Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2011, Side 32
30
Þóra Björk Hjartardóttir
(7) Orðabækur
1. D: þetta vantar (st-) sárlega inn á okkar heimili
2. C: já
3. D: orðabækur
4. C: já
5. B: -> það hlýtur að hrúgast inn núna i [ fermingu ] er það ekki
6. D:-> [ já ]
7. A:-> jú
8. D:-> ja það veit ég ekki ((kaffi hellt i bolla)) ég
9. ■+ vona að hann fái þýska orðabók ég ætla að læra
10. -* þýsku með honum i vetur
(ÍSTAL 03-620-03)
Fram hefur komið að lítið er til af orðabókum á heimili hjónanna C og D.
Framundan er ferming sonar þeirra og B telur nokkuð víst að hann fái
eitthvað af orðabókum í fermingargjöf og leitar eftir stuðningi við þá
skoðun sína (lína 5). Eiginmaður B, merktur A, virðist jafnsannfærður því
hann tekur undir orð konu sinnar (lína 7) en D er ekki eins viss eins og sjá
má af orðum hans í línum 8 til 10. Að hann jánki í línu 6 er því ekki til
merkis um samþykki heldur að hann fylgist með og skilji orð B, þ.e.
endurgjöf af hans hálfu.
Einnig mætti líta svo á að já í línu 6 sé ekki endurgjöf heldur upphaf
að nýrri lotu sem D fer óvart of snemma af stað með eða hann jafnvel grípi
vísvitandi fram í til að ná orðinu sem tekst ekki. Hann taki svo upp
þráðinn í línu 8 þegar hann kemst loks að en þar sýna upphafsorðin að
hann er ekki jafn sannfærður og B um að sonurinn fái að öllum líkindum
orðabækur í fermingargjöf. Orðið já í línu 6 væri því ekki merki um
samþykki, eins og oftast er raunin þegar það telst vera sjálfstætt framlag
með merkingarinntaki, heldur þvert á móti gæfi til kynna efasemdir eða
jafnvel andmæli en sýnt hefur verið fram á það í sænsku að svarorðið ja
með ákveðnum stígandi tóni (svokallað „curled ja“) getur haft þessa virkni
(sjá Lindström 1999:140 o.áfr.) Mælandinn B skynji það, af tónfallinu
e.t.v., og bæti því í skyndi við halanum erþað ekki til að leita eftir stuðningi
hinna viðmælenda sinna, sem og hann fær, sbr. undirtektir A í línu 7.^
Hvor heldur túlkunin er valin á þessu litla já í dæmi (7), sem endurgjöf
eða væg andmæli, er ljóst að halinn binst merkingarlega og samskiptalega því
15 Mér vitandi hafa ekki verið gerðar neinar ítarlegar rannsóknir á virkni smáorðsins
já í islensku svo ekkert skal fullyrt hvort unnt sé, eða títt, að nota já, eða afbrigðið ja, á
þennan hátt í íslensku einnig en óneitanlega gefur þetta dæmi í þessari síðari túlkun það til
kynna. Tekið skal einnig fram að ekki er fullljóst hvernig tónfalli er háttað á þessu
umrædda já í línu 6.