Saga - 1991, Blaðsíða 265
RITFREGNIR
263
til þess að dómsvaldið hafi álitið vert að sporna við óhlýðni hjúa gagnvart
húsbændum sínum. Guðlaug hafði unnið u.þ.b. þrjá mánuði hjá Jóni og var
gert að bæta honum upphæð sem nam þremur fjórðu hlutum árslauna
sinna." Ég tel ekki rétt að dómurinn beri vitni um sérstök viðhorf dómsvalds-
ins til óhlýðni vinnuhjúa. Þegar dómurinn var kveðinn upp var í gildi tilskip-
un frá 26. janúar 1866 um réttarstöðu vinnuhjúa. Þar sagði í 12. gr.: „Ef hjú
riftar vistarráðum án lögmætra orsaka, skal það greiða húsbónda slíkt, sem
hann hefði átt að gjalda því í kaup fyrir vistartíma þann sem um var samið."
Eftir að dómarinn hafði komist að þeirri niðurstöðu að Guðlaug hefði með
ólögmætum hætti rift vistráðningunni var ákvörðun bóta í reynd mjög ein-
falt reikningsdæmi. Það segir hins vegar ekkert um sérstakar skoðanir dóm-
arans á þessu máli og þaðan af síður um viðhorf dómsvaldsins yfirleitt.
Fleiri dæmi af þessu tagi mætti nota þar sem dómum er gert of hátt undir
höfði sem sjálfstæðum heimildum. Á bls. 61 segirað sýslumenn hafi tekið til-
lit til aðstæðna sakborninga og almennt kveðið upp tiltölulega vægar refsing-
ar við neyðar- og smáþjófnuðum. Áður en dregnar verða af þessu sérstakar
ályktanir um viðhorf sýslumanna eða yfirvalda yfirleitt hlýtur að þurfa að
kanna hvort dómar þeirra hafi að þessu Ieyti verið á annan veg en Iöggjöfin
gerði ráð fyrir. Á bls. 63 er sagt að Landsyfirrétturinn hafi ekki skirrst við að
beita þungum refsingum væri um endurtekin brot að ræða, jafnvel þótt and-
virði hins stolna væri lítið. Án þess að ég hafi kannað það sérstaklega hef ég
ekki ástæðu til annars en að ætla að Landsyfirrétturinn hafi eingöngu verið
að fara að fyrirmælum laga um ítrekun brota. Þessi dæmi sýna að nauðsyn-
legt er að skoða í hverju einstöku tilfelli þann lagagrundvöll sem úrlausn
hvílir á, áður en af þeim verði dregnar sérstakar ályktanir um viöhorf þeirra
manna sem að þeim stóðu. Dómurinn er yfirleitt aðeins heimild um það
hvað dómarinn telur vera gildandi rétt í landinu um það tilvik sem fjallað er
um, en aðeins í fáum tilfellum sjálfstæð heimild um það sem hann telur að
eigi að vera gildandi réttur. Með þessu er ekki sagt að niðurstöður Gísla
Ágústs séu rangar, heldur aðeins það, að mér virðist sem honum hætti til að
ofmeta sjálfstætt heimildargildi dómanna og láti hjá líða að setja þá í eðlilegt
samhengi við þau Iagaákvæði sem þeir grundvallast á. Ekki veit ég hvernig
þessu er háttað í þeim rannsóknum erlendum sem hann vitnar til, en bendi
þó á að sjálfstætt heimildargildi úrlausna dómstóla, t.d. á Englandi, er lík-
lega miklu meira en íslenskra dómsúrlausna og hæpið kann að vera að taka
sér rannsóknir á afbrotum þar í landi til fyrirmyndar að þessu leyti, þar sem
réttur þessara ríkja hvílir á mjög ólíkum hugmyndum um réttarskapandi
hlutverk dómstóla.
Það er ekki aðeins að Gísli Ágúst handleiki dóma um sumt á annan veg en
lögfræðingar myndu gera, heldur er hugtakanotkun hans á köflum með öðr-
um hætti. Rétt er þó að benda á að ónákvæm meðferð lögfræðilegra hugtaka
er nokkuð útbreidd meðal íslenskra sagnfræðinga, þegar þeir fjalla um
réttarsöguleg efni. Ýmis dæmi má nefna þar sem ég tel hugtakanotkun ekki
standast að öllu leyti lögfræðilegar kröfur. Á bls. 53 er talað um refsingu sem
hjú hafi þurft að sæta, þar sem rétt er að tala um bætur. Á sömu blaðsíðu tal-
ar höfundur um „refsiviðhorf" að baki slíkum bótagreiðslum. Enn er á sömu