Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Heimildarmyndin Hvellur verður frumsýnd í kvöld í Bíó Paradís. Í myndinni er fjallað um þann einstaka atburð þegar bændur í Suður-Þingeyjarsýslu tóku sig saman og sprengdu Miðkvíslarstíflu efst í Laxá 25. ágúst 1970. Sprengingin er afdrifaríkasti atburðurinn í svo- kallaðri Laxárdeilu, sem stóð á árunum 1968 til 1973 og snerist um áætlanir framkvæmdaaðila sem lutu að því að byggja tæp- lega sextíu metra háa stíflu í Laxá með tilheyrandi vatnaflutningum. Lífríki Mývatns og Laxár hefði beðið óbætanlegan skaða af hefðu áætlanirnar náð fram að ganga og sömuleiðis hefði byggð í Laxárdal lagst af. Fjöldi bænda fór í skjóli myrkurs að stíflunni í Miðkvísl, en boð höfðu verið látin út ganga við jarðarför á Skútustöðum fyrr um daginn. Í myndinni kemur í fyrsta skipti fram hverjir það voru sem sprengdu, en þrír menn sprengdu stífluna við Miðkvísl. Voru það þeir Guðmundur Jónsson á Hofsstöðum og Sigurgeir Pétursson á Gautlöndum, sem báðir eru látnir. Þriðji maðurinn var Arngrímur Geirsson í Álftagerði og er hulunni nú svipt af leyndar- máli sem varðveitt hefur verið í rúm 42 ár. Í myndinni er það jafnframt staðfest að dýnamítið sem notað var til að sprengja stífluna var í eigu framkvæmdaaðila stíflugerðarinnar. Hápunktur í langri deilu Grímur Hákonarson er leikstjóri myndarinnar, sem framleidd er af Ground Control Productions. Bændablaðið hitti Grím og ræddi við hann um Hvell, atburðinn og verkefnið. Grímur segir að um margt sé deilan um virkjun Laxár einstæð. „Þetta er margra ára deila sem stóð þarna yfir. Mér þykir þetta um margt sambærilegt við Kárahnjúkamálið ef við berum þetta saman við eitthvað sem er nær okkur í tíma. Sprenging stíflunnar er hins vegar auðvitað hápunkturinn, hún er þungamiðjan í myndinni. Þetta er auðvitað mjög stór aðgerð, að sprengja mannvirki niður. Stemmingin sem var þarna finnst mér líka vera svipuð og var í búsáhaldabyltingunni, sú stemm- ing hefði getað leitt af sér eitthvað svipað og þessa aðgerð Mývetninga 1970. Það var almenn andstaða og reiði í garð virkjunaraðilanna. Á þessum tíma var ekki mikið verið að spyrja heimamenn, umhverfismat var ekki til. Það þótti sjálfsagt mál að byggja stíflur og menn voru ekki að pæla í andstöðu heimamanna.“ Stórir karakterar í Mývatnssveit Grímur segir að virkjunarsinnar hafi ekki hitt á besta stað á landinu til að standa í deilu af þessu tagi. Félagsleg samstaða Mývetninga hafi verið mikil og þeir hafi ekki látið bjóða sér að traðkað væri á þeim með þeim hætti sem til stóð. „Í Mývatnssveit voru stórir karakterar. Það hefur alltaf verið mikil sam- félagsleg meðvitund og félagsþroski í Þingeyjarsýslum. Þarna voru upp- lýstir menn, víðlesnir og vel að sér í þjóðfélagsmálum, lögfræði jafnvel. Þetta var kannski versti staðurinn á landinu fyrir virkjunarsinna til að taka þennan slag. Menn létu ekki óátalið að það væri vaðið yfir þá. Það var almenn samstaða heima- manna sem gerði það að verkum að þetta gat orðið að veruleika.“ Samstaða heimamanna hélt Að mati Gríms er einna merkilegast hversu sterkur samtakamátturinn var meðal heimamanna. 113 manns lýstu aðild að verkinu á hendur sér og 65 voru ákærðir og hlutu dóma, þó ekki þunga. Aldrei komst upp, fyrr en nú, hverjir það voru sem raunverulega sprengdu og samstaða heimamanna brást aldrei í gegnum árin. „Þetta er einmitt stórmerkilegt og við komum mikið inn á það í myndinni. Það er fólk í sveitinni sjálfri sem veit ekki hverjir það voru sem að stóðu að þessu, auð- vitað sérstaklega yngra fólk. Það var kannski ekki rætt svo mikið um málið, það ríkti ákveðin bannhelgi yfir því enda var um dómsmál að ræða. Það er hins vegar fyrnt núna og því eru menn kannski tilbúnir að koma fram í dagsljósið. Myndin er fyrst og fremst um fólkið þarna í Mývatnssveit og að einhverju leyti líf þess í dag, ekki síður en atburðina fyrir rúmum fjörutíu árum. Við feng- um heldur ekki neina álitsgjafa að sunnan eða neitt slíkt, þarna er bara talað við heimamenn. Við reyndum að finna þá sem studdu virkjunina eða stóðu að henni en það reyndist erfitt og á endanum varð þetta bara mynd um þá sem komu að þessari aðgerð.“ Hik í fyrstu Vinna að gerð myndarinnar hófst árið 2008, þegar byrjað var að kanna hug heimamanna í Mývatnssveit varðandi gerð hennar. Myndin var svo tekin upp sumarið 2010. „Í fyrstu ferðinni var fólk svona hugsi yfir þessu, sumum fannst þetta gamalt mál og margir dánir þannig að það væri nú kannski ekki ástæða til að fara að grafa í þessu. Þegar við komum svo aftur voru heimamenn augljóslega búnir að tala sig saman og tilbúnir að koma fram á þessum tímapunkti. Það hefur alltaf hvílt leynd yfir því sem gerðist þarna, yfir því hverjir þarna voru að verki. Upphaflega átti ekki að sprengja, menn töldu að þetta væri jarðvegsstífla og ætluðu að ryðja í hana skarð. Það varð svo auðvitað lögreglurannsókn á eftir og reynt að finna sökudólgana. 113 bændur lýstu sig ábyrga, ýmist fyrir að hafa sprengt eða veitt liðsinni sitt, og á því byggðist vörnin. Lögreglu tókst ekki að finna þann eða þá sem sprengdu. Menn voru svo dæmdir í skilorðsbundið fangelsi eða sektar- greiðslu sem aldrei kom til að yrði greidd,“ segir Grímur. Hafði í för með sér hugarfarsbreytingu Stundum er talað um sprenginguna í Miðkvísl sem upphaf náttúruverndar Heimildarmyndin Hvellur, um sprengingu Miðkvíslarstíflu, frumsýnd í kvöld: Upphaf náttúruverndar á Íslandi – þögnin rofin í fyrsta skipti í myndinni um hverjir sprengdu stífluna Frá mótmælunum við Laxá. Grímur Hákonarson leikstjóri. Mynd / fr

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.