Birtingur - 01.01.1955, Qupperneq 28
SIGFÚS DAÐASON:
ÞRJÚ LJÓÐ
BEKNSKA
Sendiferðabílstjóri sem stóð hjá bílnum sínum einhversstaðar ekki langt frá
Piccadiliy Circus vék sér að inér og spurði mig til vegar þar í grenndinni. Því miður
ég er ókunnugur hér . . . ég man ekki lengur nákvæmlega hvar þetta var en mér
varð skyndilega ljóst að gatan var að öðru leyti auð þó undarlegt mætti virðast.
Ég mundi ekki hvernig á því stóð að ég var staddur í dalnum, á innsta bænum . . .
undir bröttum fjöllum, og vegurinn suður lá um túnið . . . né hvenær það var,
stríðið hefur þó líklega verið byrjað. Ég átti þar ævilangt kvöld og horfði á hina
frægu vegavinnumenn, nánar tiltekið ungan mann og konu sem komu hjólandi
með kornungt barn sitt utan frá tjöldunum og þáðu kaffi . . . ég hugsaði með mér
að barnið væri mjög brothætt, en það svaf. Mér var vísað til sængur í lítilli stofu
þar sem var bókaskápur með glerhurð, og þau ætluðu suður morguninn eftir. Þá
var lika haust.
GUÐRÆKNISTUND í PÍSA
Hérna megin við Písa streittust arðuruxarnir um akrana í sólarhitanum. Það
var mikil hvíld og ógleymanleg náð að staldra við í túngrænkunni og ganga síðan
í svala kirkjuna. Nokkrir illa rakaðir prestar sungu messu. Ég minntist þess að ég
hafði ekki farið til kirkju í tíu ár. Þeir brenndu reykelsi og ekki veit ég hvað
kom að mér eða hvort augun brugðust mér, nema ég gat ekki betur séð en að einn
prestanna væri ekki sem alvarlegastur í bragði við þá athöfn. En ég stóð fram
undir miðri kirkju upp við eina súluna. Hópur ferðamanna, flestir vopnaðir full-
komnustu myndavélum, hafði tekið sér stöðu fyrir framan kórinn; þeir fylgdust
með athöfninni af áfergju trúðleiksáhorfenda. Við máttum ekki vera að bíða eftir
prósessíunni því vagninn hélt áfram klukkan tíu mínútur fyrir fjögur. Ó forláta-
rammi hrunins heims, ó brostnu bönd, ó miskunnarlausi tími!
Einnig sú stund kom: þú varst á gangi í borg þar sem enginn þekkti þig, staðnæmdist
á torginu fyrir framan hátíðarlýsta kirkjuna sem er eldri en borgin, hallaðir þér
upp að skál gosbrunnsins. Þér bar í grun annarlega hluti; var það gutlandi vatns-
niðurinn, kirkjan sem ber vitni um að mennimir eru stærri en þeir sýnast, voru
það hinir hispurslausu kumbaldar reistir á sprengjurústunum kringum torgið og
róandi kliður vegfarenda á fáförnum götum eftir eril hvíldardagsins? eða hvað
hafði skyndilega veitt þér örugga vissu um ágæti þess lífs sem Iifað var, einmitt
hér, þetta kvöld?
24