Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Orkusetur fer fyrir evrópska verkefninu Promise: Á að stuðla að orkusparnaði og vitund um orkunýtni á heimilum Flestir myndu setja raforku á lista yfir þær vörur sem þeir gætu síst verið án og í nútíma samfélagi væri líklega fátt sem myndi toppa hana fyrir utan matvöru. Samt sem áður er raforku kostnaður hverfandi hluti af heildarútgjöldum flestra heimila. Samkvæmt rannsókn Hagstof- unnar á útgjöldum heimilanna 2009 var hluti raforku og hita samanlagt innan við 3% af heildarútgjöldum heimila. Líklega myndu fáir gefa mikilvægi raforku á heimilum jafnlága einkunn og sem nemur hlutfalli hennar af heildarútgjöldum. Einn hópur orkunotenda er finnur þó meira fyrir orkukaupum en aðrir, en það eru þeir sem búa við rafhitun. Þó raforka hér á landi sé frekar ódýr sem slík þá getur orkukostnaður orðið íþyngjandi ef nauðsynlegt er að kaupa 5-10 sinnum meira af henni en meirihluti heimila á landinu. Raforka er verðmætari orka en jarðvarmi og því eðlilega dýrari í innkaupum. Sem betur fer búa 90% landsmanna við þau lífsgæði að geta nýtt sér hræódýran jarðvarma til að mæta orkufrekasta þætti heimila, þ.e. upphitun. Um 10 prósent landsmanna hafa hins vegar ekki aðgang að þessari auðlind og þurfa að notast við rafhitun. Slík hitun er margfalt dýrari og til að koma í veg fyrir að lítill hluti landsmanna þurfi að greiða margfalt hærra verð fyrir upphitun íbúðarhúsnæðis er raforka til hitunar niðurgreidd að hluta. En þó að niðurgreiðsla komi til er niðurgreidd rafhitun talsvert dýrari en sá jarðvarmi sem flestir landsmenn búa við. Promise-verkefnið Orkusetur fer fyrir evrópska verkefninu Promise sem á að stuðla að orkusparnaði og vitund um orkunýtni á heimilum þátttökulanda. Á Íslandi er markhópurinn einmitt notendur með rafhitun. Verkefnið er styrkt af Intelligent Energy – Europe (IEE) sjóði Evrópu- sambandsins. Með því að deila upplýsingum og reynslu milli Samsø (Danmörk), Íslands, Ródos (Grikkland) og Tenerife (Spánn) er markmiðið að innleiða aðferðir til að draga úr orkunotkun heimila. Á heimasíðu Promise (www.iee- promise.eu/iceland) má finna ýmsar reiknivélar sem aðstoða notendur við að átta sig á áhrifum og fýsileika ýmissa aðgerða sem draga úr orkunotkun. Þannig er hægt að lækka orkureikning íbúa án þess að draga nokkuð úr lífsgæðum. Í komandi Bændablöðum verða þessi þjónustutól kynnt betur og byrjað á raforkuverðinu. Hvað kostar raforkan? Það er ekki auðvelt fyrir alla að átta sig á hvað raforkan kostar, enda eru raforkureikningar flóknir og þar að auki tvískiptir. Raforkukaup í dag fylgja sömu reglum og sófakaup, þar sem greitt er sérstaklega fyrir sófann sjálfan og síðan fyrir flutninginn á honum heim. Dreifing raforku er sérleyfisþáttur og notendur verða að vera í viðskiptum við dreifiaðilann í þeirra sveitarfélagi. Sala á raforku er hins vegar á samkeppnismarkaði og öllum er frjálst að skipta um orkusöluaðila. Fátt slær þó út flækjustig rafhitunarverðs. Rafhitunarverði er skipt í flutning, dreifingu og sölu. Upphæðirnar eru mismunandi eftir dreifiveitum og söluaðilum en einnig eftir því hvort húsnæðið er skilgreint í dreifbýli eða þéttbýli. Ofan á þetta koma tvö virðisaukaskattsþrep og orkuskattur en einnig niðurgreiðsla með ákveðnu þaki, auk þess sem hún er breytileg eftir hverri dreifiveitu. Ótrúlegt en satt þá er nákvæmlega sama vara, það er að segja ein kWst af raforku, í tveimur virðisaukaskattsþrepum. Það fer sem sagt eftir því hvort hún er notuð til að hita kaffi (25,5% VSK) eða til húshitunar (7% VSK). Til að auðvelda raforku- kaupendum að átta sig á raforkukostnaði heimila og bera saman verð mismunandi söluaðila hefur Orkusetur sett upp einfalda reiknivél á heimasíðu sinni. Hægt er að nálgast reikni- vélina á eftirfarandi slóð (http://orkusetur.is/id/12384) en þar er hægt að sjá verð þeirra sex aðila sem selja rafmagn á markaði í dag. Þó að verðmunur sé ekki yfirþyrmandi á milli fyrirtækja þarf það ekki endilega að þýða skort á samkeppni. Öll fyrirtækin eru að selja nákvæmlega sömu vöru og ættu því að elta, eftir bestu getu, lægsta boð hverju sinni. Verðþróun á söluhluta raforku hjá öllum orkusöluaðilunum hefur til dæmis haldist undir vísitölu neysluverðs, ólíkt sumum dreifiveitunum sem hækkað hafa umfram vísitöluna undanfarin ár. Orkusetur minnir á að tvær leiðir eru til að lækka orkureikning heimila. Annars vegar er hægt að lækka verð á hverja kWst, sem er einungis á færi orkufyrirtækjanna, en hins vegar er hægt að minnka orkunotkun með ýmsu móti, en henni stjórna íbúarnir sjálfir og geta auðveldlega breytt ýmsu án þess að draga nokkuð úr lífsgæðum. Ýmis ráð um slíkt má finna á heimasíðu Promise sem kynnt verða betur í næstu blöðum. /OS/SIF Orkumál Orkusetur Hlutverk Orkuseturs er að stuðla að aukinni vitund almenn- ings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar. Stofnunin er með aðsetur á Akureyri, en framkvæmdastjóri hennar er Sigurður Ingi Friðleifsson. Verkefni Orkuseturs eru einnig á sviði nýrra orkugjafa og gerðar fræðsluefnis. Orkusetrið er óháð og sjálfstæð eining sem vinnur að markmiðum sínum sem eins konar tengiliður milli stjórnvalda, almennings, fyrirtækja og stofnana. Orkusetrið er stofnað af Orku- stofnun í samstarfi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu auk þess sem Samorka kemur að fjármögnun setursins. Innan orkusviðs Evrópusambandsins (ESB) er að finna sjóð undir heitinu Intelligent Energy – Europe (IEE). Meðal þeirra verkefnaflokka sem IEE er ætlað að styrkja er stofnun svokallaðra orkusetra eða orkuskrifstofa (e. Energy Agencies) í aðildarlöndunum. Þeim er ætlað að starfa svæðisbundið og hafa þegar verið stofnaðar um 350 slíkar skrifstofur að tilstuðlan IEE víðs vegar um Evrópu. Eldsneytiskostnaður í dráttarvélarekstri: Hægt að spara drjúgan pening með einföldum aðgerðum Dráttarvélaframleiðendur hafa á undanförnum árum verið mjög uppteknir við að finna leiðir til að bæta orkunýtingu véla sinna. Samkvæmt bandarískum rannsóknum getur eldsneytis- og smurolíukostnaður í rekstri dráttarvéla numið frá 16% til 45% af heildarkostnaði í rekstri. Sérfræðingar John Deere- dráttarvélaverksmiðjanna í Evrópu gerðu fyrir nokkru athugun á eldsneytiskostnaði við rekstur dráttarvéla. Kom í ljós að kostnaðurinn við að láta dráttarvélar standa í lausagangi úti á túni eða akri samsvaraði um 6% af árlegri orkueyðslu við notkun dráttarvéla. Á grein í Farmers Journal á síðasta ári var fjallað um eldsneytis- eyðslu dráttarvéla og hvernig ætti að spara dísilolíu. Þar er greint frá því að eyðsluprófanir séu gerðar á nánast öllum dráttarvélum sem seldar eru, allavega í þróaðri ríkjum. Þar er m.a. um að ræða svokallað OECD-traktorspróf sem framkvæmt er í Þýskalandi og víðar í Evrópu en einnig í American Test Center í Nebraska í Bandaríkjunum. Niðurstöður þessara prófana gefa síðan eyðslutölur sem framleiðendur nota og eru þær í samræmi við fyrir fram ákveðin skilyrði sem sett eru við prófanir. Á því að vera nokkuð öruggt að bera saman uppgefnar eyðslutölur á milli framleiðenda. Því eiga menn að geta treyst þeim eyðslutölum, en þó ber alltaf að hafa í huga þær forsendur sem gefnar eru í prófunum. Aðstæður í raunveruleikanum eru oft allt aðrar. Eyðslutölur sem bóndinn sér í sínu bókhaldi geta því verið talsvert hærri en uppgefnar eyðslutölur framleiðenda. Einfaldasta leiðin til að spara eldsneyti er að vera með eins litla inngjöf og kostur er og nota gírskiptingu rétt. Þá er snúningshraða mælir á vél einnig gott tæki til að sjá hvenær vélin er farin að eyða meira eldsneyti en æskilegt er. Ef menn eru að setja meira álag á vélina en góðu hófi gegnir og auka eldsneytisinngjöf er það bein ávísun á hærri eldsneytisreikning. Gott viðhald véla og smurolíu- skipti á réttum tíma skipta miklu máli ekki bara hvað varðar endingu vélanna, heldur líka varðandi eldsneytissparnað. Réttur loft- þrýstingur í dekkjum og ballest til að ná réttu gripi á drifhjólum getur líka skipt mjög miklu máli. Ef um stórar dráttarvélar er að ræða er hægt að spara þó nokkra lítra á klukkutíma með því einu að drepa á tækinu þegar ekki er verið að nota það. Þá bendir greinarhöfundur á að flestir bændur velji sér öflugri dráttarvélar en þeir raunverulega þurfi. Það þýði að meiri olíu sé eytt en nauðsynlegt er. Raunar verði eyðslan líka meiri ef notaðar séu aflminni vélar en verkefnin krefjast. Það er því að mörgu að hyggja ef menn ætla að halda rekstarkostnaðinum í lágmarki. Forsetinn á heimsþingi um hreina orku og vatnsbúskap: Zayed-orkuverðlaunin afhent – ráðgjafarhópur um orku og öryggi stofnaður Heimsþing um hreina orku og vatnsbúskap veraldar var haldið í Abu Dhabi í síðustu viku. Þar voru afhent Zayed-orkuverðlaunin (Zayed Future Energy Prize), en forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er formaður dómnefndar. Verðlaunin, sem kennd eru við landsföður Sameinuðu arabísku furstadæmanna, hafa á skömmum tíma orðið ein virtustu orkuverðlaun í veröldinni. Heimsþingið sækir fjöldi þjóðarleiðtoga, ráðherra og forystufólks í viðskiptum og vísindum hvaðanæva úr heiminum. François Hollande, forseti Frakklands, Cristina Fernández de Kirchner, forseti Argentínu, og Rania Jórdaníudrottning voru meðal ræðumanna við setningu þess í gær. Í ræðu sinni við verðlauna- afhendinguna áréttaði forseti Íslands að fárviðri, frosthörkur, flóðbylgjur, skógareldar og aðrar hamfarir í veðri víða um veröld sýndu að loftslag jarðarinnar væri að fara úr skorðum. Bráðnun íss á norðurslóðum leiddi til fimbulkulda í Norður-Kína og fellibylja í Bandaríkjunum. Sjávarborð um heim allan gæti hækkað um 20 metra ef helmingur Grænlandsjökuls og fjórðungur íss á Suðurskautslandinu hyrfu á þessari eða næstu öld. Þúsundir borga myndu þá sökkva í hafið. Breytingar á orkubúskap jarðarbúa væru eina örugga leiðin til að forða mannkyni frá þessum ósköpum. Þess vegna fælu Zayed-orkuverðlaunin í sér mikilvæg skilaboð og sýndu hverju samspil tækni og hugsjóna gæti áorkað. Forseti Íslands flutti einnig ávarp á kynningarfundi sem haldinn var á heimsþinginu. Á fundinum var stofnaður ráðgjafarhópur um orku og öryggi, Task Force on Energy and Security, sem starfa mun á vegum Alþjóðlegu friðarstofnunarinnar, International Peace Institute. Í tengslum við heimsþingið er haldin stór sýning sem helguð er endurnýjanlegri orku, orkusparn- aði og öruggum og sjálfbærum vatnsbúskap. Fjöldi fyrirtækja kynnir tækninýjungar og starfsemi sína á sýningunni og mörg þjóðlönd eru þar með sérstaka bása. Jarðhitafyrirtækið Reykjavík Geothermal er meðal þeirra fyrirtækja sem taka þátt í sýningunni og jafnframt sitja nokkrir íslenskir sérfræðingar heimsþingið. Óli Grétar Sveinsson, framkvæmda- stjóri hjá Landsvirkjun, er meðal frummælenda í málstofu um vatns- orku og Þorsteinn Guðnason frá Aqua Omnis tók þátt í málstofum um útflutning á vatni og vatnsbúskap. Lækkun orkukostnaðar mikið hagsmunamál fyrir Grímseyinga: Leit að heitu vatni verði haldið áfram Kostnaður Grímseyinga við að hita upp hús sín er gríðarlegur, en olía er notuð til að hita upp híbýli Grímseyinga. Í fyrrasumar var hafist handa við átak sem miðaði að því að lækka orkukostnað íbúa eyjarinnar. Annars vegar stóð Orkusetur fyrir því að gleri í þeim íbúðarhúsum sem nutu niðurgreiðslu var skipt út fyrir nýtt og gripu margir tækifærið í leiðinni og skiptu um glugga og jafnvel hurðir. Þá bauðst íbúum einnig styrkur til að einangra þök á húsum sínum og þáðu hann allflestir. Markmiðið með þessu átaki var að minnka olíunotkun og þar með orkukostnað íbúanna. Fyrir fram var búist við að hægt yrði að lækka kostnað notenda sem og ríkissjóðs um allt að 25% til viðbótar þeim sparnaði sem áður hafði náðst með öðrum aðgerðum. Kostnaður við aðgerðirnar á liðnu sumri nam 12,5 milljónum króna í allt, 7,5 milljónir fóru í einangrun á þökum og 5 milljónir til glerskipta. „Átakið hefur skilað árangri, við sjáum það, en okkur þykir samt ástæða til að halda áfram leit að heitu vatni,“ segir Jóhannes Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyjar. Jóhannes segir lækkun orku- kostnaðar mikið hagsmunamál fyrir Grímseyinga, enda vegi sá kostnaður drjúgt í heimilisbókhaldi þeirra. Vissulega sé gott að tekist hafi með nýju gleri og betri einangrun að lækka kyndikostnaðinn, en hann sé eftir sem áður svimandi hár. Hann nefnir að sjálfur búi hann í 190 fm húsi og þurfi á bilinu 3 til 500 lítra af olíu á mánuði til að kynda það. „Orkureikningarnir hafa eitthvað lækkað í kjölfar á þessum aðgerðum í fyrrasumar en við erum enn að borga alltof mikið,“ segir hann og bendir á að íbúar vilji endilega láta á það reyna hvort ekki finnist heitt vatn í námunda við eyna sem hægt væri að nýta til að hita upp húsin. Hann segir að borað hafi verið eftir heitu vatni fyrir fáum árum og menn komið niður á 70 til 80 gráðu heitt vatn, en rennslið hafi ekki þótt nægilegt. „Við viljum gjarnan láta á það reyna hvort ekki finnst hér í nágrenninu nægilegt magn af heitu vatni sem gæti nýst okkur til húshitunar,“ segir Jóhannes. /MÞÞ

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.