Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 18

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 18
18 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Félagar úr bandarísku vegslóðasamtökunum NOHVCC héldu fyrirlestra á málþinginu „Framtíð ferðalandsins“: Hægt að vernda náttúruna með góðu skipulagi vegslóða og merkingum – góð reynsla af skipulagi vegslóða og vegslóðastjórnun í Bandaríkjunum á undanförnum áratugum Hart hefur verið deilt um nýtingu og lokanir á gömlum vegum og vegslóðum á síðustu árum. Hefur ýmsum bændum m.a. þótt þar illa vegið að landnýtingarrétti sínum og ýmis samtök sem stunda fjallaferðir hafa mótmælt tilskipunum um lokanir og fyrirhuguðum skerðingum í nýju frumvarpi til náttúruverndarlaga. Þá hefur verið bent á að lokun ýmissa vegslóða útiloki t.d. fatlaða einstaklinga frá því að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða utan alfaraleiða. Erfitt hefur verið að sætta sjónarmið, þar sem öfgafullar skoðanir virðast oft hafa ráðið ferðinni. Það var því vel til fundið þegar ýmis samtök sem telja sig hafa hagsmuna að gæta fengu reynslubolta frá Bandaríkjunum til að lýsa því sem gert er þar í landi. Lýstu þeir því hvernig hægt er að sætta ólík sjónarmið með góðu skipulagi fremur en með boðum og bönnum. Með mikla reynslu af stjórnun vegslóða Það voru Ferða- og útivistarfélagið Slóðavinir, Ferðaklúbburinn 4x4, Skotvís, og LÍV sem buðu Bandaríkjamönnunum Russ Ehnes og Tom Crimmins í lok nóvember til fyrirlestrahalds á Akureyri, Selfossi, Borgarnesi og í Reykjavík. Voru fyrirlestrarnir undir yfirskriftinni Framtíð ferðalandsins – Málþing um skipulag og stjórnun vega utan alfaraleiða. Þar miðluðu þeir félagar af fróðleik sínum um stjórnun vegslóða í Bandaríkjum. Russ Ehnes er framkvæmdastjóri NOHVCC-samtakanna (National Off-Highway Vehicle Conservation Council) og hefur áratuga reynslu af stjórnun umferðar á fáförnum ferðaleiðum. Tom Crimmins er fyrrverandi starfsmaður US Forest Service (Skógræktarstofnun Bandaríkjanna) til 32 ára og með 20 ára reynslu af stjórnun vegslóða. Hann er einnig höfundur bókarinnar Management Guidelines for OHV Recreation. Íslensk skipulagsyfirvöld gætu án efa lært mikið af reynslu þessara manna en frekar fáir úr þeim geira munu þó hafa mætt á fundina. Að loknum hverjum fyrirlestri gáfu Russ og Tom sér tíma fyrir stutt spjall til að skýra nánar ýmis atriði sem komu fram á fundunum. Ný lög talin geta valdið miklum skaða Tilefni komu þeirra félaga frá Bandaríkjunum er að nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til náttúruverndarlaga sem ofantöld útivistarfélög telja að muni að óbreyttu skerða verulega starfsemi og tilgang starfsemi sinnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, m.a. fyrir ferðaþjónustuna. Telja þessi samtök að ef frumvarpið verði óbreytt að lögum muni það beinlínis valda landinu skaða. Samkvæmt tillögunni eiga Landmælingar Íslands að útbúa kortagrunn með þeim vegum og vegslóðum sem má aka, en þeir vegir og slóðar sem ekki verða á kortinu verða flokkaðir sem bannsvæði til aksturs (flokkast sem utanvegaakstur). Þetta getur m.a. átt við um vegslóða meðfram ám og vötnum sem stangveiðimenn nota og einnig slóða sem bændur nota við smölun. Í fundarboði komu fram nokkrar spurningar sem Tom og Russ svöruðu með ágætum á fundinum: umhverfisvæn? fyrir ólíka ferðahópa? vegslóð? vegur að vera fyrir alla umferð? lokun? nýta vegi? skilgreindum svæðum utan vegakerfis? Umhverfisslys að merkja ekki alla slóða Þeir Russ og Tom höfðu greinilega undirbúið sig vel fyrir Íslandsförina, en fyrir þá höfðu lagadrögin verið þýdd á ensku. Að mati þeirra félaga væri það umhverfisslys að gefa út kort þar sem einungis eru vegirnir og slóðar þar sem má keyra en ekki allir vegslóðar. Einnig hversu stuttur tími er ætlaður til að mæla og ákveða hvaða vegir og slóðar eiga að vera opnir. Óskiljanlegar og lélegar merkingar Russ hafði komið til Íslands áður og ferðast, en hann gagnrýndi merkingar á vegslóðum. Þar sem hann ferðaðist voru nánast ekki neinar merkingar og ef það voru einhverjar merkingar voru þær óskiljanlegar og ófullnægjandi fyrir hann sem útlending. Sagði hann að það vantaði alls staðar upplýsingar um veginn s.s. hver mætti aka veginn, hversu löng leiðin væri, hversu þung ökutæki mættu aka veginn og fleira. Stikanir og merkingar vega og vegslóða væru hins vegar grundvöllur fyrir náttúruvernd. Án þeirra yrði umferð um óbyggðir skipulagslaus. Vegir og vegslóðar geta stuðlað að umhverfisvernd NOHVCC (National Off-Highway Vehicle Conservation Council) byggir starfsemi sína á fræðslu og forvörnum til umhverfismála, en lagning vega og vegslóða getur þar spilað stórt hlutverk til að koma í veg fyrir skipulagslausan utanvegaakstur. Frístundavegir eru líka oft lagðir vísvitandi með miklum beygjum og krókaleiðum þannig að þeir falli vel inn í landslagið. Venjulegir akvegir eru hins vegar oftast áberandi í landslagi, eru yfirleitt uppbyggðir til að forðast snjósöfnun og hugsaðir til að ná fram stystu mögulegu samgönguleiðunum. Góðar merkingar og upplýsingar grundvallaratriði Russ rekur búgarð þar sem göngufólk, hestar, fjórhjól og mótorhjól nota sömu slóðirnar án nokkurra vandræða. Landið er ekki stórt en slóðir á landinu eru nokkuð langar og lagðar með það í huga að þær þurfi ekki mikið viðhald. Kort og merkingar eru það sem lagt er mikið upp úr á búgarði hans. Ekki ósvipað og á Bolaöldusvæðinu hjá Vélhjólaíþróttaklúbbnum við Litlu kaffistofuna, en það svæði skoðaði Russ þegar hann kom til Íslands 2009 og fannst það vera til fyrirmyndar. Séu sérstök aksturssvæði s.s. mótókrossbrautir eða vegslóðakerfi, þurfa þau að vera aðgengileg og sjáanleg fyrir notendur. Sagði Ross að kort með upplýsingum og skilmerkilegar reglur væru einnig nauðsynleg á svona svæðum eins og sjálfsagt þykir á öðrum ferðamanna- og útivistarsvæðum. Tom sagði að grundvallaratriði í náttúruvernd væru merkingar og upplýsingar. Hönnun og lega vegslóða skiptu líka miklu máli. Lykillinn væri að allir notendur frístundavega kæmu sínum sjónarmiðum að og með réttri hönnun ætti ekki að þurfa mikið viðhald á vegslóðum. Samt þyrfti stundum að setja hámarksþunga ökutækja á vegi sem lægju eftir misblautu landslagi. Útivistarfólk sem notaði gamla vegi og vegslóða ætti að standa saman og samnýta sem mest vegi og slóða. Einnig þyrftu ólíkir hópar að sýna þroska og samstöðu í að halda leiðum opnum og tryggja að einhverjir hópar væru ekki útilokaðir umfram aðra frá notkun á til þess gerðum slóðum. Breydd slóða endurspegli nýtingarmöguleika Varðandi breidd vega sagði Tom að í Ameríku væru þrjár megintegundir vega; 24 tommu slóðir (0,6 metra einstígi) ætlaðar gangandi og ríðandi umferð, reiðhjólum og mótorhjólum; 50 tommu vegir (1,27 metrar) ætlaðir fyrir ofantalið og fjórhjól; og vegir yfir 50 tommum (yfir 1,27 metrar) ætlaðir bílum og öllum ofantöldum. Tillitssemi notenda gagnvart öðrum sem um vegina mega fara er þar líka lykilatriði. Gamlir vegir sem lagðir voru fyrir 50-80 árum eru oft mjóir og þola ekki nútíma umferð en henta oft vel í frístundaakstur. Tom telur að það sem einna helst skemmi þessa gömlu vegi séu mjög þungir nútímabílar. Telur hann að ráðið sé oft að setja hámarksþungatakmarkanir á slíka vegi. Þegar rætt er um viðhald eru til notendur sem vilja vonda vegi sem ástæðulaust er að loka þó að ekki geti allir ekið leiðina. Þarfir notenda geta verið mismunandi og mörgum þykir t.d. óæskilegt að lagður verði malbikaður vegur yfir Kjöl af þessum ástæðum. Við hönnun leiða telja þeir félagar mikið atriði að reyna að hringtengja vegslóðakerfi og gera ráð fyrir útsýnisstoppistöðum. Slíkt ætti að minnka líkur á að ekið sé út af slóð m.a. til að stytta sér leið til baka. Að sögn Toms verður þó aldrei hægt að uppfylla óskir allra. Þarfir notenda eru mismunandi en fyrst og fremst ætti að skoða alla þá möguleika sem flestir hópar gætu sameinast um. Nánar er hægt að fræðast um starfsemi NOHVCC á vefsíðunni www.nohvcc.org. /HLJ Tom Crimmins og Russ Ehnes kom til Íslands í nóvember og kynntu hvernig Bandaríkjamenn skipuleggja lagningu slóða og stýra umferð um viðkvæm svæði. Mynd / HLJ Merkingar sem Bandaríkjamenn nota til að auðkenna hvaða umferð sé ley leg um viðkomandi stíga eða vegi. Dæmi um „góða“ íslenska slóðamerkingu á Bolaöldusvæðinu. Þó að þessar merkingar séu um margt ágætar er vonlaust fyrir útlendinga að átta sig á þeim. Dæmi um hindranir á vegslóða í Bandaríkjunum. Auðskiljanlegar skýringarmyndir sýna hverjir mega fara um slóðann og hverjir ekki.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.