Saga - 1975, Side 278
272
RITFREGNIR
úr þessu efni, að vart er við því að búast að höfundur geti lagt
fram ábyggilegar niðurstöður. Loks skal hér getið ritgerðar Björns
Teitssonar um byggðarsögu Seltjamarnesshrepps hins forna. Þar
er tekið til meðferðar efni, sem skammarlega lítið hefur verið sinnt
af íslenzkum sagnfræðingum til þessa. Höfundur leiðir ýmislegt
nýtt fram í dagsljósið og fjallar um efni sitt á mjög lipurlegan og
aðgengilegan hátt.
Frágangur flestra ritgerðanna er vandaður, en nokkrir höfundar
gera sig þó seka um ófyrirgefanlega vanrækslu: Þeir birta hvorki
heimildaskrá né vísa til heimilda. Slíkt er með öllu óþolandi í riti
sem þessu. 1 einni ritgerð kveður svo rammt að slíkri hroðvirkni,
að hún er nánast blettur á bókinni. Þetta er ritgerð Sveins Einars-
sonar, sem ber yfirskriftina: „Leiklistin festir rætur í Reykjavík“.
Þess skal getið strax, að Sveinn dregur fram margan fróðleik, og
á köflum er ritgerð hans stórskemmtileg aflestrar. Hún er hins
vegar afar illa unnin, og stendur þess vegna eins og hálfgert viðrini
innan um vísindalega samdar ritgerðir. Höfundur hirðir ekki um
að birta heimildaskrá, og aðeins stöku sinnum getur hann heimilda
í texta. Enn verra er þó að höfundur tekur oft fram, að sig „minni“
eitt eða annað. Hann er sem sagt alls ekki viss um, hvort hann fan
með rétt mál eða ekki. Á einum stað getur hann þess jafnvel, að
„sig minni", að auglýsing, sem hann les síðan í heild hafi birzt
í ísafold 15. febrúar 1890! Hefði verið of mikil fyrirhöfn að ganga
úr skugga um dagsetninguna um leið og textinn var tekinn upp-
Svona vinnubrögð eru algjörlega óhafandi í sagnfræðilegu riti.
Gömlum mönnum, sem eru að rifja upp endurminningar sínar er
hægt að fyrirgefa, þótt þá rámi í eitt og annað, en allir vita að
Sveinn Einarsson var ekki uppi á 19. öld.
Sem fyrr segir eru mörg málefni tekin til umræðu í þessu riti.
en engu að síður hlýtur maður að sakna margs. Mjög gaman hefði
t. d. verið að fá ritgerðir um sögu reykvískrar blaðaútgáfu, og saga
skólamála í Reykjavík er óneitanlega merkur þáttur í sögu bæjar-
ins. Ennfremur hefði mátt gefa meiri gaum að sögu Reykjavíkur
á 20. öld.
Útgáfa þessarar ágætu bókar hlýtur að vekja menn til urnhugs-
unar um það, hvort nóg sé rætt og ritað um íslenzka sögu. SögU'
félagið þyrfti helzt að gangast fyrir ráðstefnum sem þessari á
hverju ári, og þá ekki eingöngu um sögu Reykjavíkur heldur alls
landsins. Á hverri ráðstefnu mætti þá taka til meðferðar ein-
stök málefni eða ákveðin tímabil. Nóg eru verkefnin. Hafi Sögu-
félagið þökk fyrir þetta ágæta framlag.
Jón Þ. Þór.