Fréttablaðið - 10.12.2011, Blaðsíða 30
10. desember 2011 LAUGARDAGUR30
K
lukkan er að nálgast níu á kol-
dimmum desembermorgni
þegar blaðamaður bankar upp á
á heimili Daníels Bjarnasonar.
Hann kemur til dyranna með
eins árs son sinn í fanginu,
Ríkharð. Sambýliskona hans, Elísabet Alma
Svendsen, heilsar glaðlega og sýpur á svörtu
kaffi. Svo hverfa þau mæðgin út í daginn. Fjöl-
skyldan er nýflutt í fallega íbúð í Hlíðunum,
þar sem er hátt til lofts, vítt til veggja og gull-
fallegir gluggar hleypa þeirri litlu birtu sem
úti er, aðallega frá ljósastaur úti á götu, inn á
gólf. Þarna eiga margvísleg tónverk eftir að
verða til, ef Daníel heldur áfram á sömu braut.
„Þetta er bara nútíminn held ég,“ svarar
Daníel, þeirri spurningu hvernig hann fari að
því að teygja sig inn á svo breitt svið tónlistar
eins og hann hefur hingað til gert. Hann er
hljómsveitarstjóri og tónskáld að mennt og
hefur meðal annars nokkrum sinnum stjórnað
Sinfóníuhljómsveit Íslands og frumflutt með
þeim eigin verk, við góðar undirtektir. En
hann semur líka tónlist fyrir kvikmyndir,
kemur fram á Airwaves og vinnur náið með
mörgum af fremstu tónlistarmönnum þjóðar-
innar úr ólíkum áttum. „Ég er klassískt
menntaður og hef unnið með mörgum úr
klassíska heiminum hér heima. En ég hef líka
verið í miklu sambandi við fólk sem er ekki
í klassískri músík, heldur raftónlist, djassi
eða rokki. Auðvitað eru einhver skil á milli
þessara heima, en það er greiður aðgangur á
milli þeirra hér á landi. Mér finnst ég ekki
þurfa að setja mig í sérstakar stellingar til að
vinna með fólki utan klassíska geirans. Þetta
hefur alltaf verið mjög eðlilegt.“
Í listaleikskóla í Bandaríkjunum
Daníel er Reykvíkingur í grunninn, en fæddur
í Danmörku og alinn upp að hluta í Wisconsin í
Bandaríkjunum, þar sem foreldrar hans voru
í námi. Þar var hann á listabarnaheimili, sem
átti eftir að hafa talsverð áhrif á hann. „Ég
var fjögurra ára þegar ég byrjaði þarna. Það
var mikil áhersla lögð á leiklist, tónlist, dans
og aðrar listir. Það hefur örugglega örvað það
sem var til staðar hjá mér, einhverja listræna
þörf. Ég á margar góðar minningar þaðan.“
Þegar hann flutti aftur heim til Íslands,
sex ára gamall, var hann ekki bara búinn að
virkja í sér listrænu hliðarnar, heldur líka
búinn að læra að lesa og skrifa. Hann var því
settur beint í sjö ára bekk. Seinna meir, þegar
Daníel var búinn að ganga grunnskólaveginn
hér, flutti fjölskyldan aftur til Danmerkur.
Þar fór Daníel í menntaskóla og þar sem
hann tekur ekki nema þrjú ár í Danmörku var
Daníel orðinn stúdent átján ára. „Ég byrjaði
sjö ára gamall að spila á píanó, en ég hætti
nokkrum árum seinna, var bara að einbeita
mér að fótbolta, handbolta og einhverju allt
öðru en tónlistinni. Það var þess vegna mjög
heppilegt að græða þarna tvö ár til að vinna
upp það sem ég hafði misst úr.“
Vildi semja sjálfur
Í Kaupmannahöfn hellti Daníel sér aftur út
í píanóleikinn, byrjaði að skrifa tónlist og
vinna með öðrum tónlistarmönnum. Þegar
hann flutti aftur til Íslands hóf hann nám nám
í píanóleik við tónlistarskóla F.Í.H. og síðan
tónsmíðum við Tónlistarskólann í Reykjavík.
Þaðan útskrifaðist hann með gráðu í hljóm-
sveitarstjórnun og tónfræði. „Mér fannst
þetta fara mjög vel saman við tónsmíðarnar.
Ég ákvað, þegar ég var búinn með allt þetta,
að fara í framhaldsnám í hljómsveitastjórnun,
frekar en í tónsmíðum.”
Þá flutti hann til Freiburg í Þýskalandi og
hóf nám í tónlistarháskólanum þar í borg.
„Þar var ég í hálfgerðum felum með tónsmíð-
arnar og hélt mig alfarið við stjórnunina. En
ég fann að það var ekki rétt fyrir mig og eftir
námið þurfti ég að finna þetta jafnvægi sem
hentaði mér; að vinna sem stjórnandi, en jafn-
framt að vinna í mínu eigin efni og í samstarfi
við aðra ólíka listamenn.”
Ævintýrið um Sólaris
Í nóvember síðastliðnum kom út platan
Sólaris, sem Daníel vann í samstarfi við Ben
Frost. Hún hefur fengið góða dóma, meðal
annars 8 af 10 stjörnum á tónlistarsíðunni
Drowned in Sound. Fyrsta upplag hennar
seldist upp á einum mánuði.
Á plötunni er tónverk þeirra Daníels og
Ben, sem er skrifað fyrir Krakársinfóníettuna
og gerir ráð fyrir þrjátíu strengja- og ásláttar-
leikurum, gítörum, rafhljóðfærum og breyttu
píanói.
Verkið unnu þeir út frá kvikmynd
Tarkovsky, Sólaris, frá árinu 1972. Það var
flutt á Listahátíð í Reykjavík í sumar, af þeim
Daníel, Ben, Krakárs infóníettunni
og tveimur íslenskum slagverks-
leikurum. Áður hafði hópurinn
flutt verkið í Póllandi, Austurríki
og í New York.
Viðburðaríkt ár að baki
Daníel hefur vægast sagt átt ann-
ríkt á þesu ári. Hann hóf það með
því að stjórna Sinfóníuhljómsveit
Íslands á Myrkum músíkdögum,
þar sem frumflutt var verkið
Birting eftir hann. Hann kom líka
fram á opnunartónleikum Hörpu
þar sem tvö verk eftir hann voru
flutt, Fanfare og Millispil. Þá
vann hann með dönsku hljóm-
sveitinni Efterklang, samdi tón-
list við dansverk og stuttmynd og
stjórnað uppsetningu óperunnar
á Töfraflautunni. Þá eru smærri
verkefni ótalin.
Daníel er á mála hjá útgáfufyrir-
tækinu Bedroom Community, sem
hefur þá sérstöðu að afmarka sig
ekki innan ákveðinna tónlistar-
stefna. Það var á vegum þeirra útgáfu sem
fyrsta plata Daníels, Processions, kom út
í fyrra. „Þessi plata skipti öllu máli fyrir
mig, það hefur margt komið út úr henni. Þó
að þetta sé klassísk plata fékk hún mikla
umfjöllun hjá miðlum sem fjalla að jafnaði
ekki um klassíska tónlist.”
Ég hef verið heppinn
Um þessar mundir er Daníel að klára þrjár
stórar pantanir á tónverkum, sem allar fara
út í heim. Eitt þeirra er fyrir stóra ungmenna-
hljómsveit í Bandaríkjunum, American Youth
Symphony, og Los Angeles Children‘s Chorus,
sem er hundrað barna kór. Verkið verður flutt
í Walt Disney Hall í Los Angeles í mars. „Það
er að vissu leyti nýr kafli að hefjast hjá mér
núna, því ég mun ekki að frumflytja þessi
verk sjálfur, sem ég er með í smíðum núna.
Ég hef alltaf frumflutt verkin mín sjálfur, svo
það verður sérstakt að sitja úti í sal og fylgjast
með. En það er James Conlon, aðalstjórnandi
óperunnar í Los Angeles, sem
stjórnar tónleikunum í mars og
hann er rosalega góður. Svo ég
hef ekki nokkrar áhyggjur af því.“
Því fer fjarri að þar með sé dag-
skrá ársins 2012 upp talin. Daníel
mun ferðast áfram með Sólaris
og hefur hópurinn meðal annars
fengið boð um að koma fram á tón-
leikum í Búdapest og Sao Paolo og
flytja verkið. Á árinu mun hann
líka fara til Winnipeg, þar sem
tvö verk eftir hann verða flutt.
Eitt af stóru verkefnunum sem
er fram undan er svo stjórnun á
La Bohème, sem Íslenska óperan
frumsýnir í mars í Hörpunni.
Þá er hann bæði að semja tónlist
fyrir kvikmyndina Djúpið, ásamt
Ben Frost, og að vinna með hljóm-
sveitinni SigurRós í nýrri plötu
sem margir bíða spenntir eftir.
Þrátt fyrir að eiga annríkt
reynir Daníel að skipuleggja
framtíðina ekki í þaula sjálfur.
Það gerist einhvern veginn af
sjálfu sér hvort sem er. „Ég reyni að skipu-
leggja mig þannig að ég eigi mér eitthvert líf,
fyrir utan tónlistina. En svo koma verkefni
upp, sem er gríðarlega erfitt að segja nei við,
og ég enda með að bæta þeim ofan á allt hitt.
Með þessu móti er maður ekki lengi að fylla
dagskrána fyrir árið. En ég get ekki kvartað
því ég hef verið mjög heppinn með verkefni og
samstarfsfólk þó að vinnudagurinn sé stund-
um langur. Og auðvitað er það mikið lán að
fá að starfa við það sem maður gerir best og
elskar að gera. En því fylgir líka sú ábyrgð að
maður verður að vanda sig og gera eins vel og
maður getur.”
Ég reyni að
skipuleggja
mig þannig
að ég eigi
mér eitthvert
líf, fyrir utan
tónlistina.
Flakkar á milli tónlistarheima
Tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Daníel Bjarnason ólst að hluta til upp í Bandaríkjunum, gekk í menntaskóla í Danmörku
og háskóla í Þýskalandi. Enn ferðast hann vítt og breitt um heiminn, en nýtur þess að búa og starfa á Íslandi, eins og hann sagði
Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur frá. Ekki síst vegna þess hversu þægilegt er að fljóta á milli ólíkra heima í íslensku tónlistarlífi.
NÝR KAFLI AÐ HEFJAST Daníel Bjarnason tónskáld vinnur nú að nýju verki fyrir stóra ungmennahljómsveit í Bandaríkjunum, American Youth Syphony, og Los Angeles Children‘s Chorus, sem er hundrað barna kór. Verkið
verður flutt í óperunni í Los Angeles í mars. Daníel mun ekki stjórna flutningi verksins sjálfur, heldur vera viðstaddur sem áhorfandi. Hingað til hefur hann alltaf stjórnað frumflutningi verka sinna sjálfur.
FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI