Vera - 01.02.1987, Blaðsíða 34

Vera - 01.02.1987, Blaðsíða 34
EINS OG HAFIÐ Fríða Á Sigurðardóttir Útg.: Vaka-Helgafell. 1986. Hvaö er eins og hafiö? Kannski ástin, eins og segir í söngnum sem vitnað er til í sögunni: „Perhaps love is like the ocean“ en í víðara skilningi má líkja mannlífinu öllu, með ást sinni, kvíða, gleði, sorg, öryggi, öryggis- leysi og umfram allt gráum hversdagsleikanum; því má líkja við hafið; djúpt og sí- breytilegt en þó alltaf það sama. Eins og hafið er önnur skáldsaga Fríðu Á. Sigurðar- dóttur sem einnig hefur sent frá sér tvö smásagnasöfn. í sögunni, sem gerist í litlu sjávarþorpi, fylgjumst við með íbúum gamals húss eitt sumar, reyndar síðasta sum- ar hússins, um haustið á að rífa það. í húsinu búa gömlu hjónin Petra og Beggi sem hafa tapað eigum sínum á hæpinni útgerð Begga hér áður fyrr. Þar búa einnig Þórunn og Jón, uppflosnað sveitafólk, ásamt dætrum sínum Kristínu og Svönu, og börnum Svönu, Gullý og Pésa. í kjallaranum býr Odda með Leifa syni sínum og þar býr einnig ruglaði uppfinn- ingamaðurinn Kjartan. Ekki má gleyma vonbiöli Svönu, Steina, sem einnig býr í húsinu. Við kynnumst líka öðrum íbúum þorpsins, mis- munandi eftirminnilegum, en það eru örlög hússins og íbúa þess sem sagan snýst um. Á staðreyndum eins og þeim að unglingarnir hlusta á Duran Duran og Boy George sést að tími sögunnar er nú- tíminn. Samt finnst mér hún varla gerast í nútímanum, fólkið á einhvern hátt varla nútímalegt. Ég nefni tvö dæmi: tilraunir Gullýjar við að ná af sér freknum; þótt ég kannist við þær frá því ég var lítil hefur dóttir mín (nokkurn vegin jafnaldra Gullýjar) aldrei heyrt á þær minnst og Petra og Beggi sem fara í sparifötin til að kjósa. Gerir fólk það ennþá? Einnig eru útlistanir á skúrbyggingu Steina í stað kamra hússins einhvern veginn einkennileg- ar í dag: „Steini byggði skúrinn nokkr- um árum eftir að hann hætti á sjónum. Hann var orðinn uppgefinn á snattinu. Tolldi ekki við neitt. Svo hann byggði skúrinn. Með leyfi Ásgeirs gamla, og bæjaryfir- valda. Upphaflega stóðu þarna þrír útikamrar, en Ás- geir gamli hafði fyrir löngu látið setja þrjú klósett í húsið, eitt fyrir hverja hæð, og kamrarnir stóðu auðir og grotnuðu niður. Steini reif þá og byggði skúrinn upp á grunni þeirra, rúmgott verk- stæði með tveimur stórum gluggum." (Bls. 25) Væri ekki minnst á fyrir- bæri eins og Duran Duran, stríðið í Afganistan og versn- andi ástand í Póllandi fyndist mér sagan frekar gerast fyrir svona 20—30 árum en í fyrra eða hitteðfyrra. Inn í söguna fléttast þjóð- saga um húsið og voveifleg örlög fyrstu íbúa þess, sem virðast hafa látið lífið af ást. Mér finnst þessi þjóðsaga ekki auka skilning á þvi fólki sem sagan fjallar um og í raun og vera óþörf og hún á sinn þátt í því að sagan er að sumu leyti gamaldags, eins og áður segir. Frásagnarháttur sögunnar tekur mið af því að í henni er engin eiginleg aðalpersóna sem allt snýst um (nema við leyfum okkur að kalla húsið þá aðalpersónu) heldur eru allir íbúar hússins nokkurn veginn jafnréttháir og frá- sögnin skiptir sér á milli þeirra. í þessu sambandi er sérlega eftirtektarvert hvernig sjónarhorn sögunnar breytist stöðugt eftir því af hvaða per- sónu segir. Þannig frásagnar- aðferð og stöðug skipti sjónarhorns eru mjög vand- meðfarin, mér liggur við aö segja áhættusöm, og hér koma hæfileikar Fríðu hvað best í Ijós, hvernig henni tekst að flakka með sjónar- horn sögunnar frá einni per- sónu til annarrar án þess það nokkurn tíma sé óþægilegt og samt er alltaf Ijóst hver hugsar eða talar, hvort sem það er einhver persóna sögunnar eða þá sögumaður. Vald Fríðu á málinu á ekki minnstan þátt í því hversu vel henni tekst til með vanda- sama frásagnaraðferð. Hún beitir málinu einstaklega markvisst til að Ijá persónum sínum einkenni, hvort heldur er í tali eða hugsun. Þetta tekst henni án þess að málfar persónanna verði nokkurn tíma óeðlilegt né einkennist af stælum eða klisjum; ungl- ingurinn talar og hugsar (held ég) eins og unglingur og gamla konan eins og gömul kona. Þótt málfar sögunnar sé yfirleitt mjög vandað og stíllinn agaður fannst mér á stöku stað gæta tilgerðar í stílnum, einkum í upphafinni umhverfislýsingu á fyrstu síðu sögunnar. Segja má aö Fríða sé mjög lýðræðisleg í garð persóna sinna og leyfi þeim að koma fram á sínum eigin forsend- um. Nánast allar persónur sem einhverju skipta fá að gera grein fyrir sér og öðlast þar með samúð lesenda. Þó skulum við taka eftir að Ágúst, elskhugi Svönu og faðir Gullýjar, fær aldrei að komast að. Sem verður til þess að samúð lesandans (a.m.k. mín) með honum er ákaflega takmörkuð. Nátengdur valddreifingu frásagnarinnar er boðskapur Þórunnar (og sögunnar) þeg- ar hún segir við dóttursoninn Pésa: „Veruleikinn er stór, hann er svo miklu stærri en menn geta ímyndaö sér. Hann rúm- ast ekki í bókum, mundu það Pési, hvorki í Hróa hetti né Biblíunni. . .“ (Bls. 93) Né heldur í þessari bók, finnst manni að höfundurinn vilji bæta við. Af persónum sögunnar höföuðu þær mest til mín ungu stúlkurnar Gullý, sem mér virðist höfundur leggja mesta alúð við, og Kristín móðursystir hennar. Kristín, sem í upphafi sögunnar er ástfangin af Skúla og veit ekki hvort er dýrmætara hjónabandið og öryggi þess eða frelsið sem hún verður að fórna vilji hún njóta ástarinnar. Sem hélt að ástin leyfði leik og hlátur og hugsar, þegar Skúli minnist á hjónaband: „Hann er geggjaður! Hún er bara sautján. Auðvitað dettur henni ekki í hug að fara að gifta sig. Það hvarflar ekki að henni. Fjölskylda — krakkar — hann er ekki heilbrigður! En samt — samt er þetta allt dálítið spennandi. Hann varð svo reiður. Hann sem hafði kallað hjónabandið snöru smá- borgarans í vetur. Hún á bréf- ið. Hún getur sýnt honum það ef hann vill. Hún hafði hlegið að því hvað hann varð reiður, hlegið og kysst hann smellkoss, en hann ýtti henni frá sér. Horfði svo undarlega á hana og ýtti henni frá sér. „Höfum greinilega ekki sama húmor.“ Röddin ísköld. Gerði leikinn að alvöru. En hún var bara að grínast, hún meinti það ekki svoleiðis, ekki þann- ig, vildi bara vita hvað hann segði. Af því þetta var í fyrsta skipti — þaö alfyrsta — og allt var svo gott, eins og það átti að vera. Hann tók allt svo alvarlega, kunni ekki að leika sér. En samt er þetta allt ein- hvern veginn æsandi. En líka skelfandi. Af þvi hann varð svo reiður. Og horfði svo svona á hana. En auðvitað ætlar hún sér ekki að verða ólétt, hún var bara aö fíflast. Hún ætlar ekki að verða eins og Svana. Eða mamma. Það er svo margt sem hún ætlar að gera, feröast, læra, og hann bara á öðru ári í læknis- fræðinni. Giftast? Hann er brjálaður. Hann hlaut að skilja að hún — að hún. . . Það er svo margt sem hún ætlar að gera, hann hlaut að skilja það.“ (Bls. 17—18) Svo fer að hún gengst inn á alvöru Skúla og gleymir árekstrum dags og nætur, frelsis og öryggis. í stað þess að leika sér og grínast pakkar hún í sögulok niður visku- stykkjum því hún er að fara suður til að búa þar með Skúla í „algjörri dúkkuíbúð" í stað þess að fara norður og halda áfram í skólanum þar. Og öryggislausa Gullý, tán- ingurinn sem telur sig eiga samastað í húsinu, að þar sé hún örugg. Hvernig yfirvof- andi heimilisleysi hræðir hana: 34

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.