SunnudagsMogginn - 28.08.2011, Blaðsíða 29

SunnudagsMogginn - 28.08.2011, Blaðsíða 29
„Það sem hins vegar breytti öllu var að á þessum tíma fór ég í sveit að Stúfholti II í Rangárvallasýslu og kynntist þar yndislegu fólki, þeim Kjartani Ólafssyni og Halldóru Jóhannsdóttur, en þau áttu dóttur og tvo syni. Annar sonurinn, Höskuldur Hlíðar, var í mínum huga á þessum tíma hreinlega göldróttur. Hann dró hverja drusluna á fætur annarri inn í vélageymsluna og keyrði þær svo út eftir að hafa lagfært þær. Hann hafði einnig miklar mætur á Benz og það dró ekki úr áhuga mínum á þeirri bíltegund.“ En svo byrjarðu sjálfur að draga druslur inn í bílskúr og aka þeim út? „Ja, ekki beinlínis. Ég var um 15 ára þegar ég byrjaði að vinna í Vöku við að rífa gamla bíla og það var náttúrlega eins og að hella olíu á eld. Ég heillaðist algjörlega af þessum vélaheimi. Þetta var árið 1987, þegar stjórnvöld höfðu lækkað tolla á bílum og allt í einu var hægt að fá ódýra fólksbíla á Íslandi. Af- leiðingin var sú að gamlir bílar en vel ökuhæfir flæddu hreinlega inn í Vökuportið. Eigendurnir keyrðu þá jafnvel sjálfir og skildu þá eftir. Það var sorglegt hvað það var miklu hent af veglegum bílum á þessum tíma vegna minniháttar vandkvæða.“ Bjarni segist vorkenna foreldrum sínum nú en þeir hafi verið afar skilningsríkir þegar hann hafi verið að draga druslur heim á þessum tíma, leggja þeim í inn- keyrslunni, taka í sundur og bara rífa og tæta. „Þau voru ótrúlega þolinmóð,“ segir hann og hlær. Að loknu bílprófinu eignaðist Bjarni röð af misgóðum bíl- um. ,,Þetta voru allt meira og minna druslur, enda kostuðu þær lítið sem ekki neitt“ – og telur upp nokkra eins og hann sé að tala um sælgætisstykki: Ford station, gamla Cressidu, Skoda, Suzuki Alto en svo eignaðist hann loksins Benz á góðu verði. „Þá varð ekki aftur snúið. Reyndar sofnaði þessi bíladella um tíma þegar ég var komin með fjölskyldu en árið 2004-5 þá blossar hún upp aftur þegar ég eignast ný- legan og mjög góðan Benz jeppa.“ Enn á ný ástfanginn – af Benz „Ég var í gírnum árið 2007 eins og svo margir aðrir,“ segir Bjarni og glottir. „Það ár keypti ég Mercedes Benz S280, árgerð 9́7 en þá leit enginn við svona gömlum bílum, það var bara hallærislegt. Ég fann þennan græna dreka á bílasölu og í fyrstu fór liturinn hrikalega í taugarnar á mér en nú hef ég lært að elska hann. Það kom í ljós að þetta hafði verið sendiráðsbíll Íslands í Belgíu og það voru NATO pappírar í hanska- hólfinu. Ég fékk bílinn raunar á hlægilegu verði miðað við hvers konar gullmoli þetta reyndist vera. Vissulega var hann dauður á bílastæðinu og það var grýlukerti hangandi niður úr baksýnisspeglinum en hann hafði alla tíð fengið gríðarlega gott viðhald og var mjög vel búinn. Sem dæmi þá var tvöfalt gler staðalútbúnaður í þessum bílum. Þegar ég hafði þrifið hann og aðeins klappað honum var hann æðislegur – og tilvalinn fjölskyldubíll. Þrátt fyrir að vera þessi dreki er hann með fremur litla vél svo að hann er frekar eyðslugrannur. Þessi bíll er búin að reynast mér best allra bíla sem ég hef keypt og ég tími ekki að selja hann þótt ég hafi ekki lengur not fyrir hann. Nýir svona bílar kosta um 20 milljónir en ég fengi aldrei nema 1,5 milljónir á góðum degi fyrir minn. Það skyggði svolítið á feril þessarar gerðar að Díana prinsessa lést í svona bíl og vildu margir í fyrstu kenna bílnum um en seinna kom í ljós að bílbelti voru ekki notuð og bílnum var ekið mjög hratt. Þessi Benz blómstrar bara og ég lána mömmu og pabba hann á sumrin í ferðalög svo hann sé hreyfður. Bjarni er í vandræðum með bílastæði fyrir alla bílana sína því hann á enn einn Benz í viðbót sem hann er líka tilfinningalega tengdur og getur ekki selt. „Já, þetta er frekar dýrt áhugamál en hrikalega skemmti- legt. Vorið 2010 langaði mig að fara á hálendið, bara ég og sex ára dóttir mín, gamall jeppi og tjald. Og hvaða bíll heldurðu að hafi verið betur til þess búinn en Benz?“ segir hann og skellir upp úr. „Ég keypti mér sem sagt Mercedes Benz 230GE á nokkur hundruð þúsund. Eftir að hafa þvælst um há- lendið og Vestfirðina þá varð ég gjörsamlega ástfang- inn af bílnum enda því verri sem vegurinn varð því betri varð bíllinn. Ég gat ekki hugsað mér að selja hann aftur heldur fór að gera hann upp. Ég byrjaði á að skipta um vél, því gallinn við hann var að hann var með 4ra strokka bensínvél, sem dreif stundum varla áfram þar sem hún var ekki nógu aflmikil, svo hann mokeyddi. Hann eyddi 16-17 lítrum á hundraðið í langkeyrslu og 22 l innanbæjar. Ég fór því að líta í kringum mig eftir hentugri vél en þessir jeppar eru þannig úr garði gerðir að þeir geta notað mikið af vél- búnaðinum úr fólksbifreiðunum. Um haustið fann ég ágæta díselvél og setti hana í og svo er ég búin að ryð- bæta helminginn af honum og klappa aðeins fyrir sumarið.“ Ekkert mál að velja úr bílum Bjarni segist hafa ætlað að gera smávegis við hann en vinnuveitandinn hafi mátt þola að hafa bílinn í þrjár vikur inni á verkstæðinu. „Ég skipti þá um það sem var ryðgað í honum vinstra megin, bretti, sílsa og fleira sem var meiri háttar aðgerð. Ég vissi að ef ég tæki hægri hliðina í sömu lotu myndi þolinmæðina sennilega þrjóta svo ég ætla að bíða aðeins með hana,“ segir hann hlæjandi og ítrekar að jeppinn sé bara frá- bært tæki til þess að keyra um óbyggðir landsins. „Hönnun þessa jeppa hófst 1972 og var samstarfs- verkefni MB og Steyr-Puch í Austurríki og var hann fyrst og fremst hugsaður sem var óviðjafnanlegt hertól með mikla drifgetu og hafa þessir jeppar t.d. slaglanga gormafjöðrun framan og aftan og handvirkar 100% driflæsingar á báðum öxlum sem er fáheyrt á bílum á þeim tíma og er enn í dag sjaldséður búnaður í verk- smiðjuframleiddum bílum.“ Bjarni segir að það væri ekki hægt að stunda áhuga- mál eins og að gera upp gamla bíla ef ekki væri fyrir Fornbílaklúbb Íslands og baráttu þeirra fyrir fjölmörg- um hagsmunamálum eins og lækkun trygginga af bíl- um 25 ára og eldri, niðurfellingu á bifreiðagjöldum og mörgu öðru sem hjálpar mikið ,,Fornbílaklúbbur Ís- lands hefur gert þetta kleift og á heiður skilið.“ En nú áttu fjölskyldu af Mercedes-Benz bílum, hvað bíl velurðu á morgnana? „Mér þykir skemmtilegast að vera á jeppanum, ég tími að láta rigna á hann. Á blíð- viðrisdögum vel ég blæjubílinn, hann er eins og prins- essa. En ef ég þarf að keyra marga þá vel ég drekann.“ Það er algjör óþarfi að spyrja Bjarna Þor- gilsson hver sé besti bíllinn. Svarið er aug- ljóst. Benz. Mercedes-Benz. ’ Ég var um 15 ára þegar ég byrj- aði að vinna í Vöku við að rífa gamla bíla og það var nátt- úrlega eins og að hella olíu á eld. Ég heillaðist algjörlega af þessum véla- heimi. Þetta var árið 1987, þegar stjórnvöld höfðu lækkað tolla á bílum og allt í einu var hægt að fá ódýra fólksbíla á Íslandi.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.