Bændablaðið - 27.03.2007, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 27.03.2007, Blaðsíða 7
Örn Arnarson Að mínum dómi er Örn Arnarson í hópi okkar allra bestu ljóðskálda en hefur því miður alltaf ver- ið vanmetinn eins og svo mörg ólangskólagengin skáld. Það er ekki það sama að vera góður hag- yrðingur og gott ljóðskáld. Örn var hvort tveggja, eftir hann liggja margar snjallar stökur og skulum við nú skoða nokkrar þeirra. Þess má geta að hann skýrði aldrei frá tilurð vísnanna: Bros og grátur eru í ísamáti freðin. Kuldahlátri hlæ ég því hún er fátíð gleðin. Úlfurinn étur sauðinn Hræsni vex af hjálp og náð. Hrælund þrífst við auðinn. Örbirg stétt er auðvaldsbráð. Úlfurinn étur sauðinn. Dýrt er landið Þetta er ein af kunnustu vísum Arnar: Dýrt er landið Drottinn minn dugi ekki minna en vera allan aldur sinn fyrir einni gröf af vinna. Aulabárði er alltaf mál Hrekkvís kyndir heiftarbál. Hræsnin veður elginn. Aulabárði er alltaf mál orð að leggja í belginn. Oft var svalt í förum Mér varð allt að ís og snjó. Oft var svalt í förum. Ekki skaltu undrast þó andi kalt úr svörum. Legg ég upp á Leggjabrjót Ei mun hraun og eggjagrjót iljum sárum vægja. Legg ég upp á Leggjabrjót. Langt er nú til bæja. Sá er ekkert skilur Hávært tal er heimskra rök. Hæst í tómu bylur. Oft er viss í sinni sök sá er ekkert skilur. Vökina leggur bráðum Herðir frost og byljablök. Ber mig vetur ráðum. Ævi mín er vörn í vök. Vökina leggur bráðum. Norðanbitra Norðanbitran bleikir völl blöðin titra á greinum, hljóðnar sytra, hvítna fjöll hrímkorn glitra á steinum. Syngur klóin Syngur klóin, kveður röng, kyngisjóar heyja þing, klingir glóhærð kólguþröng kringum mjóan súðbyrðing. Dvínar glóð Djöflar hljóða deyjandi. Dvínar glóð í helvíti. Blæs í hlóðir bölvandi bræðimóður andskoti. Aðra setti hljóða Prédikaði presturinn píslir vítisglóða. Amen sagði andskotinn. Aðra setti hljóða. Þangað sækir refur ráð Lýðurinn virðir lögin skráð ljóst þó dæmin gjöri, að þangað sækir refur ráð sem rænir lambið fjöri. Sýður á keipum Það er við hæfi að ljúka þessum vísnapistli um Örn Arnarson með loka erindinu úr ljóðinu um Stjána bláa. Horfi ég út á himin blána. Hugur eygir glæsimynd. Mér er sem ég sjái Stjána sigla hvassan beitivind, austur af sól og suður af mána sýður á keipum himinlind. Umsjón: Sigurdór Sigurdórsson ss@bondi.is Í umræðunni Bændablaðið | Þriðjudagur 27. mars 20077 MÆLT AF MUNNI FRAM Guðbrandur Sigurðsson forstjóri Mjólkursamsölunnar ehf. Verðum að mæta erlendri samkeppni Nú standa yfir miklar hrókering- ar innan mjólkuriðnaðarins en eins og kunnugt er var ákveðið á síðastliðnu hausti að sameina þau fyrirtæki sem bændur starfrækja í eina rekstrarheild. Sú ákvörðun hefur verið að fá á sig formlega mynd á aðalfundum félaganna sem að sameiningunni standa. Á einum þeirra, aðalfundi MS/Auð- humlu á Flúðum, hélt Guðbrand- ur Sigurðsson forstjóri ræðu sem hefur endurómað nokkuð í fjöl- miðlum. Það sem sætti tíðindum í ræðu Guðbrands var að hann lagði til að opinber afskipti af verðlagsmálum mjólkuriðnaðarins yrðu aflögð. Það sem hann vísar til er sú aðferð að ákveða verð á mjólk og nokkrum mjólkurafurðum í nefnd sem ríkið skipar. Samkvæmt ákvörðun henn- ar er verð á neyslumjólk lægra en það þyrfti að vera. Á móti eru ýms- ar unnar mjólkurvörur, rjómi, ost- ar, jógúrt og skyr, á hærra verði en framleiðslukostnaður þeirra gefur tilefni til. Þetta þýðir í raun verðtil- færslu á milli þessara afurðaflokka. Guðbrandur segir að vinnslugrein- arnar séu að greiða á áttunda hundr- að milljóna króna á ári í verðtil- færslu frá hátt verðlögðum vinnslu- afurðum til ýmissa afurða sem eru lágt verðlagðar. Verðtilfærslan er tímaskekkja En hvers vegna leggur Guðbrandur þetta til núna? „Ástæðan er fyrst og fremst sú að í framtíðinni má gera ráð fyrir mun meiri samkeppni erlendis frá. Ég tel rétt að mjólkuriðnaðurinn fái tækifæri til að leiðrétta þessa skekkju sem er á markaðnum áður en til hennar kemur og gera okkur þannig hæfari um að mæta sam- keppninni.“ Ólafur Magnússonframkvæmda- stjóri Mjólku og leiðarahöfundur Morgunblaðsins hafa lagt þetta þannig út að með þessari yfirlýs- ingu séu Guðbrandur og MS að leggja til atlögu við innlenda sam- keppni og voru stóryrðin hvergi spöruð í forystugrein Morgunblaðs- ins í síðustu viku. Hverju svarar Guðbrandur þessu? „Ég svara þessu á þann veg að með þessari tillögu séum við að auka frjálsræði í þessari grein og teljum það vera lið í að auka neyslu á þessum hollu afurðum sem við framleiðum. Við höfum verið boðn- ir og búnir að rétta Ólafi og Mjólku hjálparhönd en hann hefur kosið að fara sínar eigin leiðir og við því er ekkert að segja. Ég vil hins vegar taka þetta til umræðu því ég held að við séum eina atvinnugreinin sem þarf að sætta sig við opinber afskipti af verðlagningu. Ég tel víst að þegar opnað verður muni samkeppnin að utan fyrst og fremst verða í dýrari vörum með lengra geymsluþol og ef við eigum að hafa tök á að mæta henni verðum við að þróa okkur yfir í gagnsærri verðmyndun og hætta þessari verðtilfærslu.“ Mjólkursamsalan er fjöldahreyfing Guðbrandur bætir því við að vissu- lega sé staða MS sterk og hafi enn styrkst með sameiningunni. Þess vegna þurfi fyrirtækið að stíga var- lega til jarðar og forðast að haga sér þannig að engin samkeppni þrífist við hlið þess. „Það teljum við okk- ur hafa gert. Við höfum sýnt fulla ábyrgð í störfum okkar sem meðal annars birtist í þeirri ákvörðun fyr- irtækisins að taka þátt í viðleitni rík- isstjórnarinnar til lækkunar matar- verðs með því að lýsa yfir tveggja ára verðstöðvun á mjólkurafurð- um,“ segir hann. Eins og fram kemur hér í opn- unni er verið að gera miklar breyt- ingar á skipulagi mjólkuriðnaðar- ins. Hvernig finnst Guðbrandi hafa tekist til? „Þetta hefur gengið afar vel. Mjólkursamsalan er fjöldahreyf- ing því að baki hennar standa 700 mjólkurframleiðendur og fjölskyld- ur þeirra. Það er mikil samstaða meðal bænda um þessa samein- ingu, ég hef ekki heyrt einn bónda mótmæla á þessum fundum sem haldnir hafa verið. Við eigum hins vegar margt eftir í þeirri viðleitni að auka hagkvæmni í rekstrinum og ná niður verði á mjólk til neytenda á sama tíma og við reynum að halda kjörum bænda óbreyttum. Það tekur sinn tíma að ná félögunum saman, koma á nýju skipulagi og færa til starfsmenn og stjórnendur. Þetta mun standa yfir til ársloka 2008.“ Margt jákvætt að gerast Í lokin var Guðbrandur spurður um það hvort fyrirtækið geti tekið við allri þeirri mjólk sem framleidd er í landinu. Að þessu er spurt í ljósi þess að greiðslumarkið hefur aukist töluvert á undanförnum árum og nú stefnir í að framleiðslan aukist um allt að 10% á milli verðlagsára. „Þessi aukning sem hefur verið var nauðsynleg vegna þess að eftir- spurn hefur aukist og birgðir voru orðnar litlar. Ég held að við getum alveg tekið við rúmum 120 milljón- um lítra á þessu verðlagsári en ég sé ekki fram á að við ráðum við áframhaldandi aukningu í þeim dúr sem hún hefur verið. Það ræðst þó af ýmsu, svo sem hvernig útflutn- ingsmarkaðir þróast. Þar eru í gangi þróunarverkefni sem lofa góðu. Við vonumst til þess að Ameríkumark- aður geti í lok þessa árs tekið við allt að tveimur milljónum lítra á ársgrunni og erum að þreifa fyrir okkur í Færeyjum. Til Evrópu opn- ast leið fyrir 380 tonn af skyri, auk smjörs, þegar nýir tollkvótar taka gildi 1. júní. Í þetta magn af skyri færi rúm milljón lítra af mjólk. Það er því margt jákvætt að gerast.“ Hér í blaðinu er á tveimur stöð- um rætt um nauðsyn þess að mjólk- uriðnaðurinn gefi bændum vísbend- ingu um það hversu mikla mjólk hann þurfi, segjum næstu þrjú ár. Væri það mögulegt? „Já, ég sé því í raun ekkert til fyrirstöðu að við gætum gefið slík- ar vísbendingar, með fyrirvara um breytingar. Hins vegar er sú tíð endanlega liðin að við getum gefið einhver loforð mörg ár fram í tím- ann, það heyrir fortíðinni til, líkt og fimm ára áætlanir Stalíns,“ sagði Guðbrandur Sigurðsson forstjóri Mjólkursamsölunnar ehf. –ÞH Breytt skipulag Með sameiningunni sem nú hefur orðið í mjólkuriðnaði hefur verið búið til nýtt rekstrarfélag sem nefnist Mjólkursamsalan ehf. Það er í eigu KS á Sauðárkróki, MS og Auðhumlu sem áður var mjólkursamlagið á Akureyri. Tvö síðarnefndu félögin eru raun- ar orðin að einu þannig að eigendur Mjólk- ursamsölunnar ehf. eru tvö félög sem aftur eru í eigu um 800 kúabænda. Hlutdeild félag- anna er þannig að fyrrum MS á 73% hluta- fjár í nýja félaginu, Auðhumla 12% og KS 15% Miðað við tölur um veltu og starfsmanna- fjölda árið 2005 voru starfsmenn í fyrirtækinu 579, að viðbættum 14 hjá KS. Samanlögð velta fyrirtækjanna var liðlega 13 milljarðar króna. Virkir viðskiptavinir fyrirtækisins töldust þá vera um 3.500 en í þeim hópi eru bæði smásölu- verslanir og fyrirtæki sem kaupa beint af MS. Mjólkursamsalan ehf. sér um alla markaðs- færslu og dreifingu, mjólkursöfnun og dreif- ingu á mestöllu landinu, en KS annast mjólkur- söfnun og úrvinnslu á sínu svæði. Mjólkursamsalan tók í haust við öllum eignum og rekstri Mjólkursamlagsins á Ísa- firði. Mjólkursamlag KS verður rekið í nánum tengslum við Mjólkursamsöluna og gengst und- ir framleiðslustjórnun hennar, auk þess sem sölumálin verða einnig hjá MS. Hjá Osta- og smjörsölunni verða miklar breytingar því rekst- ur hennar fellur undir MS nema hvað tiltekt og dreifing osta og smjörs verður að Bitruhálsi 2 um sinn. Loks má nefna að töluverðar breytingar verða á starf- semi Samtaka afurðastöðva í mjólkur- iðnaði. Hlutverk þeirra samtaka var að vinna að sameiginlegum hagsmunum mjólkuriðnaðarins en þess gerist varla þörf þegar hann er allur kominn undir eina stjórn. Samkvæmt nýju skipuriti fer fimm manna framkvæmdaráð með daglega stjórn Mjólkursamsölunnar ehf. For- stjóri er Guðbrandur Sigurðsson og undir hann falla einnig fjármál. Magn- ús Ólafsson er aðstoðarforstjóri, Pálmi Vilhjálmsson stjórnar framleiðslu, Jón Axel Pétursson sölu- og markaðsmál- um og Einar Matthíasson viðskipta- og þróunarsviði. Starfsstöðvar Mjólkursamsölunnar ehf. verða sjö: í Reykjavík, Búðardal, á Ísafirði, Blönduósi, Akureyri, Egils- stöðum og Selfossi. Við þetta má bæta Mjólkursamlagi KS á Sauðárkróki. Stefnt er að því að flytja alla pökkun frá Bitruhálsi til Selfoss. Þegar því verður lokið hefur stefnan verið tekin á að selja núver- andi hús við Bitruhálsinn og byggja nýjar höf- uðstöðvar og dreifingarstöð á lóð sem sótt hef- ur verið um á Hólmsheiði. –ÞH Guðbrandur Sigurðsson forstjóri Mjólkursamsölunnar ehf. Aðalfundur MS á Flúðum tókst vel enda gengur rekstur fyrirtækisins vel. Hátt á fimmta hundrað manns vinna hjá Mjólkursamsölunni en eigendur fyrirtækisins eru 760 bændur og fjölskyldur þeirra. Heildarsala á mjólkur- vörum, öðrum en smjöri og ostum, hjá MS á árinu 2006 var 45,2 milljónir lítra að verðmæti 6,5 milljarðar króna. Ljósm. MHH

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.