Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 37

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 37
37Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Vélabásinn Skrúfaðir Best-Grip naglar: Geta naglar leyst hálkuvandamál dráttarvéla og fjórhjóla? Í þessum pistli mínum ætla ég að deila smá fróðleik frá mér og viðmælendum mínum um nagla og keðjur vegna þess að fyrir nánast öllu Norðurlandi er mikill klaki sem hefur gert mönnum erfitt fyrir í mörgum tilfellum, en fyrir nokkru heyrði ég sögu af manni sem lenti í erfiðleikum við að sækja heyrúllu á dráttarvél og rann stjórnlaust tugi metra sökum hálku. Keðjur eru hlutur sem allir treysta enda er virkni þeirra á svelli góð, en að kaupa keðjur getur verið kostnaðarsamt því par af stálkeðjum á framhjól geta kostað frá 150-170 þúsund og á afturhjól er verðið frá 200- 250 þúsund parið. Að keðja dráttarvél allan hringinn gæti því farið upp í 400 þúsund (fyrir utan virðisaukaskatt). Til er lausn sem gæti hugsanlega gagnast mörgum, en það eru naglar sem heita Best Grip og fást hjá Kletti hjólbarðadeild, Klettagörðum 8-10. Þessir naglar eru mislangir, standa mislangt út og eru ætlaðir í ýmis vélknúin tæki, skó og jafnvel hesta (www.best-grip.com en á þessari síðu má finna miklar upplýsingar um stærðir og hvernig naglarnir eru settir í og teknir úr dekkjum ásamt fleiru). Í stofnkostnaði eru þessir naglar frekar dýrir og kostar stykkið 120 krónur, en naglarnir duga vel og eru sterkir. Sjálfur hef ég ekki mikla reynslu af þessum nöglum, en ég er með svona nagla í gönguskónum mínum, sex nagla í hvorum skó, og er mjög ánægður (allavega skárra en hefðbundnir mannbroddar að mínu mati). Til að afla mér upplýsinga um notkun á svona nöglum á gröfum og dráttarvélum hringdi ég í nokkra aðila sem hafa notað svona nagla við mismunandi aðstæður og með mislöngum nöglum. Með Best-Grip nagla í stað keðja Einar Halldórsson er gröfumaður á Ísafirði og hefur í mörg ár mokað snjó á Ísafirði og víðar, en fyrir áeggjan Guðmundar Einars í Bílaverinu á Ísafirði fékk Einar sér Best-Grip nagla í afturhjólin á gröfunni hjá sér í stað keðja. Bílaverið á Ísafirði er söluaðili fyrir Best-Grip nagla og má sjá allar mismunandi tegundirnar á vefslóðinni www.parts4u.is. Einar er nú á fjórða vetri með sömu naglana, sem hann skrúfar úr á vorin í í á haustin. Hann er með þrjá nagla í hverri spyrnu í afturhjólunum, sem gerir 120 nagla í hvort dekk, en síðastliðið haust bætti ég við 13 nöglum. Það eru öll afföllin af 240 nöglum á þrem vetrum hjá mér á 9 tonna gröfu sem sýnir hversu sterkir naglarnir eru sagði Einar. Hins vegar nota ég alltaf keðjur að framan, en meðan ég var með keðjur allann hringinn dugðu keðjurnar mér tvo til þrjá vetur og er því ávinningurinn augljós. Naglarnir sem Einar er með í sinni vél eru stærstu naglarnir og heita 1800. Ægir Sigurgeirsson, Stekkjadal í Húnavatnssýslu, er með stystu og minnstu naglana frá Best-Grip sem ég talaði við, naglarnir standa um 3-4 mm út úr spyrnunum á Valtra 6850 dráttarvélinni hjá Ægi. Hann skrúfaði tvo nagla í hverja spyrnu að framan og þrjá að aftan. Ægir sagði að vissulega væru keðjur öruggari, en naglarnir halda vel við. Þetta er svipað og á bíl með nöglum, heldur við og er betra. Þar sem naglarnir standa svona stutt út á hann ekki von á því að vera neitt að taka naglana úr í vor, þar sem hann notar vélina mest heima við, fjarri öllu malbiki. Nýtast líka fyrir fjórhjól Þórður Halldórsson, Laugaholti við Ísafjarðardjúp, notar Best-Grip nagla í traktorinn sinn og fjórhjólið. Hann er með nagla sem heita 1910T, en þessir naglar standa um 5 mm út úr dekkjunum þegar þeir eru komnir á sinn stað. Þórður setti þrjá nagla í hverja spyrnu bæði á framdekkjunum og að aftan (um 120 stk. í afturdekkin og um 100 að framan) á dráttarvélinni. Í fjórhjólið fór einn nagli í hvern kubb. Bæði á traktornum og á fjórhjólinu gefur þetta gott grip og er ég mjög ánægður, sérstaklega með fjórhjólið, og mæli ég með því að menn setji þessa nagla í fjórhjól og sexhjól eftir mína reynslu á fjórhjólinu. Það eina sem maður þarf að passa er að láta ekki borvélina spóla í farinu við ísetningu á nöglunum, en til öryggis mæli ég með því fyrir þá sem ætla að setja svona í dekk að fá sér a.m.k. einn aukalykil (bita) framan á borvélina því að við eitt spól á nagla getur maður auðveldlega skemmt ísetningarbitann, sagði Þórður. Pierre Davíð Jónsson á verktakafyrirtækið Nautási á Hellu hefur í mörg ár verið við snjómokstur víða um landið. Hann fékk sér stærstu naglana, sem heita 1800, og sagði um þá að þetta væri einfalt: Þessir virka og þó er ég búinn að prófa marga nagla í gegnum árin frá öðrum. Þessir virka best, sagði Pierre. Mín persónulega reynsla er engin af þessum nöglum fyrir utan skónaglana mína, en miðað við svör manna sem reynslu hafa af þessum nöglum virðist hún vera jákvæð í alla staði, en þó að naglarnir séu dýrir í stofnkostnaði virðist endingin vera það góð að fjárfestingin borgi sig. Hins vegar vil ég gefa mönnum það ráð að mæla vel hversu mikið gummi er á hjólbörðunum með það í huga að kaupa ekki nagla með of löngum skrúfgangi inn í gúmmíið svo að skrúfgangurinn fari ekki í gegn og loft fari að leka með nöglunum. Sundlaugin á Blönduósi er hluti af Íþróttamiðstöðinni Blönduósi og stendur við Melabraut 2. Laugin er nánast ný, en hún var opnuð 16. júní 2010. Laugin er 25x8,5 metrar að stærð en auk þess eru við hana tveir heitir pottar, vaðlaug, tvær stórar rennibrautir og gufubað. Góð sólbaðsaðstaða er við laugina og yfirsýn er góð yfir sundlaugarsvæðið, sem fjölskyldufólk kann að meta. Á síðasta ári sóttu 35.000 gestir sundlaugina, þar af komu 21.000 gestir í maí til ágúst. Í íþróttamiðstöðinni er einnig íþróttahús og líkamsrækt. Sundlaugin á Blönduósi hefur sérstöðu varðandi klórkerfi sitt. Fest voru kaup á búnaði til framleiðslu á klór, en framleiðslan á sér stað með rafgreiningu og er salt eina afurðin sem þarf í framleiðsluna ásamt rafmagni og vatni. Helstu kostir kerfisins fyrir sundlaugargesti eru að klórlykt minnkar, sviði í augum minnkar verulega, húðerting er minni og að auki er þetta vistvænna fyrir starfsfólk, þar sem enginn hefðbundinn klór eða önnur hættuleg efni eru flutt milli staða. Kerfið er því umhverfisvænna en gengur og gerist og samrýmist vel umhverfisstefnu Blönduósbæjar. Sundlaugin á Blönduósi er opin til 21.00 alla virka daga nema föstudaga en þá er henni lokað klukkan 17.00. Mánudaga, miðvikudaga og föstudaga er opnað klukkan 6.30 en klukkan 7.45 á þriðjudögum og fimmtudögum. Á laugardögum er opið frá 10.00 til 16.00 en lokað á sunnudögum. Frekari upplýsingar má fá í síma 452-4178 eða með því að senda tölvupóst á netfangið robert@blonduskoli.is. Sundlaugin á Blöndósi Laugar landsins Vélaprófanir hlj@bondi.is Hjörtur L. Jónsson Sýnishorn af Best-Grip nöglum hjá sölumanni í Kletti. JCB-grafan hjá Einari Halldórssyni. Best-Grip skónaglasett frá Kletti. Á fjórða vetri var enn töluvert eftir af nöglunum hjá Einari.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.