Ársrit Nemendasambands Laugaskóla - 01.01.1927, Page 19
13
verða úti á öræfuml — Fuglsungum vaxa vængir og
þrá. Andi forfeðranna — andi þeirra fugla þjóðernis
hefur þeim takmark í brjóst lagið, að fara lönd og álfur
— og koma aftur heim að sínum varphólma.
Suma æskumenn leikur útþráin jafn grátt og flug-
urnar við Mývatn. Þeir hafa látið vindinn, goluþyt
tískunnar, ráða ferð sinni úr föðurhúsum. Án takmarks
— að því er virðist — án þess að vita, hvert ferðum er
heitið, reikar fjöldi af æskumönnum þessa lands, mönn-
um og meyjum, úr einum skólanum í annan, milli sveita
og kauptúna, úr einum landshluta í annan. Þetta fólk á
í hættu að visna rótlaust á einhverskonar andlegum ör-
æfum.
Æskumaður! Þú sem lætur útþrána leiða þig úr föð-
urgarði. Vertu ekki hinn fávísi ferðamaður, sem eigi
veit, hvert ferðum er heitið. Vertu ekki sem mýið, er
lætur vindinn ráða ferð sinni og viljalaust visnar á ör-
æfum. Farðu að dæmi fuglsins: Láttu að vísu vængi
hugans bera þig um lönd og álfur, bera þig til sólar-
landa, — en snúöu heim.
Hvaða land er best? öll útþrá er leit að því besta.
Leitið ekki endalaust í fjarska. Sennilega er Berurjóðr-
ið, sveitin þín, best. Þar finnur þú sjálfan þig best. Og
gleði þín, gengi þitt, gæfa þín býr hvergi, nema í þér
sjálfum.
Æskumaður! Ferðamaður! Gleym þú ekki að snúa
heim!
Jón Sigurðsson.
Ystafelli.