrumvarpið
gerði ráð fyrir, var jákvæðari en jafnvel kom fram hjá
nokkrum þingmanni, sem tjáði sig um málið. Er ekki sízt
eftirtektarvert, að blaðið sá málið allt í víðtækara sam-
hengi en flestir aðrir, sem um það fjölluðu og horfði meir
til fjarlægari framtíðar um áhrif sérleyfisveitingar, ef af
framkvæmdum yrði á grundvelli hennar.
Eftir þá allsherjarúttekt á fossamálinu sem „Lögrjetta“
gerði 22. ágúst fjallaði blaðið ekkert um málið fyrr en
18. september. Blaðið birti þó frumvarp Bjarna frá Vogi
hinn 25. ágúst, en án nokkurra athugasemda, og endurtók
12. september fyrri gagnrýni sína á afstöðu Framsóknar-
flokksins til málsins, sem það taldi „með öllu óverjandi“.
Hinn 18. september birti „Lögrjetta“ loks nefndarálit
fjárhagsnefndar neðri deildar um frumvarp Bjarna frá
Vogi og sömuleiðis álit Sogsfossanefndar efri deildar og
tillögu hennar til ályktunar í málinu. Það vekur nokkra
furðu, að blaðið skuli ekki gera neinar efnislegar athuga-
semdir við þessi plögg, en svo er ekki. Virðist eðlilegast að
líta á þetta sem eins konar staðfestingu þess, að blaðið
hafi nú gert sér grein fyrir því að barátta þess fyrir fram-
gangi fossamálsins á yfirstandandi þingi í þeirri mynd,
sem Sogsfossafrumvarpið fól í sér, bæri ekki tilætlaðan
árangur að svo stöddu. „Lögrjetta" virðist hafa litið á
niðurstöðu alþingis sem skárri kostinn af tvennu illu og
er svo að sjá sem blaðið hafi bundið nokkrar vonir við að
fossanefnd sú, sem nú var fyrirhugað að skipa, myndi með
tillögum sínum opna nýja möguleika á framkvæmdum í
fossamálinu eftir þeim leiðum sem blaðið hafði beitt sér
fyrir. Þetta er svipað viðhorf og kom fram hjá Jóni
Magnússyni forsætisráðherra og heimastjórnarmönnum
yfirleitt.
Af hinum blöðunum var það „Vísir“ einn sem fjallaði