Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2011, Page 21
ÞÓRA BJÖRK HJARTARDÓTTIR
Orðræðuögnin er það ekki
Hali og viðbragð
i. Inngangur
Orðasambandið er það ekki er nokkuð títt í máli fólks og er notað án þess
að mælandi sé beinlínis að spyrja um eitthvað sem hann ekki veit.1 Þótt að
forminu til sé um að ræða þrjú aðskilin orð, sem setningarlega mynda
spurningu, hegða þau sér og eru túlkuð sem ein órjúfanleg heild; þau hafa
orðgervst (e. lexicalised) í eitt orð (sbr. Lindström 2008:60).2 Þetta má sjá
í dæmum (1) og (2) sem sýna tvö meginhlutverk orðasambandsins er það
ekki í samtölum:3
1 Ég þakka ritstjóra og tveimur ónafngreindum ritrýnum gagnlegar athugasemdir við
fyrri gerð þessarar greinar sem reynt hefur verið að taka mið af eftir því sem við átti.
2 Við orðgervingu afmást orðaskil og merkingin ræðst ekki lengur af samanlagðri
merkingu hvers upprunalegs orðs fyrir sig heldur fær heildin eina merkingu.
3 Dæmin sem greinin byggir á eru öll fengin úr gagnabankanum ISTAL, Islenska tal-
málsbankanum, sem inniheldur um 20 klukkustundir af sjálfsprottnum vinasamtölum
fullorðins fólks (sjá nánar um ISTAL hjá Þórunni Blöndal 2005^:108—110). Leitað var að
strengnum er það ekki í öllum gagnabankanum og þegar tekin höfðu verið frá dæmi sem
ekki voru um afmarkaða orðasambandið erþaðekki reyndist fjöldi dæma vera 128. Þau voru
síðan sundurgreind frekar eftir hlutverki. Markmiðið var ekki að gera nákvæma tíðni-
rannsókn á hinum mismunandi hlutverkum heldur reyndist nauðsynlegt að grandskoða öll
dæmin um orðasambandið er það ekki til að átta sig á raunverulegri notkun þess í samtöl-
um og af því spratt talningin.
Þátttakendur eru merktir með bókstöfum. Örvar fyrir framan línur vísa á það sem er
til umræðu hverju sinni. Orðasambandið erþað ekki sem umfjöllunin snýst um er feitletrað.
Hornklofar merkja samhliða tal þátttakenda, þ.e. þeir tala báðir í einu. Samasemmerki (=),
svokölluð negling, táknar að mælandi tekur til máls um leið og annar hefur sleppt orðinu
og engin merkjanleg þögn er á lotumótum. Ógreinileg orð eru sett innan sviga og orð sem
heyrast alls ekki eru merkt með x. Bandstrik aftan við orðhluta tákna orð sem ekki er lokið
við. Umhverfishljóð sem og líkamshljóð eru gefin til kynna með tvöföldum sviga. Stutt
þögn er sýnd með punkti innan sviga. Lengd hverrar þagnar var ekki mæld sérstaklega og
táknið því notað til að auðkenna allar þagnir, án tillits til lengdar. Öllum mannanöfnum og
sumum staðanöfnum er breytt.
Islenskt mál33 (2011), 19—51. © 2011 Islenska málfraðifélagið, Reykjavík.