Teningur - 01.05.1990, Page 6

Teningur - 01.05.1990, Page 6
4/SKÁLDSKAPUR JÓN KARL HELGASON FRÍMERKI Eilítið um frásagnagerð Einu sinni reyndi ég að skrifa sögu, og viðtökufræði átakanlega sorgarsögu (mér hlýtur að hafa liðið eitthvað illa). Ef ég man rétt, átti feitlaginn giftur maður að koma með blauta regnhlíf inn í gult pósthús sem stóð við aðalgötu lítils þorps úti á landi - einhverju landi. Hann var utanbæjarmaður og ekki vel heima í mállýsku innfæddra. Pegar hann ávarpaði ungu ljóshærðu stúlkuna bakvið glerið vildi ég að hann notaði orð sem hann teldi ósköp vingjarnlegt, en hefði þó djúpstæðari merkingu meðal heimamanna. Það skiptir ekki meginmáli um hvaða orð var að ræða, en við getum gert ráð fyrir að hann segði „elskan mín“ og meinti „vina mín“. Það var allt og sumt. Vitanlega eru einhverjir viðstaddir þegar þetta gerist; kannski gömul kona með frímerki á tungunni og póstmeistarinn, sem spennir greipar og snýr þumlum í hringi. Á auga- bragði ímynda - því hvað er þetta annað en glórulaus ímyndun - þessi vitni sér hvert smáatriði í forboðnu sambandi mannsins og stúlkunnar. Ég ætla ekki að þreyta þig með þessum smáatriðum, þú sérð í hendi þér hvernig gamla konan og póst- meistarinn afklæða feita manninn í huganum (hann er loðinn á öxlum), stúlkan er sofandi, lakið rennandi. En mig langaði líka til að skoða hvernig þetta eina orð - þessi örlitli blæbrigðamunur sem mælandanum var alla tíð ókunnugt um - ýtti af stað raunverulegri atburðakeðju í litla þorpinu, fól í sér nýja harmsögu sem þú hefur þegar á valdi þínu og ert jafnvel enn að spinna áfram, stig af stigi. Spurningin er hvort þú látir nægja að lýsa skilnaði gifta mannsins eða drekkir stúlkunni af óverðskuld- aðri skömm í regnbogalitri höfninni. Þegar ég byrjaði að skrifa, dvaldist mér við senuna í pósthúsinu. En ég uppgötvaði von bráðar að ég mátti alls ekki ljóstra upp hvaða orð mað- urinn notaði þegar hann ávarpaði stúlkuna; það var ósegjanlegt. Ég var sannfærður um að lesandinn hefði enga þörf fyrir mig eftir að hann vissi þetta lykilorð. Ég fór í kringum það (eins og köttur), hélt því leyndu fram yfir sögulok og enginn vissi um hvað sagan mín var.

x

Teningur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Teningur
https://timarit.is/publication/820

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.