Saga - 1975, Page 118
112
BERGSTEINN JÓNSSON
mér líkuðu fyrirsagnir hans til verka stundum ekki vel. Hann fór
héðan inn í Végeirsstaði í Fnjóskadal, giftist þar, en flutti fljótlega
til Ameríku.“12).
Annar bróðir Jóns var Gísli, sem nefndi sig Dalmann
eftir að hann var kominn til Ameríku. Ekki fer sérstökum
sögum af honum, svo að mér sé um það kunnugt; en allir
sem minnast á konu hans, Karólínu Jónsdóttur frá Litlu-
laugum, ljúka upp einum munni um atorku hennar og
kjark, sem einkum kom í ljós, þegar hún var orðin ein-
stæð ekkja með hóp hálfvaxinna barna. Einna kunnust
hefur hún ef til vill orðið fyrir árásir á skáldið Stephan
G. Stephansson, sem henni fannst vera óleyfilega guðlaus.
Hvað sem líður systkinum Jóns dagbókarhöfundar og
öðrum ættmennum hans, þá hlýtur hann sem aðrir að
dæmast eftir eigin orðum og gerðum, ávirðingum og —-
ágæti. Til þess að sá dómur megi upp kveðinn verða er
ekki annað málsskjal sjálfsagðara en margnefnd dagbók,
þar sem hann virðist vera fullkomlega heiðarlegur og
hreinskiptinn, hvort sem hann fjallar um sjálfan sig eða
aðra.
Eigandi dagbókarinnar er Friðrik Guðmundur Johnson
(Fred. G. Johnson) fyrrum bóndi í Garðar-township,
Pembina County í Norður-Dakota. Var það vorið 1972, sem
hann lánaði mér þessi plögg úr fórum afa síns og leyfði
mér að ljósrita eftir þeim. Einnig heimilaði hann mér að
gefa blöðin út, hvort sem heldur væri eins og þau lágu
fyrir frá hendi höfundar, stytt eða endursögð, svo framar-
lega sem rétt væri með farið. Ennfremur að þýða dagbók-
ina á ensku.
Hér hef ég kosið að hafa þann hátt á að rekja efni dag-
bókarinnar og frásagnir til sumarsins 1861, þegar Jón
fluttist frá Mjóadal og hóf búskap á Jarlsstöðum.
12) Jón Sigurðsson: „Sigurður í Yztafelli og samtíðarmenn.“ '
Reykjavík 1965. — Bls. 55—56. Þar tilfært eftir dagbók Sigurðar.