Fréttablaðið - 28.09.2012, Side 17

Fréttablaðið - 28.09.2012, Side 17
FÖSTUDAGUR 28. september 2012 17 Mér er ekki sérstaklega illa við að borga fyrir hluti. Þess vegna fer það í taugarnar á mér þegar menn geta ekki rætt um eðlilega verðlagningu á þjónustu öðruvísi en á þeim forsendum að verið sé að „refsa fólki“. Ég vil ekki „refsa fólki“ fyrir að leggja bílnum niðri í miðbæ, ég vil bara að fólk borgi fyrir það. Ég vil heldur ekki „refsa fólki“ fyrir að taka strætó, þótt ég vildi ég gjarn- an sjá fólk borga meira fyrir það. Ég er raunar sannfærður um að það myndi gera strætó betri. Hvenær er gjaldtaka refsing? Tökum dæmi. Ökumaður ekur á 83 kílómetra hraða þar sem hámarks- hraðinn er 60. Hann þarf að borga 20 þúsund króna sekt. Það er refs- ing. Annað dæmi: Maður fer í bíó til að sjá Ísöld 4 í tvívídd og borgar fyrir það 1.300 kr. Það er ekki refsing. Það kostar að fara í bíó. Gjaldtaka er ekki sjálfkrafa refsing þótt sá sem vilji fá borgað sé opinber aðili. Ef spítali rukkar sjúklinga fyrir mat í mötuneyti þá er varla hægt að tala um að verið sé að „refsa fólki fyrir að borða“. Einkaaðili sem ræki mötuneyti myndi varla gefa matinn. Svarið við refsingarspurningunni veltur heldur ekki endilega á því hvort menn „hafi val“. Menn hafa ekki beinlínis val um það hvort þeir borði, búi í húsi eða gangi í fötum, en auðvitað er ekki verið að „refsa fólki“ fyrir að borða brauð, búa í blokk og klæðast buxum. Brauð, blokkir og buxur kosta. Gjaldtaka er ekki refsing nema að markmið hennar sé að fá fólk til að láta af því sem rukkað er fyrir. Sektir vegna ölvunaraksturs eru ekki settar með það að mark- miði að hámarka tekjur ríkissjóðs af fullum ökumönnum. Þær eru settar til að fólk keyri ekki fullt. Eins, ef um er að ræða gjöld vegna veittrar þjónustu, eru þær varla refsing nema hið opinbera hafi þar lagalega einokun og ætla megi að gjaldtakan sé langt yfir markaðs- verði. Ef einkaaðilar myndu reka strætó, án niðurgreiðslu hins opin- bera, myndi hann ólíklega vera ódýrari fyrir farþega, hvað þá ókeypis. Það væri því ekki refsing þótt svo fargjöldin myndu hækka, og ég vona raunar að þau geri það með tíma, þjónustunnar vegna. Fjárframlög sveitarfélaga (eða ríkisins) til strætó geta sveiflast með pólitíkinni. Allt of algengt er að menn þori ekki að hækka far- gjöldin fyrir kosningar og þurfi svo að taka afleiðingunum í upp- hafi næsta kjörtímabils með þjón- ustuskerðingu. Það er glatað. Sem farþegi vel ég alltaf verðhækkun framar þjónustuskerðingu. Myndu menn sætta sig við að vandi Orku- veitunnar yrði leystur með því að halda verðskránum óbreyttum en loka þess í stað fyrir hita og raf- magn ákveðinn hluta dags? Til er fólk, gjarnan á hægri vængnum, sem vill gjarnan hækka fargjöld í strætó, helst leggja Strætó niður, en mótmælir öllum hugmyndum um hækkun bíla- stæðagjalda og vill jafnvel að bíla- stæðin í miðbæ Reykjavíkur verði ókeypis. Það er hægrimennska sem lífsstíll („ég vil vera á bíl og búa í stóru húsi“) en ekki hugsjón („ég vil fjölga markaðslausnum, því ég tel að þær virki“). En svona getur fólk nú verið ólíkt. Stundum í þessari umræðu eru menn eins og ég gagnrýndir fyrir að bera Reykjavík saman við einhverjar „stórborgir“ eins og Kaupmannahöfn þegar kemur að verðlagningu bílastæða. Gott og vel, berum Reykjavík þá saman við skosku borgina Aberdeen sem með nágrannabæjum telur um 300 þúsund íbúa. Klukkutími á dýr- asta gjaldsvæði Aberdeen-borgar kostar þrjú pund, eða um 600 krón- ur. Gjaldskylda er frá 8 til 20 alla daga nema sunnudaga, þá varir hún skemur. Í Reykjavík er hæsta gjaldið 225 krónur á klukkustund. Dæmi úr einni borg segir auðvitað fátt en mér virðist alla vega ekki óvanalegt að borgir sem líkjast Reykjavík að stærð rukki svipað eða meira fyrir bílastæðin. Góðar strætósamgöngur kosta og við eigum að rukka fyrir þær. Bílastæði niðri í bæ kosta og við eigum að rukka fyrir þau. Hvorug gjaldtakan er refsing. Ef hlutir kosta þá er það ekki „refsing“ þótt viðskiptavinurinn sé látinn borga sinn part. Ég vil ekki „refsa fólki“ fyrir að leggja bílnum niðri í miðbæ, ég vil bara að fólk borgi fyrir það. Pawel Bartoszek stærðfræðingur Í DAG Gjald er ekki refsing Í ljósi umfjöllunar síðustu daga um hættuna sem stafað getur af gaskútum langar mig til að benda á þá staðreynd að þrátt fyrir mikla fjölgun gaseldavéla á heimilum landsmanna eru afar fá dæmi um að hættuástand skapist vegna gass. Þar er rétt meðhöndlun á gasi lykil- atriði og sem betur fer fara flestir þá leið að fá fagmenn til að setja slíkan eldunarbúnað upp og tengja. Til eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í uppsetningu og þjónustu við gas og tryggja þannig réttan frágang á leiðslum og öðrum nauðsynlegum öryggisbúnaði. Gas er bæði þarft og mikilvægt efni og er ekki hættulegt ef rétt er með það farið. Gas sem notað er til eldunar er svokallað F-gas sem er blanda af gastegundunum própani og bútani. F-gas er bæði lit- og lyktar laust og þess vegna er blandað í það sterku lyktarefni svo fólk verði vart við gasleka. F-gas er töluvert þyngra en andrúms- loft og því leitar það niður á gólf ef það lekur út. Því er nauðsynlegt að staðsetja gasskynjara við gólf, eða í sökkli innréttinga, til að vara við gasleka. Það ætti að vera jafn sjálfsagt að setja upp gasskynjara og reykskynjara til að vara við reyk – ódýrari og einfaldari líftryggingu er varla hægt að fá. Mikilvægt er að hafa svokall- aðan brotrofa á gaskútum sem lokar fyrir gasstreymi ef slangan frá kútnum gefur sig og skipta um slöngur í samræmi við kröf- ur framleiðenda, sem er u.þ.b. á fimm ára fresti. Loks er mikil- vægt að merkja vel staði þar sem gaskútar eru geymdir svo hægt sé að tryggja öryggi fólks ef upp kemur eldur, en hægt er að fá slíka límmiða á flestum bensínstöðvum. Þegar skipt er um húsnæði og gas- eldunar búnaður er til staðar í því húsnæði er einnig rétt að kynna sér ástand þess búnaðar með aðstoð fagmanna. Ef fólk er með gaskúta sem það notar einungis yfir sumar- tímann, t.d. við grill eða í húsbíl, er hægt að leggja kútana inn hjá sölu- aðila yfir vetrartímann og kaupa nýja áfyllingu og kút næsta sumar. Ef fólk kýs hins vegar að geyma kútinn sjálft þarf að gæta þess að loka vel fyrir hann og finna honum vel loftræstan og læstan geymslu- stað, helst utandyra. Séu hylkin geymd innandyra þarf að tryggja nægilega loftræstingu bæði ofan til og við botn geymslunnar. Ef loftræsting er ekki nægjanleg geta hættulegar og súrefnissnauðar loft- tegundir myndast. Til eru ýmsar útfærslur af sérstökum skápum fyrir gaskúta. Hægt er að fyrirbyggja slys með því að vanda vel uppsetn- ingu gaseldunarbúnaðar og gas- kúta, kynna sér hvernig best sé að standa að meðhöndlun og gæta þess að hafa eftirlitið í lagi. Ég hvet fólk því til að kynna sér öryggis- atriði varðandi meðhöndlun og geymslu gaskúta, t.d. á heimasíðu Slökkviliðsins, www.shs.is, og nýta sér þekkingu fagmanna ef fara á í framkvæmdir. Rétt meðhöndlun gaskúta tryggir öryggi Öryggismál Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuð- borgarsvæðisins bs.

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.