Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 34

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Lesendabás Hvers vegna er ekki þörf á að fylgjast með ástandi dráttar- véla? Á miðri aðventu þegar allar alvöru húsmæður voru önnum kafnar við að baka og þrífa fór ég á vinnuvéla námskeið á Stóra-Ármóti sem LBHÍ stóð fyrir í samvinnu við BSSL. Ég skráði mig nú ekki af því að ég ætti von á því að þetta væri eitthvað sérstaklega skemmtilegt námskeið, hef nú ekki mikinn áhuga á dráttar vélum eða vinnuvélum yfirleitt og fór því ekki af stað með miklar væntingar. En það sem rak mig af stað var það að ég hef unnið á dráttar vélum undanfarin 45 ár án þess að hafa náð mér í nokkur til þess gerð réttindi. Þótt það eigi að heita svo að við séum með réttindi á dráttarvélar á meðan við erum að vinna á okkar búum finnst mér alltaf hálf hallærislegt fyrir okkur bændur að vera á einhverjum undanþágum, hvort sem það er til að aka dráttarvélum eða undanþágur frá bókhaldsskilum eða hverju sem er. En námskeiðið kom mér þægilega á óvart, þetta voru tveir dagar á milli mjalta, eins og sniðið fyrir kúabændur og bæði mjög fróðlegt og skemmtilegt. Það skiptist í tvo hluta með sitt hvorn fyrirlesarann. Fyrri hlutinn var um vinnuvernd en seinni hlutinn var um dráttar- og vinnuvélar. Fyrirlesararnir voru góðir, líflegir og héldu í það minnsta athygli minni ágætlega og það sem mér líkaði best var að þeir voru ekki fastir í reglugerðartali heldur höfðuðu til almennrar skynsemi og miðluðu okkur óspart af reynslu sinni. „Slysin gera alltaf boð á undan sér“ Vinnuverndarhlutinn fannst mér alveg ótrúlega áhugavekjandi og slagorðið sem kennarinn notaði og rökstuddi með reynslusögum, „Slysin gera alltaf boð á undan sér“, varð til þess að ég dreif mig í að setja þessi orð niður á blað. Mér finnst að allir bændur eigi að vera skyldugir til að sækja svona vinnuverndarnámskeið á nokkurra ára fresti. Við kúabændur erum með víðtækan og flókinn rekstur, mikinn vélbúnað og gjarnan með fólk í vinnu, og yfirleitt er það ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðinum. Það er okkur alveg nauðsynlegt að staldra við af og til og fá ráðleggingar og ábendingar um það hvar hætturnar eru mestar og hvað við getum gert betur. Hvað megi betur fara hjá okkur með tilliti til slysavarna. Við sem vinnum okkar rútínustörf árum saman dofnum fyrir hættunum. Það er ekki nokkur bóndi sem óskar þess að lenda í slysi og því síður að koma að gestum eða vinnufólki slösuðu. En því miður eru það alltaf nokkrir sem lenda í því á ári hverju og í nær öllum tilvikum hefði verið hægt að forða slysi ef allur vélbúnaður hefði verið rétt úr garði gerður eða viðkomandi gert grein fyrir hættunum áður en verk var hafið. Ég þurfti að upplifa það sjálf þrettán ára gömul að koma að dauðaslysi og það slys hefði ekki orðið ef allar slysavarnir hefðu verið viðhafðar, þannig að ég get talað af eigin reynslu. Undarleg forgangsröðun Það er alveg ótrúleg gloppa í lögum að dráttarvélar skuli ekki vera skoðunarskyldar. Það er undarleg forgangsröðun hjá eftirlitsaðilum að eltast við það að athuga hvort marmelaði eða sulta eða brauð sem er til sölu á bændamörkuðum séu framleidd í vottuðu eldhúsi en dráttarvélafloti landsmanna geti verið óskoðaður árum saman. Mér finnst það ótrúlega skrítið að ég má eiga margar stórar dráttarvélar, rúlluvél og allar hugsanlegar heyvinnuvélar og vinna í verktöku hjá öðrum, jafnvel keppa við vörubíla, en það fylgist enginn með því hvort ég sé með tækin í lagi. Ég gæti verið á bremsulausum dráttarvélum úti í umferðinni með rúlluvél án drifskaftshlífar í eftirdragi keyrandi með rúllu- tindana í höfuðhæð ökumanna sem ég mæti og ljóskastarana á fullu bæði að aftan og framan (eins og sumir tíðka á þjóðvegunum) og enginn skoðar okkur. En ef ég kaupi mér lítinn liðlétting í fjósið þá kemur Vinnueftirlitið strax og skoðar hann. Ég veit að þarna er ekki við vinnueftirlitið að sakast heldur löggjafann og fjárveitingavaldið og ég vil skora á Bændasamtökin og Búnaðarþing að beita sér af alefli til að hafa þarna áhrif. Reyna að koma því til leiðar að dráttarvélar og önnur tæki heima á búunum séu skoðuð árlega rétt eins og liðléttingar. Að endingu vil ég hvetja búnaðar félög eða önnur samtök til að standa fyrir vinnuvéla-/vinnuverndar- námskeiðum úti um sveitir, en mér skilst að Vinnueftirlitið sé tilbúið að koma með námskeið fyrir 12-15 manns. Ég vil líka skora á bændur að drífa sig ef námskeið er í boði, tveir dagar á milli mála getur ekki verið óyfirstíganlegur tími en eftir stendur þú með full réttindi á dráttar vélar eða hvaða tæki þú tekur prófið á og miklu betur meðvitaður um þær slysahættur sem eru til staðar á þínu búi og hvernig er hægt að fækka slysagildrunum og koma í veg fyrir slys. Birna Þorsteinsdóttir. Er ekki þörf á að skoða dráttarvélar? Sígandi lukka Nú er að ljúka kjörtímabili þeirrar stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins sem setið hefur síðustu fjögur árin. Raunar hef ég ásamt öðrum einstaklingum setið nokkru lengur í stjórn sjóðsins. Þessi tími hefur verið afar lærdómsríkur og ánægjulegur. Þeir sem sitja í stjórn sem þessari og fara með opinbert fé sem nýta á til framleiðni og nýsköpunar í landbúnaðinum verða að hafa góða yfirsýn og umfram allt að gæta þess að ekki komi til mismununar milli einstaklinga eða fyrirtækja. Þó að ég segi sjálfur frá tel ég að ævinlega hafi stjórnin haft þau gildi að markmiði að allir sitji við sama borð, óháð landshluta, hvaða grein þeir stunda eða öðrum þáttum. Það hefur verið hrein unun að sjá og fylgjast með þróun og nýsköpun í landbúnaðinum síðustu áratugina. Nýjar greinar hafa sprottið upp eins og loðdýraræktin, sem átti erfitt um langt skeið. Stjórnvöld og þeir sem sátu í stjórn Framleiðnisjóðs höfðu óbilandi trú á að þessi grein landbúnaðarins gæti þróast og lifað hérlendis ekki síður en í nágrannalöndunum. Nú hafa þeir bændur sem sýnt hafa þrautseigju og faglega færni uppskorið erfiði síns starfs. Á síðustu árum hafa greinar eins og ferðaþjónustan og hestamennskan verið góðir viðskiptavinir sjóðsins. Ferðaþjónustan hefur dafnað vel frá því bændur hófu að leigja herbergi í íbúðarhúsum sínum og leyfa ferðafólki að fara á hestbak á hlaðinu heima auk þess að þiggja morgunkaffi við eldhúsborðið. Nú sjáum við fullbúin hótel sem hafa sprottið úr þessum jarðvegi sem veita gestum sínum þjónustu í gistingu og veitingum á við það sem best gerist í nágrannalöndunum. Afþreying hvers konar hefur þróast samhliða þessari breytingu, má þar nefna minni hestaleigur, ísklifur, siglingar, veiði, fuglaskoðun og margt fleira. Hestamennskan hefur sannarlega tekið kipp á undanförnum ára- tugum, reknar eru nú stór og smá ferðaþjónustufyrirtæki sem veita viðamikla þjónustu á þessu sviði, þar má nefna skemmri ferðir sem telja klukkustundir og síðan langar ferðir sem telja daga og jafnvel viku. Með þessari þjónustu hefur þróast breytileg gisti- og veitingaþjónusta auk sölu hrossa. Fagmennska í ræktun hesta og reiðmennsku hefur tekið stórum framförum og má það meðal annars þakka stórbættum húsakosti og aðbúnaði tamningafólks og hrossa. Þá er ekki hjá því komist að nefna þann fjölda reiðhalla eða tamningaraðstöðu innanhúss sem bændur hafa komið upp. Þar er um hreina byltingu á Íslandi að ræða hvað þessa atvinnugrein varðar. Af einstökum verkefnum sem Framleiðnisjóður hefur styrkt hefur rannsóknarverkefni á sviði hestaexems fengið hvað mesta fjárframlagið og ef mótframlög eru tekin í það dæmi eru þau fjárframlög um eitt hundrað milljónir. Verkefnið hefur verið rekið af Tilraunastöðinni á Keldum í samstarfi við fjölda aðila bæði hérlendis, í Evrópulöndum og í Ameríku. Það er sannarlega von þeirra sem hafa komið að þessu máli að það muni skila árangri hvað varðar hestaexemið en mín trú er að þetta verkefni muni jafnframt varpa ljósi á ýmislegt í sambandi við ofnæmisvandamál í fólki. Ég hætti mér ekki frekar í þessa umræðu en starfsfólkið á Keldum hefur reglulega gefið stjórn sjóðsins viðamiklar skýrslur um þetta mál. Mín von er að þau geti starfað áfram að þessu verkefni. Einn þáttur nýsköpunar sem hefur verið að ryðja sér braut í landbúnaðinum er matarvinnsla hvers konar og sala beint frá býli. Þetta er vel þekkt í nágrannalöndum okkar og á án efa eftir að aukast hérlendis og þróast miðað við það sem viðskiptavinirnir vilja sjá á þessu sviði. Þarna er afar mikilvægt að regluverk Evrópusambandsins sigli þessari þróun ekki í strand með yfirgengilegri skriffinnsku og kostnaði sem lagður er á slíka þjónustu. Vitanlega verður öryggi neytenda að vera tryggt varðandi heilbrigði og þess háttar hluti en ég óttast kostnað og óþarfa forsjárhyggju hvað þetta varðar. Orkuvinnsla hefur aðeins verið studd af sjóðnum og þá er átt við vindorku og vatnsafl, auk þess sem nú er nokkuð horft til notkunar á hálmi og öðru ræktunarefni sem hagkvæmt þykir til brennslu. Gasframleiðsla hefur verið þróuð lítilsháttar og þar eru óbeisluð tækifæri, það þekkist vel frá nágrannalöndunum. Orkubúskapur landbúnaðarins er nokkuð sem við þurfum að gefa góðan gaum á næstu árum, ekki einungis á köldu svæðunum heldur sem eldsneyti. Þar verðum við að leggja fram fjármagn til rannsókna og þróunar. Jarðræktin á eftir að taka stór- stígum framförum með aukinni þekkingu, tæknivæðingu og hlýnun. Matarvinnsla afurða jarð- ræktarinnar á eftir að eflast og gæti orðið útflutningsvara á ákveðna markaði ekki síður en lambakjötið og mjólkurvörurnar. Í öllum okkar ræktunaraðferðum erum við því sem næst með lífræna ræktun sem hvorki notar skordýraeitur né sveppalyf. Ég hef hér að ofan nefnt stærstu málaflokkana sem hafa verið á borði stjórnar Framleiðnisjóðs en fjölmörg- um þáttum hef ég ekki gert skil, eins og handverki og hlunnindanýtingu sem tengjast ferðaþjónustunni og fleiri greinum. Eftir hrunið voru fjár- veitingar til sjóðsins skornar verulega niður en vegna sterkrar eiginfjár- stöðu var hægt að koma til við móts við bændaverkefnin nær óbreytt. Fjárframlög til rannsóknar og þró- unarstarfs hafa þó verið látin víkja að sinni. Stjórnvöld verða að fylgja framþróun gróskumikils land búnaðar eftir með rannsóknar- og þróunarstarfi. Til þess þarf að auka fjármuni, sem um leið styrkir faglega stöðu þeirra stofnana sem vinna fyrir og með land- búnaðinum. Að lokum vil ég þakka því fjölmarga ágætis fólki sem ég hef kynnst á vettvangi Framleiðnisjóðs og óska þess að áfram verði horft til nýsköpunar og framleiðniaukningar af hálfu þeirra sem fara með fjárveiting- arvaldið. Fullyrða má að þeir fjármunir sem hafa verið veittir sem styrkur til bænda hafi ávallt verið margfaldaðir í formi mótframlaga af þeirra hálfu og að styrkirnir hafi auðveldað mörgum að fá lánastofnanir með í verkefnin eftir að Framleiðnisjóður hefur veitt verkefnunum brautargengi. Í athugun og eftirfylgni hefur komið í ljós að með allflest þau verkefni sem sjóður- inn hefur styrkt hafa risið arðvænlegur rekstur í kjölfarið og má þá segja að markmiðunum með slíkum stuðningi sé náð. Hlöðutúni, 14. janúar 2013, Kjartan Ólafsson. Kjartan Ólafsson Landbúnaður og náttúruvernd fara saman Íslendingar þekkja vel þá stað- reynd að afkoma okkar er háð því sem landið okkar og miðin gefa af sér. Við erum svo lánsöm að eiga miklar auðlindir sem felast í fiskin- um í sjónum, vatnsafli, jarðvarma og síðast en ekki síst landinu sjálfu. Flestir eru sammála því að rétt sé að nýta þessar auðlindir. Líkt og þeir sem hafa lífsviðurværi af sjávarútvegi vita að ekki gengur að ganga of nærri fiskveiðiauðlindinni þekkja bændur það manna besta að það borgar sig ekki að ofnýta landið því þar með eyðileggst afkoman til lengri tíma. Mikil umræða hefur skapast að undanförnu um gróður- og jarðvegseyðingu á hálendinu og er það í sjálfu sér málefni sem þarft er að ræða. Hins vegar er rétt að gera þá kröfu að sú umræða sé sanngjörn og byggi á málefnalegum sjónarmiðum. Orsakir gróður- og jarðvegs- eyðingar á Íslandi eru margvíslegar. Náttúruhamfarir, veðurfarssveiflur, búfjárbeit, ágangur álfta og gæsa, aukin umferð samfara fjölgun ferðamanna og önnur landnýting eru þættir sem eiga hlut að máli miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja. Meðal annars eru vísbendingar um að kuldaskeiðið á árunum 1780– 1920 hafi haft verulega neikvæð áhrif á gróðurfar. Til að finna leiðir til að sporna gegn gróður- og jarðvegseyðingu er mikilvægt að horfa á stöðuna eins og hún er í dag. Heyrst hafa sjónarmið um það að lausnin sé allsherjar- friðun hálendisins fyrir lausagöngu búfjár. Því er ég ósammála og tel að dæmin sýni okkur að sú leið skili ekki endilega árangri. Má þar m.a. nefna friðun afréttarins á Emstrum í Rangárvallasýslu sem nú hefur verið í gildi í um 30 ár. Það er mat margra að þar hafi lítill sem enginn sjáan- legur árangur orðið. Besta leiðin til að sporna við gróður- og jarðvegseyðingu er sú að landeigendur, nýtingarrétthafar, upp- græðslufélög og Landgræðslan vinni saman að gerð landbótaáætlunar og komi þeirri áætlun til framkvæmda. Árangurinn af landbótum sést svo á því hversu mikil vinna og fjár- munir fara í að græða upp landið. Ef mönnum er alvara með því að sporna gegn gróður- og jarðvegseyðingu er ljóst að lausnin felst í samstarfi aðila og auknu fjármagni. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Unnur Brá Konráðsdóttir Bændablaðið Smáauglýsingar 56-30-300 Hafa áhrif um land allt!

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.