SunnudagsMogginn - 17.04.2011, Blaðsíða 20

SunnudagsMogginn - 17.04.2011, Blaðsíða 20
20 17. apríl 2011 H ópur manna gerir sig kláran til að ferðast frá Longyearbyen til Barentsburg, 65 kílómetra hvora leið. Fararskjótarnir eru kraftmiklir vélsleðar og áður en lagt er af stað er farið nákvæmlega yfir öryggisatriði. Síðan er að velja skjól- góða samfestinga eftir vaxtarlagi hvers og eins, þykka leðurhanska, stígvél og öryggishjálm. Allt tekur þetta sinn tíma, en loks er hópurinn tilbúinn í ferðalagið. Mannskapurinn ekki beinlínis liðlegur í allri þessari múnderingu, en kannski var hann það ekki áður! Sleðar eru merktir hópnum þegar út á sleðastæðið kemur. Þar eru sleðar í tuga- eða hundraðatali, en á Svalbarða eru um þrjú þúsund vélsleðar. Jafnmargir og hvítabirnirnir á eyjaklasanum og nágrenni. Íbúar í Longyearbyen eru um tvö þúsund. Allt er á kafi í snjó, en sem betur fer stillt og bjart. Ekki skafrenningur og blint eins og var í bænum kvöldið áður. Það er rúmlega tíu stiga frost og það er 6. apríl. En við erum jú stödd á Svalbarða. Vopnaður fararstjóri Áður en lagt er af stað athugar annar fararstjórinn vopnabúnaðinn. Öryggisblys á sínum stað, riffillinn í hylki á sleðanum og eins gott að skotin eru með. Hnífur hangir í belti um stjórann miðjan. Allur er varinn góður, hvítabirnir gætu verið á ferðinni og fólkið á Svalbarða hefur margt staðið andspænis bangsa. Hann hefur verið alfriðaður frá 1973, en í nauðvörn má grípa til vopna. Síðan drynur í sleðunum, sem eru ræstir hver af öðrum. Sjö norrænir blaðamenn bera sig mannalega. Tveir hafa reynslu, Grænlendingur og hinn Íslendingurinn. Ykkar ein- lægur hefur ekki einu sinni keyrt mótorhjól en nú er að duga eða drepast. Kannski hefði verið betra að fara á hundasleða sem líka eru í boði í Longyearbyen. Eða íslenskum hestum, sem nokkrir finnast á eyjunni. Við keyrum eftir árfarvegi upp úr bænum og smátt og smátt fjarlægjumst við þorpið. Iðahvít mjöllin þyrlast upp, allt hvítt hvert sem litið er, en vélahljóðið í sleðunum rýfur friðinn. Þetta er í lagi meðan við erum á undir 30 kílómetra hraða. Svo krossum við veginn sem liggur út úr þorpinu og skyndilega er orðið ansi langt í sleðann á undan. Okkur sem var uppálagt að halda jöfnu bili á milli sleða. Það er ekki annað að gera en að snúa bens- íngjöfinni aðeins og sá tekur við sér. Þetta verður allt í lagi. Við keyrum framhjá Eittdalnum þar sem Stóra norska var með kolanámu í eina tíð. Keyrt er upp Tvödalinn, ótrúleg fegurð og fljótlega er stoppað. Nokkrir bústaðir eru í hlíðununm, einföld bjálkahús í eigu fólksins í Longyearbyen. Norðmenn geta ekki verið án þess að komast í hyttu og í þessar komast menn ekki nema á vélsleða eða fótgangandi ef snjóa leysir. Áfram skal haldið og sleðarnir taka við sér hver af öðrum. Allir nema minn! Þurfti ég endilega að lenda á eina sleðanum sem þarf að trekkja í gang eftir hvert einasta stopp? Móða sest á gleraugun við puðið, þeir geta bara beðið eftir mér. Fararstjóranum er orðið heitt í hamsi og hraðinn nálgast 60 kílómetra á klukkustund. Síðan drynur í sleðunum Svalbarði er kalt ævintýri, en spennandi eins og önnur slík. Ferðamennska, námavinnsla og vísindi setja svip á samfélagið. Sumir ferða- mennirnir leggja út á auðnina með tjald sitt og annan búnað á bakinu. Aðrir þreyta frumraun sína á vélsleða með 130 kílómetra ferð um fjöll, firði og firnindi Svalbarða frá Longyearbyen í heimsókn til Rússanna sem starfa við náma- vinnslu í Barentsburg við Grænafjörð. Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.