Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2011, Page 131
HÖSKULDUR ÞRÁINSSON
Hver er Noam Chomsky
og hvaða áhrif hefur hann haft á málvísindi?
x. Inngangur
I tilefni af hundrað ára afmæli Háskóla íslands 2011 fékk hvert hinna
fimm fræðasviða skólans að bjóða einum „öndvegisfyrirlesara“. Hug-
vísindasvið valdi að bjóða hinum þekkta bandaríska málvísindamanni og
þjóðfélagsrýni Noam Chomsky. Þann 9. september 2011 flutti hann tvo
fyrirlestra við Háskólann, annan um málfræðileg efni („The ‘Generative
Enterprise’: Its origins, goals, prospects“) og hinn um pólitísk („The two
9/lis: Their historical significance“). I þeim fyrri gerði hann grein fyrir
upphafi og eðli málfræðihugmynda sinna og horfum á því sviði. í þeim
síðari lagði hann út frá dagsetningunni 11. september og rifjaði upp að
hún ætti ekki bara við árásina á tvíburaturnana í New York 2001 heldur
einnig um það þegar Salvatore Allende, forseti Chile, var ráðinn af dögum
1973 að undirlagi bandarísku leyniþjónustunnar. Þessir tveir atburðir
hefðu þó ekki fengið hliðstæða umfjöllun í vestrænum fjölmiðlum.
I tengslum við þessa heimsókn Chomskys var skipulagt þverfaglegt
námskeið um hugmyndir hans um málvísindi, sálfræði, heimspeki, sam-
félagsmál og fleira. Námskeiðið nefndist „Chomsky: Mál, sál og samfélag“
og fyrirlesarar komu af ýmsum fræðasviðum innan Háskóla Islands, en
einnig frá Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst. Auk þess var
áðurnefnt málfræðierindi Chomskys meðal þeirra fyrirlestra sem voru flutt-
ir á námskeiðinu. Fyrirlestrarnir voru opnir öllum og yfirleitt vel sóttir.
Hugvísindastofnun stefnir að því að gefa fyrirlestrana út á næsta ári (2012).
En hver er þessi maður sem Hugvísindasvið Háskóla Islands hafði
svona mikið við og hvað er svona merkilegt við hann? Hér verður ekki
teynt að rekja allan feril hans heldur látið nægja að segja nokkur deili á
honum og gera síðan grein fyrir meginatriðum í kenningum hans um
málvísindi og þeim áhrifum sem þær hafa haft á þróun málvísinda.1
1 Það sem hér fer á eftir er að hluta til nokkuð samhljóða pistli sem ég tók saman um
Chomsky fyrir Vísindavef Háskólans og finna má á slóðinni http://www.visindavefur.is/
svar.php?id=ii8o4- Ég þakka Haraldi Bernharðssyni ritstjóra og Ástu Svavarsdóttur fyrir
athugasemdir og aðstoð við frágang.
Islenskt mál33 (2011), 129—143. © 2011 íslenska málfr&ðifélagið, Reykjavík.