Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 4

Bændablaðið - 24.01.2013, Blaðsíða 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. janúar 2013 Fréttir Stefnt er að því að ný mjólkurstöð, Arna ehf., verði sett á fót í Bolungarvík á næstu mánuðum. Þar er ætlunin að framleiða mjólkur- vörur fyrir fólk með mjólkuróþol. Hyggjast eigendur fyrirtækisins kaupa nýjan tækjabúnað fyrir stöðina, en tæki Mjólkursamlags Ísfirðinga voru öll flutt á brott þegar vinnslan þar var lögð niður. Greint var frá þessu í fréttablaðinu BB á Ísafirði í síðustu viku. Þar kom fram að heildarkostnaður verkefnisins væri áætlaður 80 milljónir króna og enn væri verið að safna hlutafé. Búið er að fá húsnæði undir starf- semina í fyrrverandi rækjuverksmiðju Bakkavíkur, þar sem frystihús Einars Guðfinnssonar var eitt sinn til húsa. Þróunin gengur vel Hálfdán Óskarsson, mjólkur- tæknifræðingur og eigandi Örnu ehf., sagði í samtali við Bændablaðið að þróunin gengi vel og verið væri að senda prufur erlendis. Þess má geta að hann var áður framkvæmdastjóri Mjólkursamlags Ísfirðinga. „Við erum komnir á það stig að við erum að ljúka vöru þróun á laktósafríum, eða mjólkursykur- lausum, vörum fyrir íslenska neytendur. Við erum búnir að fá húsnæði hjá Jóni Guðbjartssyni í Kampa og stefnum að því að koma vinnslunni upp þar.“ Þórarinn Egill Sveinsson mjólkurverkfræðingur hefur unnið með Hálfdáni að þróuninni og er áætlað er að henni ljúki síðar í þessu mánuði eða í febrúar. Hann var lengi framkvæmdastjóri Mjólkursamlagi KEA á Akureyri. Þá hjálpar til að Arna ehf. fékk 1,5 milljóna króna nýsköpunarstyrk frá samfélagssjóði Landsbankans á dögunum til þróunarvinnunnar. – Hvaðan munuð þið fá mjólk til framleiðslunnar? „Ég reikna með að við semjum við MS um að kaupa af því mjólk sem framleidd er hér á svæðinu. Við meðhöndlum mjólkina síðan þannig að allur mjólkursykur (laktósi) er fjarlægður þannig að fólk með mjólkuróþol geti neytt hennar. Síðan er hægt að framleiða úr þeirri mjólk margvíslegar mjólkurafurðir. Þetta er svolítið flókið vinnsluferli þar sem notast er við ensím til að brjóta niður mjólkursykurinn líkt og gerist í þörmum fólks sem þjáist ekki af mjókuróþoli. Hjá fólki sem er með mjólkuróþol safnast mjólkursykurinn upp í líkamanum með misjafnlega slæmum afleiðingum, m.a. niður- gangi. Þegar fólk eldist hægir oft á framleiðslu lakósaensíma þannig að fólk þolir illa mjólkurvörur. Mjólkuróþol er mjög mismunandi eftir heimsálfum. Á Vesturlöndum er almennt talið að um 5-10% fólks þjáist af mjólkuróþoli en víða í Afríku eru það allt upp í 100%.“ MS rær á sömu mið Hálfdán segir lítið sem ekkert af mjólkurvörum á markaðnum sem hægt sé að kalla algjörlega mjólkursykurlausar. MS hefur þó verið að fikra sig inn á þessa braut og hefur verið með vörur þar sem hluti af mjólkursykrinum er fjarlægður. Í innanhúsfréttum MS í síðustu viku var þó greint frá því að breyting væri þar að verða á. Þar segir að MS hafi um árabil boðið upp á laktósaskertar mjólkurvörur fyrir þá sem hafi mjólkursykursóþol. Undanfarið eitt og hálft ár hafi svo verið unnið að þróun á mjólkurvörum sem séu algjörlega laktósafríar. Nú sjái fyrir endann á þeirri vinnu og megi búast við fyrstu laktósafríu mjólkurvörunni frá MS á vormánuðum. Margvíslegar mjólkurafurðir Hálfdán segir að ætlunin hjá þeim hjá Örnu ehf. sé að framleiða margvíslegar mjólkursykurlausar afurðir, auk drykkjarmjólkur. „Við ætlum að taka allan pakkann, bæði drykkjarmjólk og sýrðar vörur eins og skyr, jógúrt og ferska osta eins og fetaosta. Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að framleiða ennþá fleiri tegundir og þá kannski í öðrum matvælum. Mjólkursykur er í ótrúlegum fjölda af matvörum. Til þess að gera þetta þurfum við að koma okkur upp mjólkurstöð. Við vonumst til að geta verið byrjaðir eftir svona þrjá mánuði. Nú erum við í því að safna fjármagni og ná okkur í vélar og tæki sem við þurfum örugglega að flytja inn. Þetta lofar allt góðu.“ /HKr. Arna ehf. með nýja mjólkurstöð í burðarliðnum í Bolungarvík: Hyggst framleiða mjólkurvörur fyrir fólk með mjólkuróþol Staðan ekki eins slæm og við óttuðumst á tímabili – segir ráðunautur hjá Búgarði um heyforða bænda Bolungarvík. Mynd / HKr. „Við glöddumst yfir því að staðan er ekki eins slæm og við óttuðumst á tímabili,“ segir Ólafur G. Vagnsson, ráðunautur hjá Búgarði, en forðagæsluskýrslur liggja nú fyrir og upplýsingar um heyöflun liðins sumars. Þegar á heildina er litið virðist ástandið sem betur fer nokkru skárra hér á svæðinu en almennt hefur verið rætt um. Staðan er þó mjög misjöfn milli sveita og einstakra bæja þegar raunverulegar fóður þarfir eru skoðaðar, þ.e. fóðurþarfir að teknu tilliti til gjafatíma þessa landshluta. Gripu strax til ráðstafana Ólafur segir að staðan sé ef til vill betri en menn héldu vegna þess að bændur hafi þegar gripið til ráðstafana. Bæði hafi þeir tryggt sér hey í tíma og einhverjir hafi brugðið á það ráð að fækka skepnum, m.a. hrossum sem séu þurftafrek. Þá hafi menn miðað ásetning í haust við heyforða sinn. „Þá var fljótlega í haust rætt um að erfitt gæti verið að útvega sér hey þegar liði á veturinn og margir gengu því strax í verkið og tryggðu sér hey. Útkoman er því ekki svo slæm og það kom okkur ánægjulega á óvart að staðan í heild er þokkaleg,“ segir Ólafur. Staðan breytileg milli sveita og einstakra bæja Hann segir að staðan sé breytileg milli sveita og jafnvel einstakra bæja innan sveita. Á Eyjafjarðarsvæðinu er staðan einna lökust í Dalvíkur- byggð en þar var uppskera á mörgum bæjum mun minni en undan farin ár og óvíða nokkurt verulegt magn af heyi umfram fóður þarfir búfjár. Með nýtingu fyrninga og heykaupum er staðan þó víða orðin þokkaleg. Verulega minni uppskera var á nokkrum bæjum í Hörgársveit og einnig einstaka bæjum í Eyjafjarðarsveit og Grýtubakkahreppi. Í þessum sveitum eru hins vegar allmörg bú með verulegt heymagn umfram fóðurþarfir búfjár og því heildarstaðan allgóð. Í Suður-Þingeyjarsýslu er staðan sú að svæðið sem slíkt getur talist eiga nægjanlegt hey en á allnokkrum bæjum er þörf á aðfengnu heyi og hafa flestir tryggt sér það. Mjög fáir eiga verulegt heymagn umfram þarfir og fæstir eru viljugir til að selja hey. Í Norður-Þingeyjarsýslu er staðan í heildina litið sú að nægt hey er talið vera í sýslunni en á nokkrum bæjum vantar hey. Flestir eru með viðunandi heyforða en fáir eiga mikið umframmagn. Með miðlun á heyi milli bæja ætti ekki að vera þörf á heykaupum inn á svæðið. /MÞÞ Þrátt fyrir þurrka síðastliðið sumar er staða bænda víðast hvar betri hvað heyforða varðar en menn óttuðust. Sauðfjárbændur athugið ! Minnt er á skiladag skýrsluhalds, sem er 1. febrúar nk. Þeir sem eru í netskilum ættu að ganga úr skugga um að ýtt hafi verið á „Skil að hausti“ ef þeir telja sig vera búnir að skila og árið 2013 hefur ekki enn opnast. Nánari upplýsingar veitir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, eyjolfur@bondi.is Svell hefur legið yfir túnum í tæpa þrjá mánuði norðan heiða: Líkur á kalskemmdum aukast dag frá degi Taki svell norðan heiða ekki upp á næstu tveimur til þremur vikum blasir ekki annað við en að tún geti skemmst af völdum kals. Svell hafa legið á túnum í Eyjafirði vel á þriðja mánuð en þumalputtareglan er sú að sögn Ólafs G. Vagnssonar, ráðunautar hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, að veruleg hætta skapist á kalskemmdum liggi svell á túnum í þrjá mánuði. Ólafur segir að enn bíði menn og voni heitt og innilega að bregði til betri tíðar, veruleg hlýindi í nokkra daga þurfi til svo svell taki upp „og menn halda í vonina um að svo verði,“ segir hann. Snjór hefur verið yfir á norðanverðu landinu frá því í byrjun nóvember á liðnu ári, en Ólafur segir að ástand sé verra í Eyjafirði en til dæmis í Þingeyjarsýslum. Þar er enn snjór yfir, fáir og stuttir hlákukaflar hafa komið stöku sinnum á tímabilinu í Eyjafirði og valda því að svell er yfir en austan Vaðlaheiðar eru aðstæður með öðrum hætti. Bændur sem mokað hafa sig gegn um snjóskafla hafa komið niður á grasrót þannig að verið getur að staðan þar sé ögn skárri en í Eyjafirði. Ólafur segir að staðan sé breytileg eftir svæðum, oft sé ástandið betra í Eyjafjarðarsveit en í utanverðum firði, en þar eru mörg þekkt kalsvæði eins og í hluta Hörgársveitar, Árskógssandi og Höfðahverfi í Grýtubakkahreppi. Yrði ekki góð staða Ólafur segir að menn séu vongóðir um að fá góðan hlýindakafla á næstu tveimur til þremur vikum en verði þeim ekki að þeirri ósk sé voðinn vís. „Það yrði ekki góð staða eftir allt sem á undan er gengið,“ segir hann og vísar til undanfarinna missera sem einkennst hafa að óhagstæðri tíð. Miklir þurrkar voru á liðnu sumri og þar af leiðandi minni heyfengur og þá settist vetur snemma síðastliðið haust. Bændur eru að sögn Ólafs víða tæpir með heyforða og því má ekkert út af bregða. Fyrningar eru með minnsta móti og bændur treysta því á góðan heyfeng næsta sumar. /MÞÞ Svell hefur legið y r túnum á norðan- verðu landinu í tæpa þrjá mánuði. Ábúendur á Eiði í Kolgrafafirði: Vonast eftir aðstoð Umhverfisstofnunar – telja að fuglalífi sé hætta búin Sem kunnugt er úr fréttum liðinna vikna rak dauða síld í miklu magni á fjörur í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi í desember síðastliðnum. Nú er talið að síldin hafi drepist vegna súrefnisskorts. Mikinn óþef leggur af síldinni, sem úldnar í fjörunni og er til mikillar óþægindar fyrir ábúendur við fjörðinn. Hingað til hefur þeim ekki tekist að fá Umhverfisstofnun til að leggja sér lið við hreinsun fjörunnar. Rök stofnunarinnar hafa verið að stofnununni sé ekki skylt að bregðast við þar sem ekki sé um bráðamengun af mannavöldum að ræða; síldin synti sjálf inn í fjörðin. Hræðumst að fuglalífi sé ógnað Á bænum Eiði í Kolgrafafirði búa þau Bjarni Sigurbjörnsson og Guðrún Lilja Arnórsdóttir. Guðrún segir að sér finnist eins og fnykurinn hafi aðeins dofnað, en þó geti verið að þau séu eitthvað að verða samdauna honum. „Það er samt ljóst að meira af síld mun skola á land. Nú liggur fyrir að við landeigendur fáum fund með Umhverfisstofnun og fulltrúum frá Grundarfjarðarbæ í lok janúarmánaðar þar sem farið verður yfir málið. Við vonumst auðvitað til að í kjölfarið fáum við aðstoð til að hreinsa til þannig að fuglum stafi ekki hætta af menguninni í vor. Fuglalíf hér er mjög fjölskrúðugt og við hræðumst að því verði ógnað, verði ekkert gert í málinu.“ Auk Eiðis er í Kolgrafafirði einnig ábúð á Kolgröfum. /smh

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.