Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 26

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur Holdið er veikt og girndin kenjótt ótukt sem fátt fær hamið. Sé girnd óendurgoldin getur reynst nauðsynlegt að grípa til hjálparmeðala til að vekja frygð þess sem girndarhugur er borinn til. Hjálparmeðulin eru margvísleg og ekki ólíklegt að eitt þeirra virki. Ástarhvatar eru fjölbreytilegir og því ekki víst að allir hafi sömu virkni á allar manneskjur. Það sem verkar örvandi á einn getur reynst letjandi á annan. Matur og ýmiss konar drykkir hafa löngum þótt góðir frygðarhvatar og ekki tilviljun að fólk í tilhugalífinu fer oft út að borða saman. Aðrir safna í kringum sig hlutum sem eiga að hafa örvandi áhrif á gredduna og losa um blygðunarsemina. Þetta geta verið erótískar bókmenntir, dónalegar matreiðslubækur og handbækur um ástarlífið eða listmunir, myndlist, tónlist, myndbönd eða skúlptúrar. Það sem telst erótík eða sjálfsögð kynhegðun í einu menningarsamfélagi getur talist klám og öfuguggaháttur í öðru. Í Austurlöndum er því víða trúað að nashyrningshorn auki kyngetu karla, Grikkjum til forna þótti ekkert tiltökumál þótt eldri karlmenn ættu sér unga elskhuga af sama kyni og í dag þykir samkynhneigð ekkert tiltökumál víða um heim, en stutt er síðan slíkt var álitið argasta óeðli. Á sama hátt hafa mismunandi ástarhvatar tengst ákveðnum tímabilum sögunnar og mismunandi menningu. Kræklingar, kampavín og jarðepli Fjölfræðingurinn Albertus Magnus, sem var uppi á miðöldum, taldi máltíð úr akurhænuheilum og rauðvín kraftmikinn frygðarhvata og ekki drægi úr árangrinum ef ferskum kóríanderlaufum, sem safnað var við síðasta kvarteli á minnkandi tungli, var stráð yfir matinn. Albertus taldi einnig að ferskjuát kæmi getulitlum körlum að miklu gagni. Arabíski læknirinn Avicenna, sem var uppi í kringum árið eittþúsund eftir Krist, ráðlagði sjúklingum sínum að hræra engifer og pipar út í hunang fyrir ástarleiki. Casanova áleit kræklinga og kampavín líklegasta til árangurs þegar tæla á konu og státaði meðal annars af því að hafa lagt tvær nunnur samtímis með hjálp fiskmetis og freyðivíns. Að eigin sögn byrjaði hann á því að hækka hitann í herberginu og fór svo að leika sér með matinn um leið og hann hellti kampavíni í nunnurnar. Casanova segist hafa matað nunnurnar með kræklingi úr eigin munni og óvart misst bita á milli brjósta þeirra og að sjálfsögðu þurfti hann að veiða matinn upp með tungunni. Breski miðaldagrasa fræðingur- inn John Gerard, sem er frægur fyrir alfræðibók sína um plöntur, taldi gulrætur ómissandi á hverju heimili til að bragðbæta hjónalífið. Grikkir og Arabar til forna voru á sama máli og töldu gulrætur bæði bæta ástarlífið og auka úthaldið. Rithöfundurinn J. K. Huysmans taldi ilm öflugasta ástarhvatann og eru bækur hans fullar af lýsingum á angan, ilmi og skítalykt. Kleópatra drottning var að sögn nösk á að vita hvaða ilmur þóknaðist karlmönnum og baðaði sig í rósavatni. Sheikh Nefzawi, höfundur The Perfumed Garden, þótti mikill sér- fræðingur í ástarmálum á sínum tíma, en hann sagði aspas ómiss- andi á matseðlinum til að viðhalda æskuþrekinu. Nefzawi taldi víst að möndlur og furuhnetur í hunangi ykju á getu eldri karlmanna til bólf- ara og að lauksafi blandaður með hunangi fengi meira að segja holdið á karlægum ellibelgjum til að rísa. Loðvík sólkonungur gekk með kartöflu í buxnavasanum til að herða slátrið. Kirsuber, hvítlaukur, sellerí, súkkulaði, pistasíuhnetur, dádýrshorn, vanilla og rjómi, allt þetta og margt fleira hefur á einhverjum tímann verið talið til frygðarauka. Í Mið-Afríku og á Filippseyjum eru bananar sagðir auka frjósemi kvenna og sagt var að paprika hefði kynörvandi áhrif fyrst eftir að hún kom á markað hér á landi. Klingjandi limhringir og titrandi málmtungur Í bókinni Mannkynið og munúðin eftir Reany Tannahill er að finna fjölbreyttan fróðleik um kynlífssögu mannkyns og ástarhvata. Grikkir álitu egg, lauk, hunang, kræklinga auk ýmsar krabbategundir og snigla gredduaukandi en Kínverjar töldu flóknar efnablöndur vænlegri til árangurs. Ein mixtúran hét „Lyf sköllótta kjúklingsins“ og átti karl- maður sem tók hana inn þrisvar á dag í sextíu daga að fara leikandi létt með að fullnægja fjörutíu konum á einni nóttu. Kínverskir karlmenn notuðu einnig sérstaka gerð limhringja með bjöllu, svokallaðri atorkubjöllu, til að auka getu sína. Konur um allan heim hafa aftur á móti notast við svonefndar Búrmabjöllur eða kúlur sem er smeygt upp í leggöngin fyrir samfarir til að auka sæluna. Kúlurnar þykja einnig ágætar til sín brúks einar og sér án þess að karlmaður sé að þvælast fyrir. Í slíkum tilfellum eru kúlurnar tvær, önnur hefur að geyma kvikasilfursdropa en hin litla titrandi málmtungu, og segja konur sem til þekkja að þær valdi mikilli sælu við minnstu hreyfingu mjaðma og fóta. Í nútíma útgáfu eru kúlurnar þrjár í setti og er sú þriðja hol að innan. Unaðsjurtir og graðplöntur Brönugrös hafa lengi verið tengd ástargaldri. Þau þóttu og þykja eflaust enn góð til að vekja ástir séu þau lögð undir kodda pilts eða stúlku. Seyði rótarinnar þótti einnig gott til að örva kynhvöt húsdýra. Líklegt er að trúin á frygðarkraft brönugrasa tengist lögun rótarinnar, sem þykir líkjast kynfæri karlmanns. Sé ljónslappi tíndur á Jónsmessunótt er sagt að seyði plöntunnar hafi þá náttúru að auka kyngetu beggja kynja. Alþekkt er einnig sú trú að ef fólk kyssist undir mistilteini veki það ástir þeirra sem slíkt gera. Bandarískur sálfræðingur hélt því fram fyrir nokkrum árum að það sem hefði mest áhrif á kynhvötina væri lyktin af graskeri og lavendil og að hún yki blóðsteymi til kynfæranna um fjörutíu prósent. Milljónum manna í Austurlöndum og í hinum vestræna heimi finnst jafnsjálfsagt að borða ginseng á hverjum morgni eins og að bursta tennurnar. Að margra mati er ginseng allra meina bót og ekki síst kraftmikið vítamín fyrir kynlífið. Kava kava er af ætt piparjurta og vinsæl sem ástarlyf í heimkynnum sínum í Eyjaálfunni. Duft sem unnið er úr rót plöntunnar er hrært út á vatn og sé blandan drukkin veldur hún sælutilfinningu og neytendur finna til góðvilja til allra manna. Vinsældir kava hafa aukist á Vesturlöndum síðustu árin og þykir kava-drykkurinn upplagður til að auka unaðsmátt ástarlífsins og binda elskendur sterkum böndum. Fyrir nokkrum árum var sagt frá því í fjölmiðli að karlmenn á Tróbíanteyjum færu huldu höfði um uppskerutíma yam-rótarinnar. Meðan á uppskerunni stendur er sagt að konur á eyjunni safnist í hópa og veiði karlmenn og misnota þá kynferðislega. Talið er að mikil neysla á ferskum yam-rótum örvi kynhvöt kvennanna svo mikið að þær ráði engan veginn við sig og ráðist á mennina stjórnlausar af frygð. Mikill er máttur jurtanna og óskhyggja karlmanna. Stærð stóru táar skiptir máli Í Íslenskum þjóðháttum Jónasar frá Hrafnagili er fjöldi sagna sem greina frá því hvernig sjá má fyrir hjónaband. Þar er sagt öruggt merki um að stúlku lítist vel á pilt ef hún fer í einhver föt af honum eða setti upp húfuna hans. Ef reim losnaði á skó ungs manns er talið víst að hann gifti sig innan tíðar og ef ungur maður finnur sokkaband á hann að komast í náin kynni við stúlkuna fljótlega. Karlmenn sem eru svo óheppnir að stóra táin á þeim er lengri en táin við hliðina eiga að giftast niður fyrir sig en sé stóra táin styttri eiga þeir að giftast upp fyrir sína stétt. Sagt er að karlmenn geti lesið hversu oft þeir giftast með því að telja hrukkurnar á handarbakinu ofan við litla fingur. Til þess að vita hvort piltur eða stúlka eru óspjölluð eru ýmis ráð. Ef baldursbrá er sett í stól stúlkunnar og hún látin setjast á hana getur stúlkan ekki staðið upp aftur nema hún sé hrein mey. Sé kvikasilfur látið í lófa pilts eða stúlku liggur það kyrrt ef þau eru hreinn sveinn eða mey, annars skelfur það og hendist til í lófanum. Vilji ungur maður ná ástum stúlku á hann að skera sig til blóðs og koma blóðinu ofan í hana með einhverjum ráðum en tryggja má að kona elski mann með því að gefa henni saxað rjúpuhjarta að borða. Til að bæta samlyndi og hjúskaparfar hjóna á karlmaðurinn að ganga með hrafnshjarta á sér. Ef konan er ófrjósöm skal gefa henni kaplamjólk að drekka eða taka eista úr ref, þurrka það í skugga og mylja út í vín og gefa henni að drekka skömmu eftir að hún hefur á klæðum. Einnig er talið gott að konan hefði hærra undir lendum en herðum við samfarir til að auka líkur á getnaði. Garðyrkja & ræktun Ástarhvatar og stinningargrös Kleópatra drottning var að sögn nösk á að vita hvaða ilmur þóknaðist karlmönnum og baðaði sig í rósavatni. Sé baldursbrá sett í stól stúlkunnar og hún látin setjast á hana getur stúlkan ekki staðið upp aftur nema hún sé hrein mey. Fyrsta blómabarnið.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.