SunnudagsMogginn - 17.04.2011, Blaðsíða 30

SunnudagsMogginn - 17.04.2011, Blaðsíða 30
30 17. apríl 2011 Þ að eru mikil umbrot í pólitíkinni í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðsl- unnar um Icesave um síðustu helgi og sviptingasamrar at- kvæðagreiðslu um vantrauststillögu Bjarna Benediktssonar á Alþingi sl. mið- vikudagskvöld. Hins vegar er ólíklegt að þessi umbrot leiði til afgerandi breytinga á þeirri pólitísku stöðu sem uppi er. Innan ríkisstjórnarinnar er samstaða um að sitja þótt þar sé samstaða um fátt annað. Innan þess sem eftir er af Vinstri grænum er samstaða um að halda saman, þótt þar sé samstaða um fátt annað. Innan Sjálfstæðisflokksins er sá ágrein- ingur, sem varð til vegna ákvörðunar for- ystu flokksins og meirihluta þingflokks um að styðja Icesave III, að jafnast á þeirri forsendu þó að forystusveit flokksins gangi ákveðnar fram í baráttunni gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Innan Framsóknarflokksins eru tveir þingmenn, Siv Friðleifsdóttir og Guð- mundur Steingrímsson, að búa sér til stöðu til þess að ganga til stuðnings við ríkisstjórnina. Hins vegar er ólíklegt að eftir því verði leitað nema þörf verði á því að slíkur stuðningur mun kosta eitthvað. Óljóst er enn hvort þeir þrír þingmenn, sem hafa yfirgefið þingflokk VG, stofna nýjan þingflokk sem gæti orðið fyrsta skrefið til stofnunar nýs flokks þótt þeir hafi ekkert gefið upp um slíkt. Augljóst er að Ásmundur Einar Daðason hefur tæki- færi til að sækja fylgi í raðir andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu, enda í forystu í þeirri baráttu, svo og til landsbyggðarinnar. Lilja Mósesdóttir á rætur í götumótmælunum í ársbyrjun 2009 og hefur tengsl við Borgarahreyf- inguna. Atli Gíslason hefur gefið til kynna að hann kunni að hætta afskiptum af stjórnmálum, ekki síðar en við næstu kosningar. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er komin í lykilstöðu innan stjórnarflokkanna. Hún hefur líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér, ef henni sýnist svo. Það væri sterkur leikur fyrir stjórnarflokkana að gera Guðfríði Lilju að menntamálaráðherra í barneign- arleyfi Katrínar Jakobsdóttur. Hún mundi sóma sér vel í því ráðuneyti. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa lengi stefnt að því að losna við Jón Bjarnason úr ríkisstjórn. Þau hafa ekki lengur bolmagn til þess. Myndin, sem við blasir á hinum póli- tíska vettvangi er mikið umrót en jafn- framt sjálfhelda. Þessi staða kann að henta flokkunum og mörgum þeirra þingmanna, sem nú sitja á Alþingi og vita að þeir eiga ekki aftur- kvæmt en hún hentar ekki þjóðinni og hagsmunum hennar. Við aðstæður sem þessar er ríkisstjórnin ekki líkleg til mik- illa afreka eða yfirleitt að koma nokkru í verk sem máli skiptir. Með pólitískri sjálf- heldu, sem of margir hafa hagsmuni af að haldist, er þjóðinni haldið í eins konar gíslingu. Kannski er það versta við flokkana að þeir hafa ekki einu sinn orðið alvöru vett- vangur fyrir umræður um það sem aflaga hefur farið í samfélaginu. Eru stjórnmála- flokkar í sinni hefðbundnu mynd kannski að verða úrelt fyrirbæri á 21. öldinni þegar þjóðaratkvæðagreiðslur eru að ryðja sér til rúms? Eru flokkarnir að verða íhalds- samar stofnanir sem standa í vegi fyrir breytingum í stað þess að vera farvegur fyrir þær eins og þeir ættu að vera í lýð- ræðislegu samfélagi? Í Morgunblaðinu í fyrradag sagði Baldur Arnarson blaðamaður frá baráttu- samtökum sem orðið hafa til á Írlandi og nefnast „We the Citizens“ eða Við borg- ararnir. Markmið þeirra er að „ræða leiðir að nýjum samfélagssáttum og umbótum á stjórnkerfinu“. Sú mynd, sem dregin var upp hér að framan af stöðunni á hinum pólitíska vettvangi á Íslandi, er vísbending um að stjórnmálaflokkarnir svara ekki kalli al- mennings um breytingar, sem hefur hljómað af mismiklum styrkleika frá hausti 2008. Og Alþingi endurspeglar ekki þjóðarviljann með viðunandi hætti. Þingið sjálft hefur hafnað því að efna til kosninga. Hvað gerir fólk þá sem er orðið óþreyjufullt eftir breytingum? Þetta sama fólk og fann til máttar síns í þjóðar- atkvæðagreiðslunni sem fram fór fyrir viku. Kannski tekur fólk þessari stöðnun með þegjandi þögn og lætur hana yfir sig ganga. Á tímum nýrra samskiptahátta er það þó fremur ólíklegt. Grasrótin í sam- félaginu er mjög virk eins og í ljós kom í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave III. Á skömmum tíma urðu til hópar á báða vegu sem tóku baráttuna upp á sína arma. Hið sama getur gerzt nú. Fyrir tveimur árum var kominn tími á breytingar sem voru knúnar fram með götumótmælum. Nú er aftur kominn tími á breytingar fyrst og fremst vegna þess að núverandi stjórnarflokkar sem hafa tekizt á við vandamálin í kjölfar hrunsins hafa reynzt ófærir um að móta stefnuna fram á veg, og líka vegna þess að það er að skap- ast alvarleg neyð á Íslandi. Og úr því að flokkarnir eru að dæma sig úr leik er ekki um annað að ræða en að fólkið í landinu taki málin í sínar hendur eins og það gerði í þjóðaratkvæðagreiðsl- unni fyrir viku. Fyrsta skrefið í þá átt gæti verið að hér yrði til hreyfing á borð við þá, sem er að verða til á Írlandi – Við borgararnir, sem hafi það fyrst að markmiði að skapa vett- vang fyrir umræður um breytingar á sam- félaginu þar sem teflt er saman ólíkum sjónarmiðum úr ýmsum áttum. Svo leiðir eitt af öðru. Við lifum á áhugaverðum tímum! Við borgararnir … Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@mbl.is A ð kvöldi 16. apríl 1960 hélt bandaríski rokk- tónlistarmaðurinn Eddie Cochran síðustu tónleikana í Bretlandstúr sínum í Hippo- drome-leikhúsinu í Bristol. Að því búnu stökk hann rakleiðis upp í leigubíl sem flytja átti hann og föruneyti hans til Lundúna, þaðan sem Cochran hugðist fljúga heim til Bandaríkjanna og verja pásk- unum í faðmi sinna nánustu. Það fór á annan veg. Laust fyrir miðnætti missti leigubílstjórinn stjórn á bílnum, sennilega vegna sprungins hjólbarða, og skall á ljósastaur í litlum bæ, Chippenham. Bílstjórinn og far- þegarnir þrír slösuðust allir. Söngvarinn Gene Vincent hlaut nokkur brotin rifbein, viðbein og áverka á fæti og ástkona Cochrans, lagahöfundurinn Sharon Sheeley, mjaðmagrindarbrotnaði. Alvarlegustu áverkana hlaut þó Cochran sjálfur, á höfði, en hann kastaðist út úr bíln- um. Hann var fluttur í ofboði á spítala í Bath en ekki tókst að bjarga lífi hans. Eddie Cochran lést á þessum degi fyrir 51 ári, hann var 21 árs að aldri. Flogið var með jarðneskar leifar Cochrans heim til Bandaríkjanna, þar sem hann var lagður til hinstu hvílu í Cypress, Kaliforníu, 25. apríl 1960. Cochran var rokkelskum harmdauði. Þrátt fyrir ung- an aldur hafði hann skipað sér í framvarðarsveit rokks- ins með lögum á borð við „Summertime Blues“, „C’mon Everybody“ og Somethin’ Else“, ekki síst í Bretlandi. Hann var álitinn eiga bjarta framtíð fyrir höndum. Raunar jukust vinsældir Cochrans við andlátið en fjöldi laga var gefinn út eftir dauða hans, meðal annars „Three Stars“ sem Cochran tileinkaði vinum sínum The Big Bopper, Ritchie Valens og Buddy Holly, sem látist höfðu í flugslysi rúmu ári áður. Árið 1988 var „C’mon Everybody“ endurútgefið í Bretlandi og komst alla leið í fjórtánda sæti vinsældalist- ans, 28 árum eftir fráfall söngvarans. Meðan hann lifði var Cochran stundum gagnrýndur fyrir að herma eftir söngstíl kóngsins, Elvis Presley, en hann hafði margt fleira til brunns að bera, var framsæk- inn gítarleikari og spilaði einnig á trommur og bassa, ef þannig lá á honum. Cochran þótti með líflegustu mönn- um á sviði og lagði þar línurnar fyrir næstu kynslóðir. Áhrif Cochrans á rokksöguna eru óumdeild. Lista- menn á borð við Bítlana, The Who, Rolling Stones og Jimi Hendrix tóku lög hans upp á sína arma og síðar Van Halen, Sex Pistols og Motörhead. Hermt er að Paul McCartney hafi á sínum tíma fengið inngöngu í sveit Johns Lennons, The Quarrymen, vegna þess að hann kunni að syngja og leika lag Cochrans, „Twenty Flight Rock“. Pete Townshend úr The Who hefur lýst því yfir að gítarleikur Cochrans hafi haft djúpstæð áhrif á sig. Sömu sögu má segja um George Harrison sem elti Coc- hran milli tónleikastaða í Bretlandi árið 1960. Annar aðdáandi sem hitti Cochran á tónleikaferðinni 1960 var Marc nokkur Bolan, þá tólf ára, sem fékk meðal annars að bera gítarinn hans út í bíl fyrir ferðina ör- lagaríku. Bolan varð síðar forsprakki T. Rex og hlaut á endanum sömu örlög og átrúnaðargoðið, lést í bílslysi skömmu fyrir þrítugsafmæli sitt árið 1977. Leigubílstjórinn þetta örlagaríka kvöld 1960, George Martin, var dæmdur fyrir ógætilegan akstur, sat inni í sex mánuði og var sviptur ökuréttindum í fimmtán ár. Gene Vincent átti um sárt að binda eftir slysið. Hann gekk haltur upp frá því og hallaði sér í auknum mæli að flöskunni. Vincent lést af völdum magasárs árið 1971, aðeins 36 ára að aldri. Hans er helst minnst fyrir of- ursmellinn „Be-Bop-A-Lula“ sem kom út árið 1956. Sharon Sheeley starfaði um tíma áfram við lagasmíðar í Bandaríkjunum, meðal annars ásamt Jackie De- Shannon, áður en hún dró sig í hlé frá tónlistinni. Shee- ley andaðist árið 2002, 62 ára að aldri. Banamein hennar var heilablæðing. orri@mbl.is Cochran týnir lífi í bílslysi Cochran og Gene Vincent sem var með honum í bílnum. ’ Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann skipað sér í framvarð- arsveit rokksins. Eddie Cochran var rokkelskum sannarlega harmdauði. Á þessum degi 17. apríl 1960

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.