Saga - 1979, Blaðsíða 30
28
ANNA AGNARSDÓTTIR
ránsins.1) Helgi P. Briem t.d. setur, í bók sinni „Sjálf-
stæði Islands 1809“2), fram þá tilgátu, að valdaránið hafi
verið fyrirfram undirbúið og að breska stjórnin, í samráði
við Banks, hafi staðið á bak við það.
Danski sagnfræðingurinn Edvard Holm er á öndverðum
meiði. Hann segir svo um valdaránið:3)
Her ville vi blot fremhæve, at det intet havde at gjöre
med noget forhold til den engelske regjering. Denne
ville aldeles ikke optræde her pá nogen máde som Dan-
mark-Norges fjende, og det blev ogsá en engelsk sö-
officer, der gjorde ende pá denne forunderlige episode.
1 þessari grein er hvorki rúm til að ræða kenningu Helga
P. Briem né atburðarás valdaránsins í smáatriðum. Hér
verður fyrst og fremst lýst aðdraganda þess, enda er meg-
inmarkmið kaflans að leiða getum að nánustu orsökum
valdaránsins í því skyni að varpa ljósi á það, hvort breska
ríkissrtjórnin hafi átt þátt í því.
1 maí 1808 barst Sir Joseph Banks bréf frá Jörgen
Jörgensen,4) sem hann hafði kynnst árið 1806, vegna sam-
eiginlegs áhuga þeirra á Suðurhafseyjum, sem þeir höfðu
báðir heimsótt. Er ófriður Dana og Breta hófst að nýju árið
1807, varð Jörgensen skipstjóri á dönsku víkingaskipi. Vík-
ingaskip þetta, Admiral Juul að nafni, var hertekið af
!) Heimildir um valdaránið eru margar. Auk áðurnefndrar bókar
Helga P. Briem má nefna: Jón Þorkelsson, Saga Jörundar Hunda-
dagakonungs (Khöfn 1892); Samuel Phelps, Observations on the Im-
portance of Extending the Britisli Fislieries etc. (London 1817);
William J. Hooker, Journal of a Tour in Iceland (Yarmouth 1811);
frásagnir Jörgensens í B.M. Eg(erton) MS. 2067—2070; skýrsla
Trampes til Batliurst, 6. nóv. 1809, eintak í Eg. MS. 2067 og í Jör-
undarskjölum (í Þjóðskjalasafninu); Derek McKay, „Great Britain
and Iceland in 1809“, Mariners Mirror (1973).
2) Helgi P. Briem, bls. 492—509.
3) Edvard Holm, Danmark-Norges Historie 1720—1814 (Khöfn,
1912), VII, bls. 282.
4) 27. maí 1808, Jörgensen til Banlcs, Sutro, bls. 72—5.