SunnudagsMogginn

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

SunnudagsMogginn - 28.08.2011, Qupperneq 18

SunnudagsMogginn - 28.08.2011, Qupperneq 18
18 28. ágúst 2011 Honum sveið alltaf hvað mikið var rifið af húsum í Bol- ungavík. Allt var rifið sem var gamalt. Bolungavík er það ungur bær og á ekki kaupstaðasögu eins og til dæmis Flateyri, Þingeyri og Ísafjörður og þennan danska arki- tektúr, sem þar er. Mönnum fannst þetta vera kofar og ég held að fólk hafi fyrirvarið sig fyrir þá.“ „Það er talað um að ísfirskar fjölskyldur hafi farið í sunnudagsbíltúra til Bolungavíkur til að sýna börnunum fínu húsin þar,“ segir Dillý. „Þar var uppgangurinn það mikill að húsin voru stærri. Í því samhengi var þetta hús lítið og ljótt.“ „Bolungavík byggist fyrst og fremst upp sem verstöð,“ segir Pálmi. „Þaðan er styst að fara á gjöful mið. Þegar ég var að alast upp var maður alveg frá níu ára aldri iðulega sendur úr skólanum til að bjarga verðmætum, í upp- skipun, útskipun og fiskverkun. Í þá tíð var maður með alla vasa fulla af peningum, það rauk úr öllum verk- smiðjum og vinna allan sólarhringinn.“ Verbúðabyggðin var við sjóinn og þegar taka þurfti á móti meiri fiski og ný tækni kom til skjalanna vék hún fyrir stórum fiskvinnsluhúsum, sem nú standa auð. „Pabba ofbauð að þetta skyldi allt vera rifið,“ segir Pálmi. „Hann var þá búinn að ættleiða annað minna hús fyrir neðan og semur um að fá að taka þetta hús í fóstur. Hann var húsasmíðameistari og ætlaði að nota litla húsið sem vinnustofu og verkfærageymslu, en sá að það yrði fínt íbúðarhús.“ Húsið, sem Gestur vildi bjarga frá niðurrifi, fékk því hlutverk vinnustofunnar og hann byrjaði að vinna í því, en hann var kominn á efri ár og fannst verkefnið heldur viðamikið. „Ég hafði alltaf haft augastað á þessu húsi, meira ómeðvitað,“ segir Pálmi. „Þú varst alltaf að tala um þetta hús og sýna mér hús- ið,“ bætir Dillý við. „Síðan einn daginn gefur hann okkur húsið.“ „1957 fæddist ég í þessu húsi,“ segir Pálmi. „Hann gef- ur mér húsið 2004 og systkinum mínum fannst það eig- inlega bjarnargreiði.“ Fyrsta árið gerðist lítið. Þegar hjónin komu til Bol- ungavíkur gistu þau í litla húsinu og horfðu á „þennan hjall“. Pálmi gerði sér enga grein fyrir því hvað hann ætl- aði að gera við húsið. Vann sextán tíma á dag „Svo gerist það í ágúst 2005 að ég kem vestur til að vera við skírn elsta barnabarnsins míns og ætlaði að vera nokkra daga,“ segir Pálmi. „Þá stóðu stjörnurnar þannig að ég ákvað að skoða hvernig ástandið væri á húsinu. Ég fór með haka, skóflu og kúbein, gáði undir plötur og glugga og gróf niður í skólpið, sem reyndist stíflað. Ein- hvern veginn þróuðust mál þannig að ég var þarna í mánuð og vann sextán tíma á dag. Ég hafði hugsað mér að þetta gæti verið gæluverkefni næstu fimmtán árin, en fór gjörsamlega fram úr mér.“ Þegar úr varð að húsið skyldi gert upp dugði ekkert hálfkák, allt skyldi verða sem upprunalegast. „Ég held að smiðurinn í þér hafi verið þar að verki,“ segir Dillý og bætir við að hann hafi strax farið að velta fyrir sér hvernig frágangurinn á húsinu hafi verið upp- runalega. Hann hafi fundið gamlar myndir af mömmu sinni við húsið og fleira og ákveðið að hann vildi gera húsið upprunalegt að utan. „Mér fannst ekki hægt að gera húsið upp nema vera trúr því eins og það var,“ segir Pálmi. Upphaflega var Pálmi með hugann við húsið að utan. Þegar huga átti að innviðunum kom Dillý til skjalanna. „Ég lá á mörgum gömlum munum,“ segir hún, „og hefði kannski átt að vera uppi á sautjándu öld. Ég var með heila búslóð, sem ég hafði dregið á eftir mér í áratugi, líf mitt síðan ég var barn og unglingur geymt í pappakössum. Ég er safnari og finn að það er líka í krökkunum mínum. Ég er alin upp í að geyma og það á sér sínar skýringar. Missti mömmu sína í flugslysi Mamma mín, María Jónsdóttir, var einstæð móðir. Hún bjó með mig hjá foreldrum sínum, Sigurlaugu Guð- mundsdóttur og Jóni Vigfússyni, í blokkinni á Hring- braut 47, var með herbergi uppi á lofti og vann sem flug- freyja. Foreldrar hennar pössuðu mig þegar hún var að fljúga. Hún á mig 1959. Árið 1963 deyr hún í flugslysi. Hún var kölluð út í næturstopp í Kaupmannahöfn og vél- in fórst á heimleiðinni í aðflugi að Fornebu-flugvelli í Ósló á páskadagsmorgni.“ Slysið var ekki bara áfall fyrir fjölskyldu Dillýjar, held- ur var öll þjóðin í losti. Afi og amma Dillýjar brugðust við með því stofna sjóð til minningar um dóttur sína, Mar- íusjóð, og eru árlega veittir styrkir úr honum til flug- freyja og -þjóna vegna veikinda þeirra eða barna þeirra. Dillý situr í stjórn sjóðsins. Þau varðveittu einnig allt, sem tengdist dóttur þeirra. „Allt var geymt, allt,“ segir Dillý. „Síðasti sígar- ettupakkinn, sem hún reykti úr, er hér uppi í skáp, miði, sem hún hafði skrifað fyrir síðustu ferðina og á stóð: „Pabbi viltu vekja mig klukkan sjö.“ Föt, snyrtivörur, allt. Þetta átti ég allt og þegar ég hafði vit til fór ég að fara í gegnum dótið hennar, fannst það spennandi og var auðvitað meðvitað og ómeðvitað að leita að konunni, sem ég kynntist aldrei og man ekki eftir í þessum mun- um.“ Dillý ólst upp hjá afa sínum og ömmu. „Tilvera mín á þessum tíma var mjög gömul því að þau umgengust bara fólk á sínum aldri,“ segir hún. „Ég lifði og hrærðist með fólki af aldamótakynslóðinni. Afi dó þegar ég var í menntaskóla, amma 1991 þegar ég var flutt að heiman, og allt í einu voru allir í kringum mig horfnir. En ég geymdi mjög mikið af æskuheimili mínu og hafði haft það í eftirdragi í pappakössum í svona 15 ár þegar ég kynntist Pálma.“ Dillý hafði reynt að finna þessum gömlu húsgögnum og dóti stað á heimili þeirra í Reykjavík í bland við nýrri innanstokksmuni án þess að það gengi upp. Húsið í Bol- ungavík var því eins og himnasending. „Þarna var kom- inn staður þar sem allt dótið átti heima,“ segir Dillý. „Um leið hjálpaði mér að geta sleppt þessum munum. Það hafði verið stórt skref fyrir mig þegar ég gekk út í öskutunnu fyrir um fimm árum með ferðatöskuna henn- ar mömmu og henti henni. Eina minningin frá því að mamma var á lífi var þegar ég skreið ofan í þessa ferða- tösku og renndi fyrir því að ég ætlaði með mömmu í næstu ferð. Húsið í Bolungavík hjálpaði mér að gera hlut- ina upp og hætta að draga fortíðina með mér.“ Við erum að halda við sögu Dillý og Pálmi fengu Jón Nordstein arkitekt, sem meðal annars átti þátt í að gera upp Húsið á Eyrarbakka og er sérfræðingur í endurbótum gamalla húsa, til að gefa sér ráð. Hann teiknaði til dæmis gluggana upp eftir gömlum myndum. „Hann kom vestur og skoðaði með okkur hús- ið,“ segir Dillý. „Pálmi benti á að laga þyrfti þetta og hitt. Þá sagði Jón: „Ef þú ætlar að breyta getur þú alveg eins byggt nýtt.““ „Maður lærði mikið af honum,“ segir Pálmi. „Við erum að halda við sögu, ekki að byggja ný hús.“ Fermingarmynd af Sigurborgu Sigurgeirsdóttur, móður Pálma, við hús fjölskyldunnar frá 1945. Myndin til hægri var tekin af Sigurborgu á sama stað þegar hún varð áttræð 7. ágúst á þessu ári. Pálmi og bræður hans sváfu í kojunni. Leikföngin eru frá öðrum tíma og á borðinu liggur lestrarkverið Gagn og gaman. Í stofunni passar allt smekklega saman, allt frá ljósinu í loftinu til sófa- settsins. Litirnir eru þeir sömu og voru á boðstólum fyrir 70 til 80 árum. Kátir félagar á þaki hænsnakofans við Hjara í kringum 1945. Ljósmynd/Pálmi Gestsson D illý og Pálmi kalla húsið Hjara. Nafnið á sína sögu. „Nú er þetta elsta húsið í Bolungavík,“ segir Pálmi. „Það stendur á landi, sem áður hét Ytri-Búðir. Ég hugsaði með mér að húsið hlyti að heita eitthvað eins og öll hús frá þessum tíma. Ég grúskaði mikið í gömlum plöggum. Húsið fyrir ofan heitir til dæmis Sólvellir, annað heitir Vinaminni.“ „Mjög mörg hús hétu líka búðir og voru kennd við konur,“ segir Dillý. „Ég skildi aldrei fyrst hvað átt var við með öllum þessum búðum, en áttaði mig svo á því að þetta voru verbúðir.“ Pálmi vissi að einhvern tímann hefði runnið lækur framhjá húsinu, sem hét Móalækur, en þá hafði nágranni, sem gerði upp hús rétt fyrir neðan orðið fyrri til og tekið það nafn. „Svo kemst ég að því að húsið er bara kennt við ábúendur hverju sinni,“ segir Pálmi. „Það hét Kalla bakarahús; þegar afi átti það var það trúlega kallað Sigurgeirshús. Ég var ekki alveg sáttur því svona fín hús eiga að heita eitthvað og kemst að því að ég verð að nefna það sjálfur. Ég er svokallaður fótungur, ættaður úr Folafæti undir Hesti í Djúpi, og fór að leita í nágrenni afa. Folafótur eða Fótur gekk þó ekki. Það næsta sem ég komst var Litli-Bær eftir ömmu, síðan kom Hvítanes, sem var næsti bær við ömmu. Þetta var að velkjast í mér og við vorum að keyra hingað eina ferðina, nýbyrjuð að gera húsið upp og Dillý enn ekki orðin sannfærð.“ „Þá hringir vinkona mín í mig,“ segir hún, þau stödd einhvers staðar í Dölunum, veðr- ið grátt og færðin léleg, „og spyr: „Hvar ert þú?“ „Æ, við erum að fara eitthvert á hjara veraldar, að gera upp einhvern hjall,“ svara ég.“ „Ég hugsaði með mér um leið: Þarna er nafnið komið,“ segir Pálmi. „Hljómmikið og sterkt.“ Svona fín hús eiga að heita eitthvað

x

SunnudagsMogginn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.