Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 2

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 2
2 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Fréttir Formannsstaða BÍ: Sindri gefur kost á sér Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, sauðfjárbóndi í Bakkakoti í Stafholtstungum, hefur ákveðið að gefa kost á sér sem formaður Bændasamtaka Íslands. Nýr formaður verður kosinn á komandi búnaðarþingi í byrjun mars, en Haraldur Benediktsson mun þá láta af formennsku eftir níu ára setu. Sindri er fyrrverandi formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og hefur setið á búnaðarþingi síðustu tólf árin. Sindri er fæddur í Reykjavík 5. apríl 1974. Hann er giftur Kristínu Kristjánsdóttur og hafa þau búið í Bakkakoti frá árinu 1994. Þau eiga tvö börn, Lilju Rannveigu og Kristján Franklín. Sindri segir að ákvörðunin sé tekin vegna þess að hann hafi mikla trú á íslenskum landbúnaði og möguleikum hans. „Það hafa margir haft samband við mig og hvatt mig til framboðs eftir að í ljós kom að Haraldur hygðist láta af formennsku. Það eru bændur alls staðar að af landinu, úr mörgum búgreinum. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning og með hann í farteskinu ákvað ég að láta slag standa. Íslenskur landbúnaður býr yfir geysilegum möguleikum og ég hef mikla trú á honum. Þetta er bara spurning um að nýta tækifærin, sem hafa kannski aldrei verið jafn mörg. Það er ljóst að það þarf að auka matvælaframleiðslu á heimsvísu og við höfum mikla möguleika á því.“ Sindri segir að talsverð breyting verði á Bændasamtökunum á næstu misserum, með breytingu á ráðgjafar starfsemi í landbúnaði. „Það eru spennandi tímar fram undan og mikilvægt að þétta raðir bænda í hagsmunagæslu fyrir íslenskan landbúnað, hvar á landinu sem þeir kunna að búa og hvaða búgrein sem þeir stunda. Haraldur Benediktsson hefur í sinni formannstíð, ásamt samstarfsfólki sínu, lyft grettistaki í þeim efnum og mikilvægt er að halda því góða starfi áfram. Það mun ég gera nái ég kjöri.“ Sindri er búfræðingur frá Hvanneyri, þar sem hann lauk námi árið 1995. Hann hefur frá árinu 2006 stundað viðskiptafræðinám við Háskólann á Bifröst og tók hluta þess í skiptinámi við Manitoba-háskóla í Winnipeg í Kanada. Hann hefur sömuleiðis starfað við stundakennslu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri síðustu ár samhliða búskap. Sindri hefur mikla reynslu af félagsmálum eins og áður segir, en auk starfa á vettvangi landbúnaðar hefur hann verið virkur í Framsóknarflokknum og er varaþingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi. /fr Norðlenskir skógarbændur gróður settu alls ríflega 536 þúsund plöntur á liðnu ári og er það aukning sem nemur rúmlega 70 þúsund plöntum frá fyrra ári. Engin ný skjólbelti voru ræktuð, en íbætur í eldri belti voru ríflega þúsund plöntur. Valge rður Jónsdó t t i r, framkvæmda stjóri Norðurlands- skóga, segir að áætlanir geri ráð fyrir að á þessu ári verði gróðursettar rúmlega 600 þúsund plöntur, sem er aukning frá fyrra ári um nær 100 þúsund plöntur. Sú aukning sé því miður ekki vegna aukinna fjárveitinga, því á árinu 2013 séu fjárveitingar enn skornar niður til verkefnisins. Fækkun starfsmanna og áframhaldandi aðhald í rekstri geri kleift að auka gróðursetningu. „Fjármagn til skógræktar í landinu hefur verið skorið allt of mikið niður á undanförnum árum. Stjórnvöld verða að fara að gera upp við sig hvort ætlunin sé að byggja upp þessa atvinnugrein, það verður ekki gert með áframhaldandi niðurskurði. Skaðinn er að hluta til þegar skeður,“ segir Valgerður og vísar til þess að nýlega bárust fréttir af því að Barri á Egilsstöðum væri komin í þrot, aðrar gróðrarstöðvar sem sérhæfi sig í rekstri skógar- plantna hafi átt mjög erfitt með að láta reksturinn ganga upp undanfarin ár. Milljón gróðursettar plöntur skila 14 ársverkum „Gróðursettum plöntum á Íslandi hefur fækkað úr um 6 milljónum plantna niður í 4 milljónir á undanförnum 5 árum. Það þýðir að nær 30 ársverk hafa tapast, en nýleg rannsókn sýnir að hverjar milljón plöntur sem eru gróðursettar skila rúmlega 14 ársverkum. Þessi minnkun hefur ekki bara slæmar afleiðingar fyrir þau fyrirtæki sem byggja rekstur sinn upp á skógarplöntuframleiðslu, heldur ekki síður þá fjölmörgu skógarbændur sem hafa tekið land sitt undir skógrækt og fá svo ekki plöntur til að gróðursetja. Til framtíðar litið er svona samdráttur mjög óheppilegur, þar sem úrvinnslufyrirtæki koma til með að byggja á stöðugu framboði timburs,“ segir Valgerður. Stóraukin eftirspurn eftir íslensku timbri Eftirspurn eftir íslensku timbri hefur að sögn Valgerðar stóraukist undanfarin ár og er framboðið nú mun minna en eftirspurnin. „Það er ekkert sem bendir til að þetta muni breytast á næstu árum eða áratugum, það koma stöðugt fram nýir möguleikar til að nýta timbur og flutningskostnaður hingað til lands mun væntanlega ekki lækka stórlega á næstunni.“ Valgerður kveðst ekki hafa trú á öðru en stjórnvöld fari senn að sjá tækifærin sem við blasi. Skógrækt sé ekki lengur tómstundagaman, „heldur atvinnuvegur sem er arðvænlegur og þarf að byggja upp af alvöru. Það hafa verið gerðar fjölmargar áætlanir og stefnur hérlendis undanfarin ár um hvernig auka megi verðmætasköpun, atvinnu, styrkja byggð og fleira mætti telja, skógræktin smellpassar inn í þetta allt saman,“ segir hún. Mikil grisjunarþörf blasir við Norðurlandsskógar eru nú að hefja fyrsta starfsárið undir Umhverfis- og auðlindaráðuneyti eftir að hafa tilheyrt landbúnaðarráðuneyti frá upphafi verkefnisins. Valgerður segir að í nýju ráðuneyti sé skýr vilji til að auka skógrækt, „og við erum full bjartsýni á að framlög til skógræktar verði aukin á ný á næstu misserum.“ Á næstu árum mun grisjunarþörf stóraukast á Norðurlandi. Nú í ár er reiknað með að grisja þurfi 30-40 hektara af ungskógi en stóra stökkið í grisjunarþörf verður eftir 5-6 ár. Þá gera áætlanir ráð fyrir að grisja þurfi um 140 hektara árlega. Önnur verkefni verða að sögn Valgerðar með hefðbundnum hætti, en þessa dagana eru starfsmenn Norðurlandsskóga að ganga frá fyrstu brunavarnaráætlunum og stefnan er að klára slíkar áætlanir fyrir a.m.k. fjórðung skógarbænda á árinu. /MÞÞ Gróðursettum plöntum hefur fækkað úr 6 milljónum niður í 4 milljónir plantna á undanförnum 5 árum: Nær 30 ársverk hafa tapast Það hefur verið drjúgur snjór í Svarfaðardalnum í vetur eins og víðar á Norðurlandi. Hér sést Ófeigur Sigurðsson, tækjamaður hjá Steypustöðinni á Dalvík, moka reiðveginn við Hringsholt í Svarfaðardal á dögunum. Mynd / Kjartan Snær Árnason Fjármagn til skógræktar í landinu hefur verið skorið allt of mikið niður á undanförnum árum að mati Valgerðar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Norðurlandsskóga. Stjórnvöld verði að fara að gera upp við sig hvort ætlunin sé að byggja upp þessa atvinnugrein. Það verði ekki gert með áframhaldandi niðurskurði. Mynd / MÞÞ Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.