Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 22

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Sigurður Sigurðarson dýralæknir: Umgengni á sveitabæjum og útigangshross – greinin er byggð á stólræðu í fjölskyldumessu í Akureyjarkirkju 28. desember 2012 Vestur-Landeyjar eru sveitin mín, þótt ég hafi flust héðan fyrir hálfri öld. Mér þykir vænt um þessa góðu sveit og ég vil veg hennar sem mestan. Ég hef fylgst með búskap og mannlífi hér úr fjarska, og úr návígi stundum. Hér voru aðstæður til búskapar bágbornar lengi, búin lítil, ræktunarskilyrði erfið. Stórir mýrarflákar gáfu reyndar af sér safaríka, kjarngóða, kúgæfa og hávaxna stör (söf). Framræsla mýranna og þurrkun landsins breytti kotunum í ræktunarbýli með arðsaman rekstur. Nú á dögum er ánægjulegt að fara um þessa sveit og sjá myndarleg bú og byggingar víða. Öll skilyrði eru í Landeyjum fyrir glæstan búskap með góðan húsakost og frjósama jörð. Þær geta orðið og munu verða Mesópótamía eða matarkista framtíðarinnar til fyrirmyndar öðrum, bæði búskapurinn og mannlífið. Að því ber að stefna, en að ýmsu þarf að huga. Hér eru nokkrar ábendingar gerðar í vinsemd. Þessi skrif eiga ekki eingöngu við sveitina mína. Vonandi vekja þau vilja einhverra til markvissra úrbóta, þar sem þeirra er þörf og fyrr en verið hefur. Ég vona að menn taki ábendingunum vel og minnist gamla máltækisins: ,,Sá er vinur sem til vamms segir.“ Umgengni á sveitabæjum Það særir mig þegar ég sé slæma umgengni utan húss á sveitabæjum, meira að segja við fjölfarna vegi. Þótt víðast sé snyrtilegt, þarf aðeins einn til að spilla áliti heillar sveitar. Það þarf að taka til hendi, hjálpa þeim til að fjarlægja ónýtar vélar og bíla, tína saman drasl, fegra og mála húsin, sem ekki geta það eða láta það dragast. Það þarf meira bein í nefið á eftirlitsaðilum og meira aðhald af umhverfinu, meiri vináttu, hvatningu og samstöðu fólksins. Hér þarf samhjálp undir forustu sveitarfélaga, hjálp fyrir fátæka og ráðalausa. Það þarf að útvega fjármagn frá samfélaginu til að létta mönnum kostnað við úrbætur. Fallegt útlit bygginga og snyrtileg umgengni eykur og viðheldur virðingu og stuðlar að tiltrú almennings á gæðum framleiðslunnar á viðkomandi bæ og í sveitinni. Sóðaskapur og slóðaskapur einstakra manna bitnar á öllu samfélaginu, líka á þeim sem standa sig vel, og spillir því góða orðspori sem landbúnaðurinn nýtur með réttu. Ógeðslegar myndir voru sýndar í sjónvarpsfréttum fyrir jól 2012 frá bæ í Borgarfirði með mjólkurkýr í húsþrengslum, for upp fyrir lagklaufir, klepra um læri, kvið og bak, slettur af skít upp um alla veggi og illa þrifin tæki. Á þessum bæ var verið að framleiða kjöt og mjólk fyrir fólk, viðkvæma matvöru. Eigandinn stóð frammi fyrir fréttamanninum án þess að skammast sín og deildi hart á eftirlitsaðilana. Slík framkoma spillir tiltrú almennings og fær marga til að efast um gæði landbúnaðarframleiðslunnar og gagnsemi eftirlitsins. Sumir hætta að kaupa mjólk. Ég vona að slík hörmung finnist ekki í Landeyjum eða öðrum sveitum en ef svo er þarf að bæta úr strax, ekki bíða mánuðum saman eins og gert var á þessum bæ. Það sem þarf er góð þrif og umgengni um húsnæði og umhverfi, gott fóður, vatn og umhirða gripanna, góð loftræsting, nægilegt pláss, góð birta og ekki síst það að vera góður við dýrin. Það kostar lítið ef jafnt og þétt er stefnt í rétta átt og ekkert látið draslast niður. Ég kom í dag á bæ í þessari sveit, þar sem allt þetta er til fyrirmyndar. Þó eru þar til umhirðu menn, sem farnir eru að eldast og tapa kröftum og hreyfigetu. Þessi bær og búendur þar hafa fengið viðurkenningu samfélagsins fyrir snyrtimennsku. Höfum slíka menn að fyrirmynd. Einhvern tíma töldu sumir þessa menn skrýtna. Lítum í eigin barm. Ætli við séum ekki skrýtnari sjálf? Ill meðferð á útigangshrossum og nautgripum Hross og einnig nautgripir eru sums staðar höfð í nauðbitnum og upptroðnum hólfum á sléttlendi, án fullnægjandi skjóls eða skýlis. Þau geta ekki leitað sér skjóls í hrakviðrum. Oftast er nóg hey, en gott vatn vantar oft. Útlendingar eru farnir að taka eftir þessu og spyrja ,,Á hvaða stigi er dýravernd á Íslandi“? Það er augljóst flestum sem vilja sjá að þetta er til skammar. Hér vantar vinsamlegar leiðbeiningar og aðhald eftirlitsaðila og almennings. Víða um land er brotið á rétti skepnanna. Búfjáreftirlitsmenn eru í fremstu víglínu til að vernda dýrin og stundum þeirra eina von til úrbóta. Hlutverk þeirra er göfugt, en erfitt í stríði við eigendur, stundum níska og þvermóðskufulla. Þeir hafa þekkingu til að leiðbeina. En eftirlitsaðilar sem fá ábendingarnar svæfa málin oft, þótt búfjáreftirlitsmenn segi frá og almenningur þegir, þorir ekki. Búfjáreftirlitsmenn svíkja dýrin ef þeir þegja yfir því sem á vantar svo að þau njóti réttar síns – þegja yfir algjöru skjólleysi, meta ómerkilegt hrófatildur sem fullnægjandi skýli fyrir skepnurnar í hrakviðrum. Þó eru skýr ákvæði um gerð skýla í reglugerð. Hæð skjólveggja sé 2,5 m og vængir 4 m hið minnsta, sem skýli fyrir þremur áttum, ef náttúruleg skjól vantar. Búfjáreftirlitsmenn meta of oft óverulegar mishæðir eða lága skurðruðninga sem fullnægjandi náttúrleg skjól. Ótrúlegt er hve kröfulausir búfjáreftirlitsmenn geta verið um gott drykkjarvatn og meðferð landsins. Ótrúlegt er þegar eigendur telja sér sæma að henda heyi á jörðina, nauðbitna, oft á sama blettinn og láta það troðast niður í svaðið og jörðin breytist í forarvilpu. Margir þeirra gleyma eða vanrækja að gefa ormalyf, en það er lykill að bættri líðan og góðum þrifum á útigangi. Hér þurfa ýmsir að reka af sér slyðruorð gagnvart dýravernd: eigendur, búfjáreftirlitsmenn, sveitarstjórnir, héraðdýralæknar, yfirdýralæknir, Matvælastofnun, lögregla, sýslumenn, já, og sumir dómarar hafa oft brugðist og fellt væga dóma eða fellt niður mál gegn dýraníðingum. Þá vantar of marga skilning á líðan dýranna og þyrftu sjálfir að fara í endurmenntun og betrunarvist í vondu dýrahúsi, standa úti eina nótt í hrakviðri hjá útigangshrossum og geldneytum. Það þarf sjálfsagt að skerpa löggjöf og vinnubrögð, svo að dýraníð taki enda. Oftast vantar þó vilja almennings, vilja eða kjark til vinsamlegra afskipta eða til að fordæma það sem er rangt og ljótt. Minnir það á barnaníð? Almennir borgarar hafa sínar skyldur þegar þeir verða varir við illa meðferð dýra. Opnið augun, látið ekki eins og þið sjáið þetta ekki. Er eitthvað af hrossum eða nautgripum sem ekki hefur lögboðin skjól á útigangi í sveitinni ykkar eða í nágrenni? Það er gott ef allt er í lagi en segið þeim hiklaust til syndanna, þó með vinsemd og hlýju fyrst, sem brjóta á rétti skepnanna. Safnið kjarki, látið eigendurna heyra óánægju ykkar, látið eftirlitsaðila ekki í friði, brýnið raustina ef þeir daufheyrast við réttmætum ábendingum. Látið marga eftirlitsaðila vita, skriflega og munnlega. Takið myndir, skrifið í blöðin og talið við fréttamenn. Ítrekið athugasemdir enn og aftur með vaxandi þunga. Takið þetta til ykkar öll sem ekki eruð blind á illa meðferð dýra. Ömmurnar mínar Hún amma mín vildi að mér þætti vænt um öll dýr, meira að segja flugur. Ekki mátti ,,kvelja ljós“, ekki nota ljót orð. ,,Gressilegt“ og ,,grólegt“ voru sterkusta orðin, sem hún notaði. ,Gróflegt“ var full sterkt. Ég átti aðra ömmu, orðvara og milda, sem alltaf gaf sér tíma til að tala við börn. Báðar ömmur mínar og móðir lögðu áherslu á vinsamleg samskipti við menn og dýr, hreinlyndi og heiðarleika, og kenndu bænir. Ég lærði 33 bænavers. Lengi fór ég með þau öll á hverju kvöldi. Eitt boðorð felur í sér flest önnur boðorð: ,Breyt þú við aðra eins og þú vilt að aðrir breyti við þig.“ Það vantar fleiri ömmur Það vantar fleiri ömmur og afa, foreldra eða aðra sem gefa sér tíma til að tala við ung börn og börn á mótunarskeiði og kenna þeim bænavers, góða siði, þekkja rétt frá röngu, illt frá góðu. Hollt uppeldi ungs fólks er mikilvægara en flest annað ef við eigum að halda reisn og standa okkur í samfélagi þjóðanna. Líka þarf að bæta siðferði margra hinna fullorðnu. Margir, sem komast ,,í aðstöðu“ til að hygla sjálfum sér á kostnað annarra gera það og féfletta saklaust og varnarlaust fólk. Það þarf að taka fullorðið siðblint fólk í endurmenntun. Skyldu bankaræningjar og svikahrappar nútímans hafa átt foreldra eða ömmu sem gaf sér tíma til að setjast á rúmstokkinn hjá þeim og tala við þá leiðbeinandi með ástúð um það hvað væri gott og hvað slæmt siðferði? Ég efast um það. Það væri fróðlegt að kanna það, spyrja þá að því. Hugsið um þetta, ömmur og afar. Allt of margt ungt fólk er rótlaust og óreglusamt og fullorðið fólk lætur það sig litlu skipta. Aðrir skulu sjá um það. Mörg merki eru um breytingu til hins verra í þjóðfélagi okkar: sívaxandi notkun áfengis og annarra vímugjafa, notkun eiturlyfja, agaleysi, ofsaakstur, tillitsleysi við náungann og tilefnislausar ofbeldisárásir á borgara, sem vekja undrun og óhug. Aldrei má sýna ósómanum umburðarlyndi. Tugthús nútímans eða ,,betrunarhús“ svokölluð duga ekki. Hér þarf nýja hugsun. Það vantar að gefa vitru og hæfu fullorðnu fólki hlutverk í stað þess að ýta því til hliðar á ellimörkum. Njóta þarf góðs af þekkingu þess og reynslu til að tala við börn, meðan það hefur starfsþrek og vilja til góðra verka, tengja dvalarheimili aldraðra og leikskóla. Það vantar fleiri ömmur og afa ekki síður en sérfræðinga. Sigurður Sigurðarson Vélfang ehf. seldi undir lok síðasta árs samtals sjö Fendt-dráttarvélar til Reykjavíkurborgar ásamt fylgibúnaði. Vélarnar verða notaðar til snjóhreinsunar á stígum og gönguleiðum í borginni í vetur en til sláttar á grænum svæðum í borginni á sumrin. Nú þegar er komin nokkur reynsla á vélarnar og eru starfs menn dráttarvéladeildar Reykjavíkurborgar í sjöunda himni með nýju dráttarvélarnar, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Vélfangi. Fjárfestingin í dráttarvélunum sjö ásamt fylgibúnaði nemur um 160 milljónum króna og voru kaupin boðin út eins og innkaupareglur borgarinnar segja til um. Vélfang ehf. varð hlutskarpast í útboðinu með sjö Fendt Vario 209F, 95 ha. dráttarvélar. Tvær vélanna eru með Hydrac- ámoksturstækjum og af fylgibúnaði má nefna níu sanddreifara frá Epoke og jafn margar tennur frá Huber, tvo snjóblásara og fimm sláttuvagna frá Parkland Greenline. Vélfang ehf. er söluaðili Fendt á Íslandi og var stofnað árið 2004. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í sölu og þjónustu á tækjum fyrir bændur og verktaka. Meðal fyrirtækja sem Vélfang ehf. hefur umboð fyrir á Íslandi eru Fendt, CLAAS, JCB, Kuhn, Kverneland, Redrock, Parkland, Brand og mörg önnur sem eiga erindi á íslenskan markað. Reykjavíkurborg keypti sjö Fendt-dráttarvélar – notaðar í snjómokstur á vetrum og í slátt á sumrin Á myndinni má sjá framkvæmdastjóra Vélfangs ehf., Eyjólf Pétur Pálmason, ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum Vélfangs afhenda starfsmönnum Reykjavíkurborgar nýju tækin. Hjálparsveit skáta í Aðaldal fékk á liðnu ári margfalt fleiri útköll en vaninn hefur verið undanfarin ár; að jafnaði er sveitin kölluð út 15 til 20 sinnum árlega til aðstoðar en þau voru umtalsvert fleiri á nýliðnu ári. Gríðarlegur erill einkenndi árið og það varð sveitinni kostnaðarsamt. Þetta var annasamasta árið í sögu sveitarinnar. Lykilhlutverk við leit og björgun á Þeistareykjasvæðinu Fram kemur í samtali við Hallgrím Óla Guðmundsson, formann Hjálparsveitar skáta í Aðaldal, á vefnum 641.is að álag á liðsmenn hafi verið gríðarlegt og margir hafi hreinlega keyrt sig út í september- óveðrinu. Rúmlega tíu menn eru virkir í sveitinni en á þriðja tug meðlima eru á skrá. Samtals skiluðu þeir um 1.000 vinnustundum, einungis við leit og björgun á sauðfé í hamfaraveðrinu síðastliðið haust, sem og við aðstoð á viðgerðum á raflínum. Hjálparsveitarmenn voru að störfum á tímabilinu 11. september til 30. september við leit að sauðfé á Þeistareykjasvæðinu og nálægum heiðum, en eins var leitað flesta daga í fyrri hluta októbermánaðar. Hjálparsveit skáta í Aðaldal gegndi lykilhlutverki við björgun sauðfjár af Þeistareykjasvæðinu, enda er það afrétt Reykhverfunga og Aðaldæla. Liðsmenn því staðkunnugir aðstæðum og margir þeirra eru líka sauðfjárbændur sem áttu fé á svæðinu. Velvild í samfélaginu Fram kemur í samtali við Hallgrím Óla að margt hafi verið úr lagi gengið þegar aðgerðum lauk og nokkur kostnaður hafi hlotist af við að laga tækjabúnað. Naut sveitin velvildar í samfélaginu, hlaut styrki frá íbúum á svæðinu og frá kvenfélögum í Aðaldal og Reykjahverfi, sem og styrki frá Kiwanisfélaginu Skjálfanda. Börn í Hafralækjaskóla héldu aukasýningu á leikritinu Hafið bláa og gáfu sveitinni innkomu af henni. Hjón á sauðfjárbúi í Aðaldal gáfu hjálparsveitinni 50 þúsund krónur og þá getur Hallgrímur þess að margir hafi keypt óvenjumikið af flugeldum fyrir áramótin til að sýna hug sinn, en því miður hafi slæmt veður síðustu daga liðins árs dregið úr flugeldasölu almennt og væri það vissulega bagalegt enda flugeldasala helsta tekjulind sveitarinnar. Hjálparsveit skáta í Aðaldal: Margfalt fleiri útköll en vant er – 1.000 vinnustundir við leit og björgun sauðfjár

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.